Framboðsfrestur í prófkjör sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ er til 31. janúar

Prófkjör sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ vegna fyrirhugaðra sveitarstjórnakosninga í vor fer fram laugardaginn 5. mars næstkomandi. Framboðsfrestur til að taka þátt í prófkjörinu er til 31. janúar næstkomandi. Garðapósturinn heyrði í Hauki Þór Haukssyni formanni kjörnefndar af þessu tilefni en hann hvetur áhugasamt sjálfstæðisfólk í Garðabæ til að taka þátt í prófkjörinu framundan.

„Sjálfstæðisfólk í bænum sem hefur áhuga á málefnum bæjarins og langar að láta til sín taka ætti eindregið að taka þátt í prófkjörinu. Við erum svo heppin í Garðabæ að hér búa mjög margir vandaðir og flottir einstaklingar sem þykir vænt um bæinn sinn og eiga fullt erindi í sveitarstjórnarmálin til að gera góðan bæ enn betri. Við viljum fá ólíka einstaklinga í framboð sem mynda þverskurð af bæjarbúum, ef svo má segja. Sjálfstæðisfélögin í bænum munu sjá til þess að allir frambjóðendur fái tækifæri til að kynna sig og fyrir hvað þeir standa. Það er skemmtilegt og lærdómsríkt að taka þátt í prófkjöri, óháð því hver niðurstaðan verður. Fólk ætti að vera ófeimið að láta vaða og taka þátt í prófkjörinu ef það hefur löngun og áhuga.“

Upplýsingar um prófkjörið er að finna á slóðinni www.gardar.is/profkjor og eins á slóðinni xd.is/sveitarstjornarkosningar-2022/.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar