Berjast við að opna golfvelli GKG fyrir næstu mánaðarmót – einum mánuði seinna en hefðbundið er

,,Ef einhver hefði sagt mér það í snemma í vor að við værum ekki búin að opna vellina okkar um miðjan maí, þá hefði ég skellt upp úr því grasið var iðagrænt og sumarið framundan. Við fengum hins vegar umtalsvert frostaskeið þegar leið á vorið með miklum vindi og þar sem enginn snjór var yfir grasinu fór það mjög illa og nú er staðreyndin sú að við berjumst við að opna vellina fyrir næstu mánaðarmót, einum mánuði seinna en hefðbundið er. Það sama á við alla vellina á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri GKG í fréttabréfi sem var að berast félagsmönnum GKG.

Við hörmum þær aðstæður sem við erum í en fullvissum ykkur með sama hætti að við gerum allt sem lifandi máttur getur til að opna vellina sem allra fyrst segir Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri GKG.

Hvenær verður hægt að opna völlinn? ,,Nú er orðið ljóst að við náum ekki að opna fyrir næstu helgi þar sem næturfrost setur strik í reikninginn. Eins er ljóst að við munum ekki ná að opna inn á allar flatir þegar við opnum, þetta á sérstaklega við 8. flöt á Mýrinni og 11. flöt á Leirdal, við munum slá niður bráðbirgðaflatir við þær flatir. Við munum hins vegar opna strax og möguleiki er á Mýrina og hugsanlega neðri hluta Leirdalsvallar. Ef við fáum smá yl í loftið gæti það verið í næstu viku,“ segir hann.

En hvað gerðist? ,,Í vetur var frostakafli sem leiddi af sér að frost fór niður á töluvert dýpi. Í vor þegar snjóa leysti leit allt vel út og við höfðum það á orði að vellirnir væru að koma vel undan vetri, ekki bólaði á neinu kali. Þegar líða tók á vorið kom annar forstakafli sem leiddi það af sér að frostið fór niður á um 90 cm dýpi. Það sem verst var að kaldir vindar léku grasið illa sem ekki var varið af snjólagi. Þetta leiddi til þess að umtalsverður hluti af grasi kól, þó mismunandi eftir grastegundum. Grastegund sem heitir því fróma nafni Poa Annua fór verst út, það er grastegund sem við viljum síður hafa í flötunum hjá okkur en hefur engu að síður náð rótfestu á um 30% hluta flatanna hjá okkur (mismunandi þó eftir flötum). Það jákvæða er að grastegund sem við veðjum á og viljum halda sem uppistöðu í okkar flötum, Túnvingull kom mun betur undan vetrinum enda þekkt fyrir þrautseigju undir svona kringumstæðum,“ segir Agnar.

Hvernig er staðan og hvað er verið að gera? ,,Nánast öll Póan er kulin þannig að skallablettir eru á brautum og flötum. Þær flatir sem voru með mest af Póu eru verst farnar, þ.e. 8. flötin á mýrinni og 11. fllötin á Leirdalnum. Vallarstjóri fór strax í aðgerðir og hafa vallarstarfsmenn sáð Túnvingli í allar flatir, borið á þær alls kyns bætiefnum því við viljum nýta aðstæðurnar og gera allt sem í okkar valdi að Túnvingullinn nái yfirtökum á Póunni þegar nýtt gras vex í sárunum. Okkur vantar hins vegar yl í loftið og ekki hjálpar að í nótt var 2,7 stiga frost á Leirdalsvelli og spáð er næturfrosti næstu nótt líka,“ segir Agnar og bætir við: ,,Við hörmum þær aðstæður sem við erum í en fullvissum ykkur með sama hætti að við gerum allt sem lifandi máttur getur til að opna vellina sem allra fyrst.“

Í ljósi aðstæðna þá hefur GKG ákveðið að bjóða félagsfólki GKG sérstök tilboði í hermana.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar