Mikill árangur af breytingum í leikskólum í Kópavogi

Dvalartími barna í leikskólum Kópavogs hefur styst verulega eftir að breytingar á skipulagi og starfsumhverfi leikskólanna tóku gildi síðastliðið haust. Í fyrsta sinn um árabil er meirihluti barna í skemmri dvöl en átta tíma á dag. Þá hefur enginn leikskóli þurft að loka deildum það sem af er skólaárinu vegna manneklu og eru flestir leikskólar fullmannaðir.

Í breytingunum fólst meðal annars gjaldfrjáls leikskóli sex tíma á dag, aukinn sveigjanleiki í skráningu dvalarstunda og tekjutenging afslátta af leikskólagjöldum.

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri svaraði nokkrum spurningum í tengslum við leikskólamálin í Kópavogi.

Hvert var markmið breytinganna og hvernig hefur gengið? „Kópavogsbær boðaði breytta stefnu og nýja hugsun í leikskólamálum í haust með það að markmiði að styrkja starfsumhverfi leikskóla og auka stöðugleika í þjónustu við barnafjölskyldur. Breytingarnar hafa skilað góðum árangri. Ekki hefur þurft að loka leikskólum vegna manneklu, dvalartími barna hefur styst sem dregur úr áreiti og álagi á bæði börn og starfsfólk. Betur gengur að manna leikskóla og flestir leikskólar eru fullmannaðir,“ segir Ásdís.

Könnunin um áhrif breytinganna var lögð fyrir foreldra og forsjáraðila og starfsfólk í desember. Hún sýnir að hluti foreldrar er óánægður með breytingarnar, kom það á óvart? „Í sjálfu sér ekki, enda eru breytingarnar róttækar og þýða hækkun gjalda hjá þeim hópi sem ekki hefur tök á að stytta dvalartíma barna. En að sama skapi þá vitum við að gæði þjónustunnar hefur aukist og foreldrar sem eru að nýta átta tíma finna það að það er meiri ró inni á leikskólanum og að það gengur betur að halda takti yfir daginn. Ég hef fulla trú á því að ánægjan muni aukast, þegar foreldrar átta sig enn betur á því að þær skila betra leikskólastarfi.“

Hver eru mestu tíðindin í könnuninni að þínu mati? „Það vakti mesta athygli hjá okkur að tekjulægri heimili eru almennt ánægð með breytingarnar og eru líklegri til þess að nýta sér sveigjanlegri og styttri dvalartíma en því hafði verið spáð að aðgerðirnar kæmu verst niður á þessum heimilum. Þá kemur fram að tæplega helmingur foreldra og forsjáraðila nýtir sér sveigjanleika í skráningu dvalartíma.“

Hversu mikið hefur dvalartími barna breyst? „Tölurnar sýna glöggt hversu mikil breyting hefur orðið á dvalartíma barna. Sem dæmi þá hefur hlutfall barna sem eru í átta tíma dvöl eða lengur farið úr 85% í janúar 2023 niður í 49% í janúar 2024. Hlutfall þeirra barna sem eru í sex tíma dvöl eða skemur er nú 22% en fyrir breytingar var það hlutfall innan við 2%. Foreldrar og forsjáraðilar 46% barna hafa stytt dvalartíma barna sinna. Þetta er mikill árangur og umfram okkar væntingar,“ segir Ásdís.

Um könnun vegna leikskólabreytinga

  • Könnun lögð fyrir foreldra og forsjáraðila í Kópavogi dagana 8. til 22. desember á íslensku og ensku í gegnum leikskólakerfið Völu. Fjöldi með þátttökurétt voru 3.874 og luku 1.442 þátttöku eða tæp 40%. Þar af luku 1.352 við könnunina á íslensku en 85 á ensku.
  • Almennt ríkir mun meiri ánægja meðal þeirra sem svara könnuninni á ensku. Einnig geta þau frekar nýtt sér sveigjanleika eða alls 72% svarenda.
  • Meirihluti foreldra og forsjáraðila telur sveigjanlegan dvalartíma jákvæðan fyrir skipulag fjölskyldunnar. Könnunin sýnir að tekjulægri heimili eru ánægðari með breytingarnar en þau tekjuhærri. Þá kemur fram að tæplega helmingur foreldra og forsjáraðila nýtir sér sveigjanleika í skráningu dvalartíma. Vinna er helsta ástæða þess að fólk nýtir ekki sveigjanleikann
  • Einnig var lögð könnun fyrir starfsfólk leikskóla sem er almennt ánægt með breytingarnar. Meirihluti starfsfólks upplifir betri starfsanda og minna álag. Aukinn stöðugleiki birtist meðal annars í því að starfsfólk upplifir að það hafi meiri tíma með börnum og aukið svigrúm til að undirbúa faglegt starf.
  • Eftir að könnun var framkvæmd tók gildi breyting þar sem sveigjanleiki í dvalartíma var aukinn enn frekar og samþykktar breytingar á tekjuviðmiðum tekjutengdra afslátta til að mæta enn betur tekjulægri heimilum og í samræmi við ábendingar foreldra sem bárust á haustönn.
  • Stefnt er að sambærilegri könnun í lok skólaárs og þeirri þriðju á næsta skólaári til að kanna enn frekar áhrif breytinganna.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar