Listamenn verða til á skapandi sumarnámskeiðum

Nú eru skapandi sumarnámskeiðum Klifsins lokið þetta árið! Börn flykktust að í sumar til að syngja, leika, dansa, teikna og skapa. Ungu listamennirnir tókust á við gríðarlega fjölbreytt verkefni sem voru hvert öðru skemmtilegra.

,,Í júní fengum við til liðs við okkur tvo hæfileikaríka kennara til að halda námskeið, þær Hildi Láru Sveinsdóttur myndlistarkennara, Helenu Hafsteinsdóttur leiklistarkennara og svo sá ég um söngkennslu. Námskeiðin voru vel sótt og börnin ánægð með afraksturinn. Það voru haldnir glæsilegir tónleikar og fjörugar leiksýningar ásamt því að ungu myndlistarmennirnir fóru heim með stútfulla möppu af listaverkum og myndasögum,” segir Rebekka Sif Stefánsdóttir verkefnastjóri Klifsins.

Klifið var einnig með fjögur námskeið fyrstu tvær vikurnar í ágúst en þau kenndu jóga- og leiklistarkennarinn Bára Lind Þórarinsdóttir og myndlistarkennarinn Björk Viggósdóttir. ,,Í boði var mikil útivera, jóga, leiklist, hópeflisleikir og spjaldtölvulist! Þá fengum við einnig til liðs við okkur frábær ungmenni úr Garðabæ sem störfuðu sem aðstoðarleiðbeinendur á námskeiðunum í allt sumar. Góð orka streymdi frá þessu flotta unga fólki sem var ómissandi í starfinu,” segir Rebekka Sif.

Haustnámskeiðin að detta inn

,,Námskeið haustsins eru rólega að detta inn á heimasíðuna okkar og geta áhugasamir skoðað www.klifid.is til að sjá það sem er nú þegar í boði en við eigum eftir að bæta inn enn fleiri skapandi námskeiðum.
Við minnum á að það er hægt að fylgjast með okkur á Facebook og Instagram síðum Klifsins. Við þökkum kærlega fyrir sumarið og hlökkum til að taka á móti fróðleiksþyrstum nemendum í haust,” segir hún að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar