Kæru Garðbæingar

Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga langar mig að kynna mig, oddvita Miðflokksins, og ástæður þess að ég tók að mér að leiða lista flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Ég hef verið búsettur í Garðabæ frá 1989, tveggja barna faðir og afi fjögurra barna. Fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu í Belgíu og Þýskalandi, landsliðsmaður og núverandi framkvæmdastjóri Margmiðlunar.

Ég hef fram að þessu aðallega verið tengdur íþróttastarfinu í Garðabæ sem leikmaður og þjálfari hjá Stjörnunni. Þjálfaði 2. flokk og meistaraflokk Stjörnunnar 2005 til 2007.

Á þeim árum sá ég að brottfall drengja eftir 18 ára aldur var mikið. Ég vildi með öllum ráðum, draga úr brottfalli drengja, sem ekki rúmuðust innan afreksstefnu Stjörnunnar og tryggja sem flestum aðgengi að íþróttum.

Við tók mikil barátta þar sem umhverfið var ekki tilbúið fyrir annað íþróttafélag en Stjörnuna í Garðabæ. Til að gera langa sögu stutta var Knattspyrnufélag Garðabæjar eða betur þekkt sem KFG stofnað 2008 af mér og fleiri góðum mönnum. Og er nú á sínu 14 starfsári. Þrátt fyrir hrakspár í byrjun, er félagið með um 30 iðkendur að meðaltali á ári hverju. KFG hefur reynst frábær viðbót við íþróttalífið í Garðabæ. Ég rak félagið í 12 ár, sem þjálfari, formaður, auk þessa að keyra liðsrútuna landshorna á milli í hina ýmsu kappleiki. Á hverju ári fóru 4-500 klst. hjá mér í starfið kringum KFG. Þeim tíma var einstaklega vel varið í þágu ungra drengja í Garðabæ. Nú hafa hins vegar aðrir góðir og kraftmiklir Garðbæingar tekið við keflinu og stýra KFG af miklum dug í 3. deildinni.

Á þessum 14 árum hafa farið í gegnum starfið hjá KFG mörg hundruð ungra drengja, sem líklega hefðu annars fallið út úr íþróttaiðkun.

Sumir hafa glímt við ýmis vandamál, eins og fíkn, andlega erfiðleika, og ýmislegt annað sem fylgir þessum stóru og mikilvægu mótunarárum. KFG hefur verið þessum drengjum athvarf, þar sem þeir hafa getað stundað íþrótt sína af miklum krafti undir merkjum félagsins og fengið stuðning í jákvæðu og heilbrigðu umhverfi. Þá má geta þess að leikmenn KFG hafa jafnan verið í lykilhlutverki í Silfurskeiðinni, hinni öflugu stuðningsmanna-sveit Stjörnunnar, og þannig eflt félagsauð bæjarins.

Ég hef mikinn áhuga á almannaheill og að bæjaryfirvöld í Garðabæ setji fjölskylduna í 1. sæti, hvar sem þeir búa í bænum. Þegar ég tala um fjölskylduna, á ég við íslensku stórfjölskylduna eins og við þekkjum hana, börnin, foreldrana og afann og ömmuna.

Mér eru forvarnarmál einnig hugleikin. Fyrir áratug stóð ég að samstarfi við Landlæknisembættið að átakinu: „Fyrirmyndir nota ekki munntóbak “. Þar voru fyrirmyndir þess tíma, í íþróttum og tónlist, notaðar í auglýsingar og veggspjöld með ungum börnum, og fyrirsögnin var: Fyrirmyndir nota ekki munntóbak.

Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa látið rafrettur (weip) og munntóbaks notkun líðast á skóla og íþróttasvæðum bæjarins, sem er óásættanlegt. Ábyrgt fólk hlýtur að spyrja um forvarnir. Þetta er ekki holl iðja fyrir ungt fólk.

Svo er það andlega heilsan. Þar þarf bæjarstjórnin í samstarfi við skólana að stórefla sálfræði – þjónustu og auka stuðning við skólastjórnendur og kennara.

Svo eru það aldraðir, huga þarf að þeim sem búa einir heima, að þeir einangrist ekki.

Einnig að tryggja öldruðum aðgang að líkamshreyfingu og styrkingu.

Sem oddviti Miðflokksins, mun ég beita mér í leikskólamálum og því að ytri hverfi Garðabæjar, Álftanes og Urriðaholt, verði ekki afskipt í samgöngu-, skóla-, og félagsmálum.

Að yngra fólkið fái meiri stuðning, jafnframt að ungt fjölskyldufólk fá betri búsetu möguleika í bænum og þurfi ekki að leita í nágranna sveitafélög.

Að fatlaðir fái nám við sitt hæfi að loknum grunnskóla, þar þarf betri aðgreiningu.

Hvað tekur við að loknu starfsnámi ?

Fatlaðir fái viðunandi og betri búsetuúrræði þegar kemur að því yfirgefa foreldrahús.

Fatlaðir fái betri úrræði þegar kemur að vinnumarkaði, ekkert fer verr með þann viðkvæma hóp en verkefnaskortur.

Ég tel tímabært að koma með ferska og nýja sýn í bæjarpólitíkina í Garðabæ, og finnst eins og mörgum öðrum, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðnað á kjörtímabilinu. Það vantar nýja og kröftuga strauma inn í bæjarmálin í Garðabæ.

Ég mun láta að mér kveða og leggja mig eftir að hlusta á það sem bæjarbúar hafa til málanna að leggja. Síminn hjá mér er opinn fyrir Garðbæinga sem vilja ræða málefnin.

Virðingarfyllst, Lárus Guðmundsson. Gsm 625 7060
Oddviti Miðflokksins í Garðabæ Bjallaðu og spjallaðu, um betri Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar