Leikskólinn verði fyrsta skólastigið

Í lögum um leikskóla frá 1994 er leikskólinn skilgreindur sem fyrsta skólastigið. Því hefur þó ekki verið fylgt eftir með augljósum hætti. Börn eru enn send í leikskóla svo foreldrar geti sinnt vinnu og til að fá að leika við önnur börn. Nú hafa leikskólakennarar fengið sama leyfisbréf og aðrir kennarar sem undirstrikar enn frekar stöðu þeirra sem kennara. Þeir geta nú flutt sig um skólastig án frekari réttinda og kennt t.d. við grunnskóla sem þeir gera í auknum mæli. Það veldur fækkun fagmenntaðs fólks í leikskólum og við þurfum að ákveða hvernig við viljum bregðast við því. Ólíklegt er að í náinni framtíð verði sá fjöldi faglærðra leikskólakennara í boði sem gerð er krafa um í leikskólastarfi í dag.

Breytum leikskólanum

Hvernig væri að breyta hugmyndum okkar um leikskóla með því að færa leikskólann nær því umhverfi sem er á öðrum skólastigum. Það getum við gert með því að skipta leikskóladeginum upp í annars vegar virka kennslu og hins vegar frístund. Samfylkingin vill gera leikskólann gjaldfrjálsan fyrstu fjóra tíma dagsins á meðan virk kennsla fer fram (á því formi sem hentar hverjum aldurshópi), og eftir það taki meiri leikur við í anda frístundar. Jafnframt verði hver dvalartími eftir hádegi tvöfalt dýrari en áður. Þeir sem eru með fulla vistun ættu ekki að finna fyrir breytingu fjárhagslega en þeir sem gætu stytt tíma barna sinna á leikskóla gætu séð sér hag í því.

Hvað vinnst með breytingunni?

Með þessum breytingum getum við vonast til að þeir forráðamenn sem hafa fengið fulla styttingu vinnuvikunnar muni sjá þetta sem hvata til að stytta vistun barna sinna í eftirmiðdaginn. Við getum vonast til að börn af öðru þjóðerni sem skila sér ekki að fullu inn í leikskólana vegna kostnaðar muni skila sér fyrir hádegi. Það væri mikill sigur því málþroski barna er hvað virkastur á leikskólaárunum. Leikskólastjórnendur eiga eftir síðustu kjarasamninga rétt á undirbúningstíma sem nemur 20% af þeirra vinnutíma. Þessi ráðstöfun gæti aukið svigrúm þeirra til undirbúnings sem og sérkennara sem nú hafa sama rétt. Hægt væri að manna deildir eftir hádegi með mun hærra hlutfalli ófaglærðra starfsmanna. Þessar ráðstafanir gætu komið til móts við þá erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir varðandi mönnun leikskólanna.

Að þessu sögðu teljum við í Samfylkingunni að það sé tilraunarinnar virði að endurskoða þá þjónustu sem veitt er á vistunartíma barna í leikskólum með þetta sjónarhorn að leiðarljósi. Hvað finnst ykkur? Endilega sendið okkur ykkar hugmyndir á [email protected] eða [email protected]

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar