Sunnudaginn 14. maí verða Kór Vídalínskirkju í Garðabæ og Kór Kópavogskirkju í Kópavogi með sameiginlega tónleika í Vídalínskirkju. Auk kóranna leikur strengjasveit og jazzband á tónleikunum, alls um 70 manns. Stjórnendur eru þau Jóhann Baldvinsson og Lenka Mateova.
Hvernig kom þetta samstarf til? ,,Þannig er að í byrjun ársins hafði Lenka samband við mig og spurði hvort ég og Kór Vídalínskirkju hefðum áhuga á samstarfi,” segir Jóhann. ,,Við höfðum verið að æfa A Little Jazz Mass eftir enska tónskáldið Bob Chilcott, en hann kom hingað til lands fyrir nokkrum árum og var með námskeið fyrir organista, heldur Lenka áfram. Okkur langaði til að flytja þetta verk með stærri kór og þess vegna hafði ég samband við Jóhann, en fyrir nokkrum árum unnum við, ásamt Kór Hjallakirkju og Jóni Ólafi Sigurðssyni, saman að flutningi Messu eftir tékkneska tónskáldið Antonin Dvorák. Það samstarf gekk mjög vel og því upplagt að endurtaka leikinn,” segir hann og heldur áfram: ,,Við aftur á móti vorum búin að vera að æfa Messu í G dúr eftir Franz Schubert og vorum að leita að fleiri verkum til að vera með á tónleikum. Þegar Lenka hafði samband var náttúrulega kjörið að taka báðar þessa messur saman á sömu tónleikum. Tónlistin er náttúrulega gjörólík þótt textinn í þeim báðum sé sá sami, gamall messutexti sunginn á latínu. Schubertmessan er mjög hefðbundin fyrir strengjasveit, trompeta, orgel, kór og þrjá einsöngvara. Jazzmessan er hins vegar með tón- og hrynmáli jazzins og því mjög ólík hinni.”
Er eitthvað sérstakt tilefni þessara tónleika? ,,Já, það má vissulega segja það. Þannig er að Menningar- og safnanefnd Garðbæjar veitti mér þann heiður vorið 2022 að útnefna mig heiðurslistamann Garðabæjar. Mér finnst þetta mikill heiður og ég er mjög þakklátur fyrir þessa viðurkenningu. Mig langaði því að gera eitthvað af þessu tilefni og var kominn á fullt skrið í undirbúningi þegar Lenka hafði samband og stakk upp á þessu samstarfi. Það er ennfremur ánægjulegt að í vor eru liðin 10 ár frá því að byrjað var að setja hið nýja og glæsilega orgel upp í Vídalínskirkju, en það verður einmitt leikið á það í Schubertmessunni,” segir Jóhann.
Nú eru þetta tvö ólík verk sem flutt verða. Hvernig hafa æfingarnar gengið? ,,Já, satt er það,” segir Lenka. og heldur áfram: ,,Það er ekki á hverjum degi sem kirkjukórar æfa og syngja djazz, hvað þá heila jazzmessu. Þetta var því mikil áskorun fyrir mig, en ég kem til með að stjórna jazzmessunni, og kórinn, eða kórana, að takast á við þetta verkefni. Æfingar hafa gengið vel. Við erum búin að æfa mikið saman frá áramótum og höfum stundum skipt kórnum á æfingum í karla og konur og síðan æft saman og hægt og bítandi gengur þetta upp.
Jazzmessan reynir allt öðru vísi á kórfólkið. Það er öðruvísi taktur og hljómar sem þarf að læra á. Þegar svo farið er að æfa Schubertmessuna á æfingum, en Jóhann mun stjórna henni, kemur fólk inn í gamalkunnan hljóðheim. Þetta er mjög gaman,” segir hún brosandi.
En það er ekki bara kór eða kórar á tónleikunum? ,,Rétt er það,” segir Jóhann. ,,Í Schubertmessunni leikur strengjasveit með kórnum auk tveggja trompeta og orgeli. Þar að auki koma fram þrír einsöngvarar úr röðum kórfélaga og syngja í nokkrum köflum. Einsöngvararnir eru Ólafía Linberg Jensdóttir sópran, Árni Jón Eggertsson tenór og Bergvin Þórðarson bassi. Það er mjög ánægjulegt að geta fengið einsöngvara úr röðum kórfélaga. Jazzmessan er eingöngu fyrir kór, píanó- og kontrabassaleikara, en enga einsöngvara. Agnar Már Magnússon jazz-píanóleikari og Birgir Steinn Theodórsson kontarbassaleikari munu leika með kórnum í því verki,” segir hann og bætir við: ,,Það vill líka svo skemmtilega til að nokkrum dögum eftir þessa tónleika hefst djazzhátíðin Jazzþorpið í Garðabæ svo þetta er eins konar upptaktur á þá hátíð”
Frítt á tónleikana
Nú hlýtur þetta að vera kostnaðar-samt. Hvað kostar á tónleikana? ,,Já, það er rétt, þetta kostar mikið en við erum búin að vera dugleg að sækja um styrki hér og þar til að mögulegt sé að hafa frítt inn. Mér finnst það mikilvægt að sem þakklætisvott fyrir heiðurinn sem mér var sýndur verði hægt að bjóða upp á frían viðburð í Garðabæ. Við reynum því að fá hljóðfæraleikara ef þess er kostur úr Garðabæ. Það var síðan skemmtilegt að fá okkar næstu nágranna úr Kópavogi til að vera með okkur í þessari hátíð,” segir Jóhann nokkuð spenntur að lokum.
Eins og fyrr segir verða tónleikarnir í Vídalínskirkju í Garðabæ sunnudaginn 14. maí kl. 17.00.
Mynd: Jóhann stýrir kórunum á æfingu á dögunum en tónleikarnir fara framm í Vídalínskirkju sunnudaginn 14. maí kl. 17