Það skemmtilegasta sem ég hef gert í öllu lífinu mínu

Nú eru fáar sýningar eftir af fjölskyldusöngleiknum Langelstur að eilífu sem sýndur er í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði, en í sýningunni kemur ungur Kópavogsbúi við sögu, því hún Helga Karen Aðalsteinsdóttir, sem er í 3. bekk Álfhólsskóla leikur í sýningunni.

Sýningin hefur slegið í gegn, en hún er byggð á verðlaunabókum Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur um vinina Eyju og Rögnvald sem verða bestu vinir þrátt fyrir 90 ára aldursmun. Verkið fjallar á einlægan hátt um vináttuna, lífið og dauðann en sýningin er full af gleði, söng, hlýju og hjartnæmum boðskap.

Með hlutverk Rögnvaldar fer enginn annar en stórleikarinn Sigurður Sigurjónsson, en Helga Karen leikur Siggu, sem er vinkona og bekkjarfélagi Eyju.

Hvernig kom það til að Helga Karen ákváð að fara í áheyrnarprufu fyrir leikritið? ,,Mamma mín sá auglýsingu og spurði hvort ég vildi ekki prófa að fara, ég var sko heldur betur til,” segir hún.

Fannst allt svo flott

En hvaðan kemur leiklistaráhuginn? ,,Ég er búin að fara í leikhús stanslaust síðan ég var pínulítil og fannst allt svo flott og mig langaði að vera svona þegar ég væri orðin stór. Ég er alltaf að búa til leiksýningar heima og sýna t.d mömmu og pabba og finnst það mjög skemmtilegt.”

Og hefur verið gaman að taka þátt í söngleiknum Langelstur að eilífu? ,,Það hefur bara verið það skemmtilegasta sem ég hef gert í öllu lífinu mínu. Ég eignaðist alveg frábæra vini og auðvitað líka frábæra leikara. Það er líka svo rosalega mikið sem ég hef lært.”

En hvernig er það fyrir 8/9 ára gamla stelpur að taka þátt í svona leikriti meðfram skóla og öðrum tómstundum – ekkert erfitt? ,,Nei það er nefnlega ekki erfitt, ég hélt það þegar ég fór í prufur. En þetta er bara svo skemmtilegt. Stundum getur verið smá erfitt en það er svo gott að læra eitthvað nýtt og geta gert það sem er erfitt.”

Helga Karen lengst til hægri ásamt Sigga Sigurjóns og fleiri leikurum

Sigga er soldið dónaleg

Og hvernig er svo að leika Siggu og hvernig stelpa er hún? ,,Það er gaman að leika Siggu. Hún er stelpa sem er stjórnsöm og getur verið…já soldið dónaleg. Hún er samt mjög fyndin og skemmtileg. Hún er leiðtoginn í bekknum.”

Og ertu eitthvað lík henni? ,,Ehmmm… nei.”

Milljónum sinnum já

Finnst þér gaman að leika, syngja og dansa. Langar þig að halda áfram að leika og stefnir þú kannski á að verða leikari þegar þú verður stór? ,,Játs það er gaman. Já já og já. Milljón sinnum já.”
Og þið hvetur alla Kópavogsbúa til að koma og sjá sýninguna áður en yfir lýkur? ,,Já, af því að þessi sýning er bara upp í topp.”

Það eru fáar sýningar eftir svo það er um að gera að tryggja sér miða, en næstu fjórar sýningar eru 16. október kl. 13. og 16. og þann 30. október kl. 13. og 16. Hægt er að kaupa miða á tix.is

Þess má geta að Gaflaraleikhúsið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á kennslu í leiklist fyrir börn og ungmenni og var boðið upp á opnar áheyrnarprufur haustið 2021 fyrir Langelstur að eilífu. Mörg hundruð börn mættu í prufur svo það er greinilegt að Helga Karen hefur mikla hæfileika er kemur að leiklistinni.

Forsíðumynd: Helga Karen ásamt foreldrum sínum, Aðalsteini Sigurðssyni og Sigrúnu Agnesi Rúnarsdóttur eftir frumsýningu

Helga Karen ásamt vinkonum sínum í sýningunni.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar