Markaðsstofa Kópavogs sinnir framfaramálum er snúa að atvinnulífi bæjarins

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs var haldinn á Hótel Kríunesi 28. maí sl.

Í skýrslu stjórnar sem flutt var á fundinum kemur m.a. fram að helstu verkefni Markaðsstofunnar árið 2020 hafi verið undirbúningur að opnun atvinnu- og nýsköpunarsetursins Skóp, sem opnað var 19. mars síðastliðinn, en SKÓP er rekið af Markaðsstofu Kópavogs með veglegum stuðningi Kópavogsbæjar og Íslandsbanka. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun verða höfð að leiðarljósi í starfsemi setursins.
Markaðsstofa Kópavogs leiðir einnig verkefni um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í atvinnulíf Kópavogs fyrir hönd Kópavogsbæjar. Verkefnið var sett af stað í októbermánuði sl. þegar 11 fyrirtæki undirrituðu viljayfirlýsingu um innleiðingu Heimsmarkmiðanna í starfsemi sína.

Markaðsstofan hefur unnið að framgangi ferðaþjónustu í bænum um nokkurt skeið. Í ársbyrjun 2020 var nýju svæði, sem nefnt er Hiking Haven, bætt inn á vefsvæðið www.visitreykjavik.is að frumkvæði Markaðsstofunnar. Svæðið nær í kringum Elliðavatn og innfelur Heiðmerkursvæðið ásamt landsvæði Kópavogs í kringum Elliðavatn og út frá Guðmundarlundi. Markaðsstofan vinnur nú að því í samstarfi við Kópavogsbæ að merkja göngustíga á svæðinu og gera göngukort sem sýnir bestu gönguleiðir og bílastæði á svæðinu. Í ársbyrjun 2021 fékk Markaðsstofan styrk úr nýsköpunarsjónum SÓLEY, sjóði Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir nýsköpun og sjálfbærni í ferðaþjónustu. Styrknum frá Sóley verður varið til að fjármagna hluta af kostnaði við merkingar gönguleiða og til kortagerðar. 
Markaðsstofan hefur komið að og sinnt ýmsum öðrum framfaramálum er snúa að atvinnulífi bæjarins og verið fyrirtækjum innan handar með ráðgjöf og kynningar t.d. með greinaskrifum í bæjarblöð og á samfélagsmiðlum.

Fram kom að starfsárið 2020 og það sem liðið er af 2021 hafi að mörgu leyti verið erfitt vegna sóttvarnatakmarkanna og var fjölda verkefna og viðburða sem áætlað var að Markaðsstofan kæmi að á tímabilinu frestað eða aflýst. Má þar helst nefna sýninguna Verk og vit, sem aflýst var einni viku fyrir opnun þegar undirbúningi var að mestu leyti lokið, frestun á Íslensku Sjávaúrvegssýningunni, frestun Íþróttaveislu í Kópavogi og niðurfellingu á Hjartadagshlaupinu. Einnig var öllum fræðslufundum á vegum Markaðsstofunnar frestað fyrir utan Morgunfund Markaðsstofunnar og Íslandsbanka sem haldinn var 21. febrúar 2020.

Í stjórn Markaðsstofu Kópavogs eftir aðalfundinn eru Helga Hauksdóttir formaður, Sigurður Sigurbjörnsson varaformaður, Elvar Bjarki Helgason og Tómas Tómasson sem fulltrúar Kópavogsbæjar og á fundinum voru kjörin í stjórn, sem fulltrúar atvinnulífsins, þau Katrín Helga Reynisdóttir frá Profitó bókhaldshús, Ester Björnsdóttir frá Hótel Kríunesi og Friðrik Ómarsson frá Mannviti. Tinna Jóhannsdóttir hjá Reginn og Smáralind var kjörin varamaður í stjórn Markaðsstofunnar.

Á myndinni er stjórn Markaðsstofunnar starfsárið 2020 ásamt starfsmönnum. Frá vinstri talið eru Katrín Helga Reynisdóttir, Björn Ingi Stefánsson, Björn Jónsson, Tinna Jóhannsdóttir, Sigurður Sigurbjörnsson, Tómas Tómasson, Guðmudnur Sigurbjörnsson og Helga Hauksdóttir. Á myndina vantar Elvar Bjarka Helgason.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar