Skólarnir hefjast – Um 5000 grunnskólanemar setjast á skólabekk í Kópavogi

Skólastarf í öllum grunnskólum Kópavogs er að hefjast og fór skólasetning fram á þriðjudaginn 24. ágúst. Í Kópavogi eru starfandi níu grunnskólar með 1.-10. bekk auk þess sem Waldorfstefnan rekur einn grunnskóla. Á komandi skólaári munu um 5.000 grunnskólanemar stunda nám í Kópavogi en um 460 sex ára börn eru nú að hefja sína grunnskólagöngu. Hörðuvallaskóli er sem fyrr stærsti grunnskóli bæjarins með um 900 nemendur. Gleðin og eftirvæntingin sem fylgir því að mæta í skólann aftur að loknu sumarleyfi og hitta skólafélagana og kennarana gerir skólabyrjunina svo skemmtilega.

Það voru vissulega væntingar um það í vor að skólastarf yrði með hefðbundnum hætti á komandi haustönn eftir erfiðan síðasta vetur en Covid er enn að gera okkur lífið leitt. Skólastarf hefur þrátt fyrir það verið skipulagt án íþyngjandi takmarkana en þó þannig að ýtrustu sóttvarna og varkárni sé gætt. Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins hefur í samráði við sveitarfélögin gefið úr leiðbeiningar fyrir skóla- og frístundastarf á höfuðborgarsvæðinu, sem gilda til 1. október. Grunnskólanemar þurfa ekki að bera grímur og eru undanþegin 1 metra fjarlægðarreglu en þau eru hvött til fyllstu varkárni og persónulegra sóttvarna. Þá er mælst til að hámarksfjöldi nemenda í hverju rými/hólfi fari ekki yfir 100. Foreldrar og aðstandendur mega kom inn í skólabyggingar en skulu gæta að sóttvörnum og bera andlitsgrímur. Við þessar aðstæður eru væntingar um að kennsla og frístundastarf verði ánægjulegt og sem mest með hefðbundnum hætti. Við erum reynslunni ríkari eftir síðasta skólaár og erum í viðbragðsstöðu ef eitthvað út af bregður.

Ný menntastefna fyrir Kópavog

Vinna við nýja menntastefnu hófst árið 2019 samhliða innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Vinnan er nú á lokastigi eftir mikið samráð við leik- og grunnskóla, frístund, íþróttafélög, tónlistarskóla og félagsmiðstöðvar. Þá var opnuð samráðsgátt á vef bæjarins þar sem íbúar gátu komið á framfæri hugmyndum um útfærslu á meginmarkmiðum stefnunnar eins og þau birtast í drögum, en þau eru; 1. Námsumhverfi sem tekur mið af getu hvers og eins, stuðlar að framförum, vellíðan og skilningi á samfélagi og umhverfi, 2. Snemmtækur stuðningur, forvarnir og fræðsla fyrir börn og foreldra, 3. Samráð, samvinna, starfsþróun og starfsaðstaða, 4. Menntun með áherslu á gleði, leik og sköpun, 5. Frístundir og íþróttir fyrir alla. Það var ánægjulegt að sjá hvað margir létu sig menntamál varða og komu með ábendingar. Stefnunni fylgir aðgerðaráætlun sem unnið verður með við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022.

Skólaárið 2021-2022 eru um 375 flottir nemendur í Kópavogsskóla, en um 5.000 grunnskólanemar stunda nám í Kópavogi og þar af eru 460 sex ára börn að hefja sína grunnskólagöngu

Sumaropnanir félagsmiðstöðva

Mikið líf og fjör hefur verið í félagsmiðstöðvum í Kópavogi í sumar en ákveðið var að hafa níu félagsmiðstöðvarnar opnar fram í miðjan júlí. Opið var alla virka daga og tvisvar í viku til kl. 22.00. Leitast var við að bjóða unglingum að taka þátt í uppbyggilegu, skemmtilegu og jákvæðu frístundastarfi. Sumarsmiðjur voru einnig í boði fyrir börn á aldrinum 9-12 ára. Sumarsmiðjurnar voru fjölbreyttar og sérstaklega vinsælar voru bjóstsykursgerð, Tie Dye bolamálun, matreiðslusmiður og útivist- og hjólaferðir. Þá var haldið áfram með verkefnið „Velkominn“ í félagsmiðstöðinni Kjarnanum sem miðar að því að hvetja börn og unglinga með annað móðurmál en íslensku til þátttöku í frístunda- og íþróttastarfi. „Flakkandi félagsmiðstöð“ var nýsköpunarverkefni sem boðið var í fyrsta skipti í sumar í framhaldi af sumaropnuninni og starfaði þvert á Kópavog en ekki bundin við eitt hverfi. Markmiðið var að virkja áfram þá unglinga sem þurftu hvatningu og stuðning og bjóða þeim sem höfðu verið í starfinu áframhaldandi uppbyggilegt frístundastarf.

Kópurinn

Stöðugt er unnið að nýjum og spennandi verkefnum í grunnskólum Kópavogs og árlega eru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi skóla- og frístundastarf. Valin eru verkefni sem stuðla að nýbreytni og framþróun í skólastarfi. Að þessu sinni voru veittar sex viðurkenningar, 1. Bland í poka í Álfhólsskóla, 2. Fjarnám í list-, verk- og valgreinum í Hörðuvallaskóla, 3.Virkjum fatlaða til aukins félagslífs í Kópavogsskóla, 4. Kartöfluverkefnið í Smáraskóla, 5. Sprettur, samþætting fjögurra námsgreina í Vatnsendaskóla og 6. Barnaráð Stjörnuheima í Vatnsendaskóla. Kópurinn/verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Salnum.

Hörðuvallaskóli er sem fyrr stærsti grunnskóli bæjarins með um 900 nemendur

Frístund

Mikil ánægja hefur verið hjá sex ára börnum og foreldrum þeirra með að grunnskólar Kópavogs bjóði verðandi grunnskólanemum að hefja starf tveimur vikum fyrir upphaf skólaárs í Frístund. Þannig kynnast þau betur skólanum, frístundinni og því sem í vændum er en mikil breyting felst í því að skipta úr leikskóla yfir í grunnskóla. Frístund er annars á skólatíma opin fyrir 1.-4. bekk eftir skóla til kl. 17.00. Þar er boðið upp á ýmisleg skemmtileg viðfangsefni, hópastarf, vettvangsferðir og fleira og er hver árgangur með sína sérstöku vikudagskrá.

Nemendur með annað móðurmál en íslensku

537 nemar af erlendum uppruna stunda nú nám í grunnskólum Kópavogs og hefur þeim fjölgað töluvert á síðustu árum. Móðurmál þeirra eru fjölbreytt en pólska, enska og litháíska eru fjölmennust en alls koma þau úr 48 ólíkum málsamfélögum. Kópavogsbær leggur áherslu á að koma til móts við þessi ungmenni til að skólaferill þeirra verði sem farsælastur. Við skólaþjónustu Kópavogs starfar kennsluráðgjafi í málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku sem veitir ráðgjöf um mótttöku og kennslu. Þá er fylgst reglulega með stöðu nemanna með „Milli mála prófi“ sem metur tök þeirra á íslensku.

Ungmennaráð Kópavogs

Ungmennaráð verður sífellt öflugra en það er skipað 15 ungmennum úr Kópavogi á aldrinum 13-20 ára. Fulltrúarnir koma úr grunnskólum bæjarins, MK og Molanum. Hlutverk þess er að skapa ungu fólki vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum. Þá skal ungmennaráð gæta hagsmuna barna og ungmenna í Kópavogi og vera bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni barna og ungmenna. Á vordögum fundaði ungmennaráð með bæjarstjórn um þau mál sem þau vildu leggja áherslu á þetta árið en það voru: 1. Bætt aðstaða nemenda í grunnskólum Kópavogs til að auka við slökun og andlega líðan á skólatíma, 2. Matarsóun í skólunum, 3. Aukin viðvera hjúkrunarfræðings m.a. til að sinna fjölbreyttari kynfræðslu, 4. Aukin opnun í félgsmiðstöðum, 5. Aukin fræðslu um umhverfisvitund og að nýta spjaldtölvurnar meira í stað pappírs. Allt afskaplega áhugaverðar og ábyrgar tillögur sem fara til vinnslu hjá bænum.

Í Kópavogi viljum við eiga skóla í fremstu röð sem undirbúa börnin okkar sem best fyrir framtíðina. Að mörgu er að hyggja og spennandi verkefni í vændum sem okkar öflugu og framsæknu skólar munu sinna að krafti.

Ég vil óska öllum nemendum og starfsfólki skólanna velfarnaðar í starfi sínu á komandi vetri.

Margrét Friðriksdóttir
forseti Bæjarstjórnar Kópavogs og
formaður Menntaráðs Kópavogs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar