Vinna vetrarins gufar ekki upp á 90 mínútum

Breiðablik mætir Leikni í Breiðholtinu á laugardaginn

Karlalið Breiðabliks mætir nýliðum Leiknis í annarri umferð Pepsí-Max á Domusnovavellinum í Breiðaholti á laugardaginn kl. 19:15.

Byrjun Breiðabliks í fyrstu umferð Pepsí-Max deildarinnar var ekki alveg samkvæmt væntingum fyrir mót, en þetta var aðeins fyrsti leikurinn af 22 svo leikmenn Breiðabliks eru sennilega búin að jarða þennan leik og farnir að einbeita sér að leiknum við Leikni.

Náðum ekki takti

Má ekki segja að þið hafið fengið nokkuð blauta tusku í andlitið í KR leiknum svona miðað við spár fyrir mótið, áttuð nokkuð erfitt uppdráttar á móti sprækum KR-ingum? ,,Við byrjuðum leikinn illa og náðum í raun aldrei takti eftir það. Spár eru bara spár, tilfinning manna út í bæ og eitthvað sem við getum ekki verið að hengja okkur mikið í,“ segir Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks. 

Megum ekki láta KR leikinn skilgreina okkur

Þið hafið sjálfsagt æft vel í vikunni, farið yfir málin og undirbúið leikinn við Leikni, sem náði góðu stigi í Garðabæ um sl. helgi. Hvernig líst þér á leikinn, hvað getið þið bætt frá síðasta leik og reiknar þú með erfiðum leik í Breiðholtinu? ,,Við þurfum að passa að láta ekki KR-leikinn skilgreina okkur. Blikaliðið var að mögu leyti óþekkjanlegt í þeim leik og því hefur mestur hluti vikunnar farið í að minna leikmenn á að vinna vetrarins gufar ekki upp á 90 mínútum. Leiknisliðið er gott og við búumst við erfðum leik.“

Það verða áherslubreytingar

Eru allir heilir og tilbúnir í leikinn og mega stuðningsmenn Breiðabliks eiga von á einhverjum breytingum á byrjunarliði eða leikskipulagi fyrir leikinn á móti Leikni? ,,Einhverjir eru að glíma við meiðsli en það er ljóst að það verða einhverjar áherslubreytingar enda Leiknir og KR gjörólík lið,“ segir Óskar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar