Málefnin rædd beint við bæjarbúa

Í september var blásið til íbúafunda í Garðabæ undir yfirskriftinni ,,Hvað finnst þér?“ með Almari Guð-mundssyni bæjarstjóra Garðabæjar og sviðsstjórum hjá bænum. Íbúafundirnir voru fjórir talsins, skiptir upp eftir hverfum og haldnir í mismunandi skólum bæjarins, en síðasti fundurinn var haldinn 27. september sl. í Sjálandsskóla.

Fundirnir voru upplýsinga- og samráðsfundir þar sem boðið var í samtal um það sem íbúum lá á hjarta. Á fundunum var kynning á helstu málefnumbæjarins, s.s. skólamálum, fjölskyldumálum, umhverfismálum og framkvæmdum í hverfunum. Í lok fundanna var gefinn góður tími fyrir fyrirspurnir og umræður, en fundirnir þóttust takast vel.

Góð leið til að fá fram skoðanir og áherslur íbúa

Var Almar ánægður með fundina og hvernig til tókst – gott að fara milla hverfa í bænum, kynnast bæjarbúum betur og ræða hlutina beint við þá? ,,Já, fundirnir voru mjög vel heppnaðir. Það var mjög vel mætt á þá og eins notuðu ýmsir tækifærið og horfðu á þá í streymi. Þessir fundir eru mjög góð leið til að fá fram skoðanir og áherslur íbúa og eins gefst okkur færi á að kynna betur starfsemi, skipulag og áherslur Garðabæjar,” segir Almar.

Nokkrir sem kváðu nokkuð fast að orði

En voru þetta einhverjir átakafundir, helst fólk sem hefur yfir einhverju að kvarta sem mætir á svona fundi? ,,Nei, þetta voru engir átakafundir. En að sjálfsögðu er það þannig að á svona fundi mætir m.a. fólk sem er ekki ánægt með tiltekna hluti. Mér finnst mjög mikilvægt að taka samtal við íbúa sem hafa þá skoðun að við getum gert betur í þjónustunni eða öðru. Það voru nokkrir sem kváðu nokkuð fast að orði og mér finnst það alveg eðlilegt á meðan samskiptin fela í sér gagnkvæma virðingu. En það voru margir ánægðir líka.”

Rætt um ágang máva á öllum fundunum

Hvað lá bæjarbúum helst á hjarta, hvaða málefni voru það sem bæjarbúar vildu helst ræða og voru þetta sömu eða svipaðar áherslur í öllum hverfunum eða mjög ólíkar eftir því í hvaða bæjarhluta íbúarnir búa? ,,Fundirnir voru skemmtilega ólíkir og aðeins mismunandi áherslur eftir stöðum. Það sem sameinaði fundina fannst mér vera að íbúar hafa mikinn metnað fyrir því að bærinn sé snyrtilegur og að stígar séu góðir. Það var mikið rætt um samgöngumál í Urriðaholti, viðhaldsmál fasteigna voru mikið rædd á fundunum í Flataskóla og Sjálandsskóla og svo bar fráveitumál einna hæst á Álftanesi. Allt eru þetta málefni sem verið er að vinna í. Það var rætt um ágang máva á öllum fundunum, sem segir sína sögu. Ég saknaði einna helst umræðu um mikilvægi fjármála bæjarins, það er ekki sjálfgefið að viðhalda sterkri fjárhagsstöðu.”

Verðum með árlega fundi með bæjarbúum

Telur þú að íbúafundirnir hafa verið gagnlegir bæði fyrir bæjaryfirvöld og bæjarbúa og kemur til greina að gera þetta árlega, heyra hljóðið í bæjarbúum og upplýsa þá um verkefni bæjarins? ,,Já, þetta eru mjög gagnlegir fundir og við ætlum að halda áfram á þessari braut. Við verðum með árlega fundi, en það kann vel að vera að formið á þeim verði ekki alltaf hið sama. Ég mun líka kynna frekari nýjungar í samskiptum við bæjarbúa á næstu mánuðum.”

Íbúar almennt ánægðir með þjónustuna

En hvernig metur þú stöðuna í Garðabæ eftir fundina, almenn ánægja hjá bæjarbúum með þá fjölbreyttu þjónustu sem bærinn veitir eða margt sem má bæta? ,,Mér finnst íbúarnir almennt mjög ánægðir með þjónustuna og þeir hafa metnað til að halda okkur við efnið í því. Það er mikilvæg uppskrift. Ég er líka mjög ánægður með hversu sterk jákvæð viðbrögð ég fæ við því að auka áherslu á upplýsingagjöf okkar og samskipti við íbúa,” segir Almar að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar