Langur fimmtudagur er ný viðburðaröð í Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Bókasafni Kópavogs og Salnum þar sem opið verður til kl. 20 síðasta fimmtudag hvers mánaðar ásamt fjölda spennandi viðburða. Salurinn mun bjóða upp á Síðdegisjazz í Salnum þar sem fjöldi landsþekktra jazztónlistarmanna munu skemmta gestum í fordyri Salarins og á fimmtudaginn kl. 17 munu feðginin Anna Gréta og Sigurður Flosason ásamt Johan Tengholm kontrabassaleikara bjóða upp á létta og leikandi dagskrá samansetta af sígrænum djassperlum og íslenskum dægurlögum. Tobba Marínós mun svo mæta í Bókasafn Kópavogs á fimmtudaginn kl. 18 og segja frá bók sinni Náttúrulega sætt þar sem gestum gefst einnig færi á að smakka rétti úr bókinni. Í Gerðarsafni verður boðið upp á listamannaleiðsögn kl. 18 með Styrmi Erni Guðmundssyni um sýninguna Hlutbundin þrá en Styrmir er einn listamanna sýningarinnar.“
Fjölbreytt dagskrá alla helgina
Langur fimmtudagur 26. ágúst er hluti af dagskrá Hamraborg Festival og á fimmtudaginn munu fjórar ólíkar sýningar opna og vera til sýnis alla helgina á Hamraborg Festival. Á Bókasafni Kópavogs verður yfirlitssýning á verkum sem börn í Kópavogi hafa skapað í listsmiðjum Sumarspíra 2021, á Náttúrufræðistofu Kópavogs verður að finna hljóðverk eftir Annie Charland Thibodeau og innsetningu eftir Sylva Lamm, og í Gerðarsafni verður sýnt videoverk eftir Grakkana.
Á föstudaginn verður svo boðið upp á listasmiðju fyrir fullorðna með Guðlaugu Míu Eyþórsdóttur í Gerðasafni og listsmiðju fyrir börn með Sumarspírum í Bókasafni Kópavogs á laugardaginn. Á laugardaginn verður einnig boðið upp á ókeypis tónleika í Salnum með L‘amour Fou en panta þarf miða á salurinn.is.
Frekari upplýsingar um dagskrána er að finna á www.meko.is.
Forsíðumynd: Tobba Marínós mun mæta í Bókasafn Kópavogs í dag, fimmtudag, kl. 18 og segja frá bók sinni Náttúrulega sætt þar sem gestum gefst einnig færi á að smakka rétti úr bókinni