Kópavogsbær stendur mun betur en flest sveitarfélög

Þann 14. maí næstkomandi er ár liðið frá sveitarstjórnarkosningunum í fyrra, en eftir kosningarnar ákváðu Sjálf- stæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn að halda áfram meirihlutasamstarfi sínu. Töluverðar breytingar urðu þó á kjörnum bæjarfulltrúum meirihlutans og aðeins Hjördís Ýr Johnson, sem setið hefur í bæjarstjórn frá 2014, sat áfram auk þess sem Andri Steinn Hilmarsson var varabæjarfulltrúi á síðasta kjörtímabili.

Ásdís Kristjánsdóttir, nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins, tók svo við sem bæjarstjóri Kópavogs eftir kosningar og Kópavogspósturinn heyrði í henni hljóðið á þessum tímamótum.

Samstarfið hefur gengið mjög vel og meirihlutinn verið samstíga

Og það er ágætt að byrja að spyrja Ásdísi að því hvernig henni finnist hlutirnir hafa gengið hjá meirihlutanum sem af er? ,,Samstarfið hefur gengið mjög vel og meirihlutinn verið samstíga. Við erum með skýra stefnu og áherslur sem má lesa um í meirihlutasáttmála okkar, Áttaviti til árangurs, og störfum samkvæmt honum. Ég get ekki annað en verið mjög sátt með okkar fyrsta ár og okkur hefur tekist að þoka áherslum okkar áfram. Við erum að forgangsraða fjármunum skynsamlega að mínu mati, erum að standa vörð um grunnþjónustu bæjarins, lækka fasteignaskatta á bæjarbúa og tryggja áfram traustan rekstur,” segir hún.

Regluleg endurnýjun er til bóta

Nú varð mikil nýliðun í meirihlutanum eftir sveitarstjórnarkosningarnar. Hefur tekið tíma fyrir ykkur að komast inn í hlutina og hefur það haft einhver áhrif á störf og ákvörðunartöku bæjarstjórnar á þessu fyrsta ári? ,,Ég tel reyndar að regluleg endurnýjun sé til bóta enda hætta á ákveðinni stöðnun ef hún gerist ekki. Þrátt fyrir að það sé nýliðun hjá meirihlutanum er einnig mikilvæga reynslu þar að finna eins og hjá bæjarfulltrúum Hjördísi og Andra Steini. Þá hefur Orri, oddviti Framsóknarmanna og formaður bæjarráðs, verið bæjarstjóri en í öðru sveitarfélagi. Ég hef víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og finn að sú reynsla er að nýtast vel í mínu starfi. Okkur í meirihlutanum hefur gengið vel að komast hratt og örugglega inn í hlutina og teljum okkur vera að ná árangri í störfum okkar fyrir bæjarbúa.”

Starf bæjarstjórans mjög skemmtilegt en um leið krefjandi og álagið mikið

En hvað með þig sjálfa, hvernig var að stökkva svona beint í stól bæjarstjóra og hvernig kanntu við starfið? ,,Fyrsta árið mitt sem bæjarstjóri hefur verið mjög skemmtilegt en um leið er þetta krefjandi starf og mikið álag en ég vissi það svo sem áður en ákvað að skella mér í pólitík. Það sem mér finnst skemmtilegast við starfið er hvað það er fjölbreytt enda Kópavogsbær stórt sveitarfélag og snertifletirnir ólíkir, hvort sem snýr að menntamálum, velferðarmálum, skipulagsmálum, málefnum eldri bæjarbúa eða lýðheilsu, svo dæmi séu tekin. Mér finnst mikilvægt að kynnast starfsemi Kópavogsbæjar og hef því markvisst verið að heimsækja stofnanir bæjarins og ræða við starfsmenn. Þá finnst mér skipta miklu máli að vera í tengslum við bæjarbúa og hef gaman að því að ræða bæjarmálin við Kópavogsbúa á öllum aldri, bæði um það sem má betur fara en einnig um það sem vel er gert. “

Höfum ekki efni á að vera í einhverjum dúlluverkefnum sem kosta mikið

Hverjar eru helstu áskoranir Kópavogs í dag og hverjar verða þær fram að næstu sveitarstjórnarkosningum, árið 2026? ,,Áskoranir Kópavogsbæjar eru þó nokkrar. Í fyrsta lagi er efnahagsumhverfið erfitt, mikil verðbólga og háir stýrivextir lita reksturinn og raunar rekstur allra sveitarfélaga. Kópavogsbær stendur hins vegar mun betur en flest sveitarfélög enda staðið vörð um traustan rekstur og sjálfbæra skuldsetningu. Við þurfum að tryggja grunnþjónustu bæjarins en um leið höfum við ekki efni á að vera í einhverjum dúlluverkefnum sem kosta mikið, þó þau geta verið skemmtileg þá er svigrúm til slíkra verkefna ekki til staðar eins og sakir standa. Framundan er áhugaverð uppbygging í efri og neðri byggðum og mikilvægt að vanda til verka. Í Kópavogi er eftirsóknarvert að búa en takmarkað landrými – því er þétting byggðar óhjákvæmileg en slík uppbygging er alltaf áskorun og mikilvægt að lágmarka rask gagnvart íbúum. Samgöngumálin verða áfram krefjandi, bæði hvað varðar skipulag og fjármögnun, en þar hef ég bent á að áætlanir þurfa að vera raunhæfar í þeim efnum, til dæmis hvað varðar Borgarlínuna. Í kjölfarið hefur verið sett af stað vinna hjá sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og stjórnvöldum við að endurskoða áætlanir í samgöngumálum.”

Skipulagsmál taka tíma en mikilvægt er að vinna vel og vandlega og í samráði við bæjarbúa

En hver eru stærstu verkefnin framundan hjá Kópavogi þegar kemur að framkvæmdum og hvernig stendur Kópavogur hvað innviði varðar miðað við þá fjölgun sem mun verða í bæjarfélaginu á næstu árum? ,,Við munum hefja úthlutun í Vatnsendahvarfi síðar á árinu, þar er gert ráð fyrir 500 íbúða hverfi. Þá erum við langt komin með hverfaáætlun fyrir Kársnesið og drög að endurnýjaðri heildarsýn fyrir þróunarsvæðið vestast á nesinu verður lögð fram í haust. Fram undan er því áhugaverð uppbygging á Kársnesi sem verður miðpunktur höfuðborgarsvæðisins og að mínu mati einn eftirsóknaverðasti staður þess til að búa á og starfa með tengingu Fossvogsbrúar. Hafnarsvæðið á eftir að skipuleggja en við sjáum fyrir okkur yndishöfn með t.d kaffihúsi, gufubaði og sjósundi svo dæmi séu tekin. Þá teljum við mikilvægt að klára heildarsýn við Auðbrekkuna en ásýnd og skipulag hverfisins þarf að bæta og tafir verið á því síðustu ár. Skipulagsmál taka tíma en mikilvægt er að vinna vel og vandlega og í samráði við bæjarbúa. Samfara allri uppbyggingu verður tryggt að innviðir séu til staðar til að mæta þörfum bæjarbúa hvort sem horft er til vegasamgangna, leik- eða grunnskóla, svo dæmi séu tekin.”

Í Kópavogi er eftirsóknarvert að búa en takmarkað landrými – því er þétting byggðar óhjákvæmileg en slík uppbygging er alltaf áskorun og mikilvægt að lágmarka rask gagnvart íbúum segir Ásdís.

Ganga hratt og örugglega í verkefnin til að mæta þörfum bæjarbúa

Þannig að bæjarstjórinn er nokkuð bjart sýnn á framtíð Kópavogs og íbúa þess fyrir næstu árin? ,,Já, ég er mjög bjartsýn þegar kemur að framtíð Kópavogs. Mörg spennandi verkefni eru fram undan hvort sem kemur að leik- eða grunnskólamálum, menningarmálum, íþrótta- og lýðheilsumálum eða skipulagsmálum. Við erum að ganga hratt og örugglega í verkefnin til að mæta þörfum bæjarbúa. “

Byrjar alla morgna á góðum kaffibolla og les blöðin

Og ef við förum í aðeins léttara spjall. Hvernig er morguninn hjá bæjarstjóranum áður en hann mætir í vinnu? ,,Ég byrja alla morgna á góðum kaffibolla og les blöðin, Morgunblaðið og að sjálfsögðu Kópavogsvogspóstinn. Ég reyni tvisvar í viku að taka klukkutíma hlaupaæfingu fyrir vinnu en þá vakna ég extra snemma og reyni að klára æfingu áður en ég vek börnin fyrir skólann. Annars æfi ég pilates og lyftingar eftir vinnu fjórum sinnum í viku en mætingin hefur reyndar aðeins drappast niður eftir að ég tók við sem bæjarstjóri enda dagarnir stundum langir. Þess vegna hef ég undanfarið reynt að koma morgunhlaupinu fyrir í staðinn. “

Stimplar sig ekki út klukkan fimm á daginn

En hvernig er það, nær bæjarstjórinn að loka á vinnuna þegar hann stimplar sig út eftir daginn eða er hann alltaf með hugann við vinnuna og jafnvel að bæjarbúar haldi honum við efnið þegar þeir hitta hann á förnum vegi, sama hvort það sé eftir vinnutíma eða um helgar? ,,Það er óhætt að segja að ég stimpli mig ekki út klukkan fimm á daginn, dagarnir eru langir og ná venjulega langt fram á kvöld, meðal annars við að svara tölvupóstum sem hrannast upp yfir daginn ásamt ósvöruðum símtölum. Þá hóf maðurinn minn nýverið nám í sagnfræði samhliða því sem hann sinnir öðrum störfum heimilisins svo það er talsvert álag á hon- um einnig. Þetta gengur samt einhvern veginn upp. Ég kvarta ekki því starfið er skemmtilegt, ég brenn fyrir bæjarmálin og finnst forréttindi að vera í þessu starfi. Þá þykir mér mjög vænt um ef bæjarbúar vilja ræða við mig á förnum vegi um bæjarmálin, það er auðvitað hluti af starfi bæjarstjóra.”

Passar sig á að koma hreyfingu fyrir í dagskránni

Á svo bæjarstjórinn einhver áhugamál sem hann nær að sinna? ,,Ég hef lítinn tíma til að sinna áhugamálum þessi misserin en ég passa mig að koma hreyfingu fyrir í dagskránni enda mikilvægt til að safna orku, hreinsa hugann og bæta líðan. Þá vil ég nýta helgarnar í ró með fjölskyldunni minni, við reynum að fara í sveitina okkar þegar dagskrá barnanna leyfir en annars finnst mér notalegt að lesa góða bók eða horfa á góða Netflix þætti þegar ég þarf að hvíla hugann.”

Planið að kaupa tjald í sumar og fara í alvöru útilegu,verður áhugaverð tilraun!

Nú er sumarið framundan, ætlar bæjarstjórinn að taka gott sumarfrí? ,,Já, ég tek sumarfrí sem er nauðsynlegt til að hlaða batteríin. Bæjarstjórn fer í sumarfrí um miðjan júlí og þá viljum við fjölskyldan hvergi annars staðar vera en á Íslandi fram í miðjan ágúst. Við ferðumst um landið, reynum að koma veiði fyrir og slökum á í sveitinni. Við seldum hjólhýsið okkar í fyrra en krökkunum finnst ekki annað koma til greina en að fara í a.m.k eina útilegu í sumar svo planið er að kaupa tjald og fara í alvöru útilegu, það verður áhugaverð tilraun.”

Gerir að sjálfsögðu ekki uppá milli liðanna

Ég verð að spyrja þig aðeins út í fótboltann þar sem Besta-deildin var að hefjast. Fylgist þú eitthvað með og með hvaða liði heldur bæjarstjórinn, HK eða Breiðabliki og viltu spá einhverju fyrir um gengi þíns liðs í sumar? ,,Já, ég fylgist með okkar liðum í Kópavogi, HK og Breiðblik, og geri að sjálfsögðu ekki uppá milli liðanna. Í karlaboltanum er auðvitað frábært að bæði Kópavogsliðin séu í Bestu deildinni. Þá held ég með Breiðablik í Bestu deild kvenna og HK í Lengjudeild kvenna. Við búum í efri byggðum og börnin mín æfa fótbolta með HK svo ég held að sjálfsögðu með HK þegar börnin mín eru að keppa,” segir hún.

Ræsir keppni í götugöngu á afmælisdegi Kópavogsbæjar

Og svo er afmæli Kópavogsbæjar þann 11. maí. ,,Já, framundan er afmæli Kópavogsbæjar og margt um að vera í bæjarfélaginu. Ég fæ að ræsa keppni í götugöngu en Virkni og vellíðan, heilsuefling fyrir 60 ára og eldri í Kópavogi, stendur fyrir viðburðinum. Við hefjum leika klukkan 15 og gangan hefst í Fífunni, ég hvet auðvitað alla eldri bæjarbúa til að mæta sem geta. Þá heiðrum við bæjarlistamann Kópavogs á afmælisdeginum auk þess sem það er verið að opna grunnsýningu á verkum Gerðar Helgadóttur í Gerðarsafn,” segir Ásdís að lokum.

Mynd: Meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framskóknarflokksins framlengdi samstarf sitt eftir sveitarstjórnarkosningarnar fyrir ári síðan. Á myndinni eru Ásdís og Orri áframhaldandi þegar samstarf flokkanna var innsiglað eftir kosningarnar 2022.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar