Leitum lausna

Málefni fatlaðs fólks hafa verið mikið á vörum sveitarstjórnarmanna á því kjörtímabili sem er að líða. Með auknum halla sveitarfélaganna, sérstaklega í heimsfaraldri, vilja margir sem um málið ræða grípa til afdrifaríkra leiða til að rétta þennan halla af. Jafnvel er talað um að eina leiðin sé að sveitarfélögin skili málaflokknum aftur til ríkisins.
Það myndi ef til vill leysa ákveðin vanda sem snýr að átthagafjötrum sem myndast þegar þjónustan er bundin við sveitarfélagið. Þegar fólk flytur milli sveitarfélaga er oft flókið að færa þjónustuna á milli, og þarf að sækja um allt frá grunni. Verandi fráfarandi formaður Sjálfsbjargar, hugnast mér þó ekki að það sé lausn. Slík ráðstöfun myndi skapa mikið rót á þjónustunni fyrir alla sem hana þurfa, auk þess væri verið að færa meintan vanda frá einum stað til annars.

Ný hugsun

Ef horft er til þeirra kerfa sem eiga að halda utan um fatlað fólk, þá byggja þau á nokkrum stoðum sem ég tel að þurfi að endurskoða frá grunni.

Framfærsla fatlaðs fólks byggðist oft af greiðslum frá Tryggingastofnun og greiðslum úr lífeyrissjóðum séu þær til staðar. Mikið er talað um byrði í þessu sambandi en minna um þá staðreynd að fólki er haldið í fátæktargildru, auk þess sem samfélagið fær til baka litlar sem engar greiðslur í formi tekjuskatts og útsvars. Húsnæði fatlaðs fólks er síðan oftar en ekki á hendi sveitarfélaga eða félagasamtaka en ekki einstaklingsins sjálfs. Á þessu er auðvitað eðlileg skýring, fatlað fólk hefur nær enga möguleika á lágum greiðslum til að eignast sitt eigið húsnæði.
Eigið húsnæði er eitt að grunnstefum Sjálfstæðisstefnunnar og leita þarf allra leiða til að gera þessum hóp kleift að eignast að minnsta kosti hlut í sínu húsnæði í stað þess að vera upp á leiguhúsnæði kominn ævina á enda.

Þjónusta við fatlað fólk er af ýmsu tagi en þar er mikið horft til hversu létt eða þung sú þjónusta er, ekki hvaða tækifæri hún skapar fyrir einstaklinginn að taka virkari þátt í samfélaginu og leggja til samfélagsins.

Að mínu mati er verið að hugsa alla þessa liði rangt, horfa þarf á hlutina með réttum gleraugum.
Þjónusta sem veitt er fötluðu fólki opnar oftar en ekki leið fyrir viðkomandi til að stunda vinnu í stað þess að vera þiggjandi þjónustu. Þannig skapast verðmæti fyrir samfélagið í formi skatta sem viðkomandi greiðir skatttekjur sem aldrei yrðu til annars. Auðvitað eru aðilar sem eiga ekki mikla eða jafnvel engan möguleika á að fara út á vinnumarkaðinn, en með því að styðja við þá sem það geta, er um leið búið til svigrúm til að sinna þeim sem eiga hvað erfiðast með slíkt.
Þegar hlutdeildarlánum var komið á, kom það til umræðu að gera fötluðu fólki kleift að eignast sinn hlut í því húsnæði sem það býr í. Það er miður að þessi leið skyldi ekki komast til framkvæmda. Með hlutdeildarlánum fyrir fatlað fólk má búa til sparnað sem að sjálfsögðu nýtist á margvíslegan hátt, hvort sem er sem sparnaður fyrir efri árin eða til að komast út úr því kerfi sem nú umlykur fatlað fólk.

Til að koma nýjum og djörfum hugmyndum í framkvæmd þarf fólk sem þekkir hlutina á eigin skinni, því vil ég leggja mitt að mörkum til að koma með nýjan sýn á hluti sem talaðir hafa verið niður í stað þess að tala þá upp!

Höfundur býður sig fram í 2. Sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

Bergur Þorri Benjamínsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar