Snýst um að valdefla börn og hvetja þau til þátttöku í menningarstarfi

Anja Ísabella Lövenholdt leiðbeinir á sumarsmiðjum fyrir  börn á Bókasafni Kópavogs í sumar. Smiðjurnar eru byggðar á Vatnsdropanum, alþjóðlegu barnamenningarverkefni sem Kópavogur á frumkvæði að en það snýst um að valdefla börn og hvetja þau til þátttöku í menningarstarfi. Hún fékk til liðs við sig SigurlínViðarsdóttur grunnskólanema sem vann að Vatnsdropanum í vetur og þekkir því vel til. Við hittum þær að máli við undirbúning smiðjanna.
 
Hvernig smiðjur verða í boði? ,, Í smiðjunum leitumst við að vinna með draumheim barna“ segir Anja Ísabella. ,,Markmiðið er að bjóða upp á vettvang þar sem við veitum fræðslu varðandi umhverfisvernd og vekjum til umhugsunar um það sem við skiljum eftir okkur, nýtum það sem fellur til og ýtum undir sköpun í gegnum leik.  Þessar smiðjur eru byggðar á vinnu barna í Vatnsdropanum frá því í vetur en  í Menningarhúsunum í Kópavogi hefur farið fram fjölbreytt skapandi starf sem við byggjum á.“

,,Í smiðjunum leitumst við að vinna með draumheim barna,” segir Anja Ísabella

Anja Ísabella segir mikilvægt að börn fái rödd í málefnum menningar og náttúru eins og gert er í Vatnsdropanum. ,,Börnin hafa dýrmæta sýn og koma með hugmyndir sem við fullorðna fólkið getum lært mikið af því hugur þeirra er frjáls  og óbeislaður. Smiðjurnar í sumar eru vettvangur fyrir börn á aldrinum 6-12 ára til að fá útrás fyrir sköpunargleðina og kanna þessar  hugmyndir í gegnum leik.“

Sigurlín tekur undir og bætir við að eitt það mikilvægasta sé að í smiðjunum sé börnum boðið upp á að hitta önnur börn með svipuð áhugamál og það sé svo mikilvægt. ,,Í grunnskólanum erum við að vinna að mörgum og mismunandi verkefnum en hér í smiðjunum koma börn með áhuga á málefninu og þá gerast oft svo skemmtilegir hlutir.“ 

Sigurlín finnst sérlega gaman að taka þátt í að deila reynslu sinni með öðrum börnum en ekki síður að læra af öllum sem að smiðjunum koma. ,,Þessar smiðjur og þetta verkefni er algjör draumur að vinna að“.

Tekið skrefinu lengra

Anja Ísabella þekkir vel til smiðjuvinna en hún var einn af leiðbeinendum í smiðjum Menningarhúsanna síðasta sumar. Þær smiðjur voru undir áhrifum norrænna barnabókmennta sem Vatnsdropinn byggir einnig á. ,,Í ár tökum við smiðjurnar skrefinu lengra því grunnurinn er hugmyndir og úrvinnsla þeirra grunnskólanema sem unnu að Vatnsdropanum í vetur. Það er okkar fullorðna fólksins að hlusta og tengja” segir hún og bætir við að þess vegna hafi henni þótt dýrmætt að fá Sigurlín með sér í verkefnið, við fullorðna fólkið vitum nefnilega ekki alltaf best.”

Raddir barna mikilvægar

Þær Anja Ísabella og Sigurlín hvetja alla skapandi krakka til að sækja um, það séu takmörkuð pláss í boði og það þurfi að skrá sig á smiðjurnar. Hver viðburður er tengdur við viðburð á Facebook sem finna má á sîðu Bókasafnsins. Á hverjum viðburði er svo hlekkur þar sem hægt er að skrá þátttöku í tiltekinni smiðju.

Mynd: Sigurlín VIðarsdóttir og Anja Ísabella Lövenholdt

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar