Staðreyndir um Kársnesið

Á síðustu árum hefur Kársnesið tekið miklum breytingum, vinsæl veitingahús og kaffihús hafa risið, Sky Lagoon laðar að sér gesti og á næstu árum mun Fossvogsbrúin auka lífsgæðin á svæðinu enn frekar.
Hugmyndir nýs meirihluta í Kópavogi er að svæðið vestast á Kársnesinu og þar með talið höfnin verði einnig aðlaðandi og spennandi að heimsækja, dvelja og njóta. Að þar verði hægt að fara um fallega göngu- og hjólastíga, stoppa við áhugaverða útsýnisstaði og fylgjast með lifandi mannlífi við höfnina. Nokkrar af þeim hugmyndum sem hafa verið til skoðunar eru m.a. veitingahús, kaffihús, rými til útiveru, trébryggja með sjóbaðsaðstöðu og heitum potti, jólaþorp á veturna, listasmiðjur og mathöll. Mikilvægt er að hlusta á sjónarmið íbúa í þessum efnum og á næstu vikum munum við kalla eftir hugmyndum fyrir svæðið. Á Kársnesi eru kjör aðstæður til að þróa öflugt og áhugavert svæði sem laðar að gesti og gangandi.

Í ljósi þessa sætir furðu að lesa yfirlýsingar í einblöðungi frá Vinum Kópavogs sem dreift var á Kársnesinu þar sem segir orðrétt: „Nú er auglýst tillaga að íbúðabyggð á reit 13 á hafnarsvæðinu. Verði hún framkvæmd er vandséð hvernig geðprýðishöfn með þjónustu, verslun, kaffihúsum, veitingahúsum á að komast fyrir. Hvað þá aðstaða og aðkoma fyrir kajaka, seglbáta, hvalaskoðunarskip, smábáta og annað sem eflt getur mannlíf og styrkt Kársnesið sem áfangastað íbúa og gesta.“

Þessi yfirlýsing stenst enga skoðun. Uppbygging á reit 13 hefur ekkert með yndishöfnina að gera. Á reitnum munu íbúðir rísa í stað verksmiðjuhúsnæðis. Fyrir framan reitinn er gert ráð fyrir fallegum göngu og hjólastíg og þar í sjávarmálinu mætti t.d. byggja viðarbryggju út í sjóinn með sjóbaðsaðstöðu. Þarna var aldrei gert ráð fyrir verslun og þjónustu enda aðrir reitir nær höfninni mun betur til þess fallnir. Mikilvægt er að farið sé með rétt mál þegar skipulagsmál eru til umræðu og íbúar ekki blekktir með ósannindum og rangfærslum.

Á undanförnum árum hefur íbúasamráð verið aukið til muna, langt umfram hið lögbundna ferli. Forkynningar á tillögum, fleiri íbúafundir og aukið samráð eru nú fastur liður í skipulagi bæjarins. Reitur 13 hefur farið í gegnum ítarlegt kynningar- og samráðsferli sem var vel umfram hið lögbundna ferli. Á þeim tíma hafa fyrirhugaðar byggingar tekið miklum breytingum í samræmi við þær athugasemdir sem bárust frá íbúum í kynningarferlinu og þær kynntar á íbúafundi fyrr í sumar

Aukið samráð við íbúa bæjarins eru megin áherslur í sáttmála nýs meirihluta „Áttaviti til árangurs“ og á fyrsta fundi skipulagsráðs á nýju kjörtímabili var samþykkt að hefja formlega þróun verklagsreglna um íbúasamráð í skipulagsmálum til að tryggja áfram öflugt samtal. Staðreyndin er sú að framundan er spennandi uppbygging á Kársnesi og víða í Kópavogi sem snýr að því að efla mannlífið og styrkja bæjarfélagið okkar. Við ætlum að vanda til verka og hlusta á sjónarmið íbúa í þessum efnum.

Hjördís Ýr Johnson
Bæjarfulltrúi og formaður skipulagsráðs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar