Lyftingaaðstaðan í Miðgarði er á heimsmælikvarða

Friðbjörn Bragi Hlynsson kraftlyftingamaður í Stjörnunni er Íþróttakarl Garðabæjar árið 2023, en Friðbjörn var útnefndur á Íþróttahátíð Garðabæjar sem fram fór í Miðgarði aðra vikuna í janúar.

Friðbjörn Bragi Hlynsson æfir klassískar kraftlyftingar hjá lyftingadeild Stjörnunnar. Friðbjörn keppir í -83kg flokki karla og hefur síðastliðin ár verið með stigahæstu keppendum í greininni. Friðbjörn kláraði keppnisárið 2023 með Íslandsmet í hnébeygju, réttstöðulyftu og samanlögðu og er bikarmeistari í klassískum kraftlyftingum hjá Kraftlyftingasambandi Íslands.

Friðbjörn tók þátt fyrir Íslands hönd á tveimur mótum á árinu, Vestur-Evrópumótinu og Evrópumeistaramótinu. Hann gerði gott mót á báðum stöðum, vann sinn flokk á Vestur-Evrópumótinu og tók 11. sætið í mjög sterkum flokki á Evrópumeistaramótinu.

Friðbjörn er fjölskyldumaður, menntaður íþróttafræðingur og kennir íþróttir á grunnskólastigi. Hann er kraftlyftingadeildinni og íþróttinni til mikils sóma og er það samróma álit allra sem kynnast honum að þarna er drengur góður á ferð.

Gekk í Stjörnunar fyrir tveimur árum

Friðbjörn er 32 ára gamall og hef stundað kraftlyftingar í um að verða 6 ár. Kærastan hans heitir Kamilla og eiga þau tvær stelpur, sem eru eins og tveggja ára. ,,Ég er uppalinn Norður Þingeyingur, en flutti í Hafnafjörðinn fyrir um 2 árum síðan og fyrir vikið varð ég að skipta um æfingaaðstöðu. Ég skipti þá frá kraftlyftingafélagi Mosfellsbæjar yfir í Stjörnuna,” segir Friðbjörn er Garðapósturinn heyrði í honum eftir hátíðina. Friðbjörn er íþróttakennari í Vesturbæjarskóla og svo þjálfar hann einnig yngri flokka hjá Ármanni í frjálsum íþróttum.

Mikill heiður og hvatning

Og Friðbjörn er væntanlega stoltur af því að vera útnefndur Íþróttakarl Garðabæjar fyrir árið 2023? ,,Já, ekki spuring! Mikill heiður að vera valinn eftir frábært keppnisár og mikil hvatning að halda áfram á sömu braut,” segir hann.

Var þetta þitt besta ár í kraftlyftingunum, varstu að toppa sjálfan þig og sáttur með árið og árangurinn? ,,Þetta var klárlega mitt besta keppnisár, náði stórum persónulegum bætingum og langþráðum markmiðum náð.”

Var búinn að horfa lengi á 700 kg

Þú settir meðal annars Íslandsmet í hnébeygju, réttstöðulyftu og samanlögðu, varstu búinn að stefna lengi að því að bæta þessi met, hvað lyftir þú þungu og var þetta góð bæting á Íslandsmetunum? ,,Ég rétt skóf af nokkrum metum en önnur voru stór stökk,” segir hann. ,,Ég tvíbætti Íslandsmetið í hnébeygju á árinu, 256 kg og síðar 257.5 kg á Evrópumótinu í Tartu þar sem ég sló einnig réttstöðumetið þegar ég lyfti 290 kg sem var 9 kg bæting á Íslandsmetinu. Í samanlögðum árangri var ég búinn að horfa lengi á 700 kg í samanlögðum kílóafjölda sem er töluverður þröskuldur eða í um 2 ár núna en ég lyfti 707,5 kg sem var 10.5 kg bæting á Íslandsmetinu.”

Svona fyrir þig persónulega, hvað stendur þá upp úr á árinu fyrir utan að vera útnefndur íþróttakarl Garðabæjar? ,,Að verða Vestur – Evrópumeistari í -83 kg flokki var stórt! Að ná að rjúfa 700 kg múrinn í samanlögðum árangri var líka mikill persónulegur sigur.”

Fann mig alltaf best í lyftingasalnum

Hvenær og hvernig kom það til að þú fórst að stunda kraftlyftingar og varstu að stunda einhverjar aðrar íþróttir áður áhuginn kveiknaði á kraftlyftingum? ,,Á yngri árum æfði ég fjölmargar boltagreinar og færði mig svo yfir í frjálsar íþróttir, en ég fann mig alltaf best í lyftingasalnum. Það var svo ekki fyrr en 2018 sem vinur minn sem var að keppa í kraftlyftingum kynnti mig fyrir sportinu og sagði mér að ég væri mjög samkeppnishæfur. Ég prófaði eitt mót og hef verið “háður” þessu síðan.

Íþróttakarl Garðabæjar 2023, Friðbjörn Bragi Hlynsson, ásamt Hrannari Braga og Almari Guðmundssyni bæjarstjóra í Garðabæ á íþróttahátíðinni í Miðgarði

Það geta allir æft klassískar kraftlyftingar

En hvernig æfir kraftlyftingamaður í fremstu röð, er þetta mikil vinna og varla eingöngu nóg að grípa í lóð eða hvað? ,,Í grunninn geta allir æft klassískar kraftlyftingar upp að vissu marki í skúrnum sínum með nokkrar lóðaplötur, stöng og rekka. Þannig æfði maður í Covid faraldrinum, en til þess að skara frammúr er nauðsynlegt að æfa sérhæft eftir keppnisaðstæðum. Ég æfi um 4 sinnum í viku og eru æfingarnar um 2 klukkutímar að lengd og mega stundum ekki vera styttri til að klára prógrammið.”

Borðar á við tvo þegar gæðakjöt er í boði

Hvað með mataræðið, það er náttúrulega gríðarleg orka sem fer í þetta, þarftu að passa vel upp á mataræðið og borðar þú á við tvo? ,,Þegar ég fæ gæðakjöt í matinn borða ég á við tvo, annars leyfi ég mér hóflega og hugsa mikið út í skiptingu orkuefna þar sem ég þarf að halda mér í léttri keppnisþyngd.”

Maður þarf aldrei að sitja á bekknum

Eru kraftlyftingar skemmtileg og gefandi íþrótt? ,,Fegurðin við kraftlyftingar og einstaklingsíþróttir almennt er að maður þarf aldrei að sitja á bekknum,” segir hann borsandi. ,,Maður tekur einfaldlega út það sem maður setur inn og frammistaðan stendur og fellur með manni sjálfum.”

Lyftingaaðstaðan í Miðgarði er á heimsmælikvarða

Þú æfir og keppir með Stjörnunni, hvernig er aðstaðan sem Stjarnan bíður kraftlyftingafólki uppá? ,,Lyftingaaðstaðan í Miðgarði er á heimsmælikvarða og gefur lyftingafólki frábært tækifæri að lyfta sérhæft eftir keppnisaðstæðum sem mun sýna sig með stækkun í starfi og bættum árangri.”

Þú ert menntaður íþróttafræðingur og kennir íþróttir á grunnskólastigi, kanntu vel við það og beinir þú nemendum þínum vísvitandi í kraftlyftingarnar spyr blaðamaður í léttum tóni? ,,Íþróttakennslan hefur átt mjög vel við mig þar sem ég hef haft mjög fjölbreyttan bakgrunn í íþróttum. Í dag kenni ég upp að 7. bekk svo áherslan er fyrst og fremst að reyna efla áhugann hjá þeim á almennri hreyfingu.”

Hvað með önnur áhugamál, hvað gerir Friðbjörn þegar hann er ekki á kraftlyftingaræfingum? ,,Ef ég er ekki að æfa í dag kemst lítið annað að en litlu stelpurnar mínar tvær, þær eru það mikilvægasta.”

Maður getur endalaust haldið áfram að vera hrikalegur

Þú ert ekki nema 32 ára gamall, stefnir þú á að stunda kraftlyftingar í mörg ár í viðbót? ,,Ég tel að ég geti haldið þessu skriði áfram í nokkur ár í viðbót á meðan áhuginn er til staðar og skrokkurinn helst heill. Annars eftir 40 ára aldurinn getur maður keppt í mastersflokkum, þannig ef áhuginn er til staðar getur maður enda- laust haldið áfram að vera hrikalegur,” segir hann brosandi.

Stefnan að hamra á járninu á meðan það er heitt

En hvert stefnir svo íþróttakarl Garðabæjar, hvert er markmiðið fyrir næstu ár og er enn til pláss fyrir bætingar? ,,Ég tek bara eitt mót í einu. Næsta mót er Reykjavíkurleikarnir í lok janúar og svo er stefnan bara að hamra á járninu á meðan það er heitt og sækja fleiri bætingar.”

Stefnir á að bæta fleiri met

Hvað er svo framundan hjá þér á nýju ári? ,,Vonandi fer ég á EM í Króatiu í mars og svo er það bara að halda áfram á bætingarlestinni og sækja fleiri met heim,” segir Friðbjörn, íþróttakarl Garðabæjar að lokum.

Mynd: Friðbjörn með kærustunni sinni Kamillu, en saman eiga þau tvær dætur.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar