Það ríkti ekki einhugur innan hópsins

Óhætt er að segja að skýrsla starfshóps Sorpu um mögulega staðsetningu á nýrri endurvinnslustöð hafi vakið upp sterk viðbrögð hjá Kópavogsbúum. Að mati hópsins var einungis ein staðsetning heppileg og það var í landi Kópavogskirkjugarðs. Miklar umræður voru á hverfissíðum samfélagsmiðla og undirskriftarsíða var stofnuð þar sem íbúar gátu mótmælt hugmyndinni. Á síðasta bæjarstjórnarfundi var skýrslan rædd og ljóst að ekki var einhugur í bæjarstjórn um málið.

Eins og segir þá voru ekki allir bæjarfulltrúar á sama máli og m.a. var einn þeirra reiðubúin að skoða áfram tillögu hópsins og taldi staðsetninguna heppilega m.a. út frá góðum vegtengingum á meðan m.a. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Orri Hlöðversson formaður bæjarráðs, töldu staðsetninguna fráleita og mikla vanvirðingu við hina látnu og aðstandendur þeirra.

Kópavogspósturinn sló því á þráðinn til bæjastjórans og spjallaði við hann um málið.

Hvernig kom það til að þessi staðsetning varð fyrir valinu hjá starfshópnum? ,,Við höfum gagnrýnt vinnubrögð Sorpu í málinu. Starfshópur var settur saman af starfsmönnum Sorpu og fulltrúum frá Kópavogi og Garðabæ þar sem hlutverk hópsins var að finna heppilega staðsetningu fyrir nýja endurvinnslustöð. Í skýrslu starfshópsins er fullyrt að einhugur hafi ríkt í hópnum um þessa staðsetningu. Það er einfaldlega ekki rétt því fulltrúar okkar í starfshópnum tóku skýrt fram að þessi staðsetning komi ekki til greina. Þá var skýrslan aldrei borin undir starfshópinn áður en hún var birt. Einnig er því haldið fram í skýrslunni að óformlegar viðræður hafi verið við forsvarsmenn Kópavogskirkjugarðs en þeir voru hins vegar jafn undrandi og bæjarbúar þegar fréttin birtist og ljóst að ekkert samráð hafði átt sér stað. Þessi vinnubrögð Sorpu eru verulega ámælisverð,” segir Ásdís.

,,Í skýrslu starfshópsins er fullyrt að einhugur hafi ríkt í hópnum um þessa staðsetningu. Það er einfaldlega ekki rétt því fulltrúar okkar í starfshópnum tóku skýrt fram að þessi staðsetning komi ekki til greina. Þá var skýrslan aldrei borin undir starfshópinn áður en hún var birt,“ segir Ásdís um skýrslu starfshóps Sorpu.

Af hverju þarf að flytja endurvinnslustöðina af Dalvegi? ,,Almennt er staðsetning endurvinnslustöðva í miðri íbúðabyggð ekki heppileg, einkum vegna mikillar umferðar þungaflutningabíla sem skapast kringum slíkar stöðvar. Núverandi staðsetning endurvinnslustöðvar Sorpu við Dalveg er því ákaflega óheppileg enda ekki í samræmi við skipulagið okkar. Þá skapast þarna mikil slysahætta vegna starfsemi stöðvarinnar,” segir hún og heldur áfram: ,,Þetta mál hefur verið rætt í áratug án þess að það hafi þokast áfram. Íbúar nærliggjandi byggðar hafa kvartað ítrekað undan hljóð- og sjónmengun sem af þessari starfsemi hlýst. Þá gerir núverandi skipulag ráð fyrir að þarna sé annars konar þjónusta eins og kaffi- og veitingastaðir, leiksvæði fyrir bæjarbúa og aðra sem eru að ganga, hlaupa eða hjóla um Kópavogsdalinn. Okkur fannst einfaldlega ótækt að láta annan áratug líða með Sorpu áfram á Dalvegi,” segir hún.

Nú liggur fyrir að í september 2024 flytur Sorpa af Dalvegi. Hver eru næstuskref í málinu? ,,Við teljum mikilvægt að efla grenndarstöðvar í hverfum Kópavogs og sá undirbúningur hefst fljótlega. Þá þarf að gera greiningu á því hvort þörf er á nýrri endurvinnslustöð ef grenndarstöðvar verða efldar. Ef sú greining leiðir í ljós að svo sé þá þarf að fara í aðra valkostagreiningu á heppilegri staðsetningu. Við höfum verið í góðu samtali við nágranna okkar í Garðabæ og munum nú setjast niður með þeim og meta næstu skref,” segir hún og bætir við: ,,Ég hef ávallt sagt að mikilvægt sé að horfa á heppilega staðsetningu endurvinnslustöðvar sem þjónar hagsmunum Kópavogsbúa og annarra íbúa á höfuðborgarsvæðinu, óháð sveitarfélagamörkum. Ef sú staðsetning finnst í Kópavogi þá fögnum við því en staðsetning við Kópavogskirkjugarð kemur ekki til greina,” segir bæjarstjórinn að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar