Smásögur eftir 24 unga rithöfunda í Kópavogi

Það var hátíðleg stund í Bókasafni Kópavogs þegar 24 ungir rithöfundar komu saman í tilefni útgáfu bókarinnar Smásögur. Rithöfundarnir eru allir fimmtu bekkingar í Kópavogi og höfðu komið á ritsmiðjur sem Vatnsdropinn stóð fyrir síðastliðið haust í tengslum við sýninguna: ,,Sjórinn er fullur af góðum verum. Sjórinn er fullur af rusli” í Gerðarsafni.

Ármann Kr. Ólafsson , bæjarstjóri, afhenti börnunum Smásögurnar

Vatnsdropinn er alþjóðlegt verkefni sem Kópavogsbær stendur fyrir í samstarfi við H.C. Andersen safnið í Óðinsvéum, Múmínsafnið í Tampere og Undraland Ilon Wiklands í Haapsalu í Eistlandi. Verkefnið hefur hlotið fjölmarga styrki m.a. frá Norrænu ráðherranefndinni og Erasmus plus auk Barnamenningarsjóðs og Lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar. Vatnsdropinn snýst um að gera börn að virkum þátttakendum í menningarstofnunum samstarfsaðila, að börn taki ákvarðanir um hvernig menningardagskrá þau vilji að unnin sé fyrir börn. Grunnur samstarfssins er sagnaheimur hinna norrænu klassísku barnabókmennta sem alþjóðlegu söfn samstarfsaðilanna vinna með.

Börnin fengu sendar sögur eftir þessa höfunda sem ásamt 14. Heimsmarkmiði SÞ um Líf í vatni var grunnurinn að ritsmiðjunum.

Rithöfundarnir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson ritstýrðu smiðjunum og útgáfunni en það var bæjarstjórinn, Ármann Kr. Ólafsson sem afhenti börnunum hinar nýútkomnu Smásögur, óskaði þeim til hamingju og ræddi um uppáhaldssögupersónuna sína, Línu Langsokk. Það voru hinsvegar þær Hrefna Vala og Alma Bergrós nemendur í Tónlistarskóla Kópavogs sem hófu athöfnina með því að spila ,,Tvö fiðrildi “ eftir Tékkneska tónskáldið Koche í athöfninni.

Ungu rithöfundarnir Friðrika Eik Z. Ragnars, Skorri Ísleifur Friðriksson og Matthildur Daníelsdóttir lásu upp sínar sögur sem fjölluðu um töfra úr Jökulsárlóni, Bjössa sem er myrkfælinn og hvernig jörðin gæti litið út árið 2039 ef við förum ekki vel með hana.

Bókin Smásögur eftir fimmtu bekkinga verður dreift í alla skóla bæjarins og á Bókasafn Kópavogs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar