Zen-teiknistund í Bókasafni

Miðvikudaginn 29.september verður boðið upp á íhugula smiðju í viðburðaröðinni Menning á miðvikudögum þegar systurnar Þórdís Halla og Sigrún Ása Sigmarsdætur leiða Zen-teiknistund í Bókasafni Kópavogs. Ókeypis er í smiðjuna sem stendur yfir frá 12:15 – 13:00.

Krotið kyrrði hugann

Sigrún Ása, sem er upplýsinga- og bókasafnsfræðingur að mennt, segist hafa uppgötvað Zen-teikningu fyrir nokkrum árum fyrir tilviljun.

„Ég hef alltaf verið síkrotandi. Á spássíur þegar ég sit fundi og við önnur sambærileg tilefni – þetta þekkja margir af eigin raun og er kannski eitthvað krot sem manni finnst í raun engu máli skipta. En svo fór ég að gefa þessari iðju minni gaum og velta því fyrir mér hvað hún gæfi mér og hvort ég gæti þróað þetta eitthvað áfram. Ég fann fyrir streitu eins og svo margir í nútímasamfélagi og vantaði leiðir til að takast á við hana. Ég fann að þetta spássíukrot kyrrði hugann en mig langaði til að þróa teikninguna áfram og fann þá eftir eftirgrennslan á netinu Zen-teikningu eða Zentangle eins og þetta kallast.“

Ferlið er aðalatriðið

Sigrún heillaðist af aðferðafræðinni og hnippti í systur sína sem er kennari að mennt og saman ákváðu þær að sækja námskeið í Zentangle-kennslufræði.

„Zentangle er einföld aðferð sem hentar öllum sem vilja hægja á sér og kyrra hugann – þetta er afmörkuð og handhæg iðja. Lítið spjald og penni er það eina sem þarf. Við byggjum á ákveðnum mynsturbönkum og sjáum drættina smátt og smátt verða að mynstri, eitt strik í einu. Teiknikunnátta er óþörf en ferlið við sköpunina er aðalatriðið og leikgleðin er í hávegum höfð. Aðferðin er því mjög afmörkuð og handhæg.“

Þótt Zentangle sé í eðli sínu kyrrlát iðja sem hægt er að stunda einn síns liðs segir Sigrún það vera mjög gefandi að teikna í hópi með öðrum. „Þar geta allir hvílt í þögninni og þetta verður svolítið eins og jógatími þótt allir séu að gera sitt. Við munum svo leiðbeina ef þörf er á.“

Sigrún bendir á að hægt sé að grípa til Zen-teikningar í hvaða kringumstæðum sem er. „Raftækjadítox, afþreying, slökun, listsköpun, núvitund, innlegg á starfsdögum fyrir starfsfólk og nemendur. Það er samvera og skemmtun fyrir allan aldur.“

Ókeypis er í smiðjuna og hægt er að kynna sér starf þeirra systra á Instagram á síðunni Zensystur.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar