Íþróttabærinn Kópavogur fjölmennir í Lífshlaupið

Við sem búum í íþróttabænum Kópavogi eigum að sjálfsögðu að taka sem flest þátt í hinum bráðskemmtilega leik Lífshlaupinu.  Jafnvel þó ýmsar takmarkanir hafa verið á möguleikum okkar til þess að taka þátt í íþróttum vegna Covid-19 aðgerða þá fellur umgjörð Lífshlaupsins mjög vel að núverandi aðstæðum. Við vonum þó að við sjáum fram á afléttingu þeirra innan skamms.  Hér getur hver og einn tekið þátt á sínum forsendum. Frábærar gönguleiðir hér í Kópavogi þar sem víða er búið að koma upp aðstöðu til þess að stunda léttar þrekæfingar sem má nýta í til þátttöku í leiknum.  Himnastiginn alltaf góður, en stundum erfiður.  Útivistarsvæði sem við höfum í Kópavogsdalnum, opin græn svæði sem víða má finna auk þess sem Heiðmörkin er alltaf paradís til útivistar allt árið um kring.  Sundstaðir okkar hér í Kópavogi eru einnig í fremstu röð.  

Með einfaldri hreyfingu þá stuðlum við að bættri heilsu okkar sem eykur vellíðan.  Í íþróttafélögunum í Kópavogi fer fram kraftmikið starf. Bæði barna og unglingastarf. En einnig afreksstarf.  Við í Kópavogi erum einnig öflug í almennri hreyfingu. Það sést vel á göngustígunum okkar sem eru oft á tíðum fjölmennir, þá sérstaklega um helgar.  Nú er rétti tíminn til þess að færa almenna hreyfingu yfir í skemmtilega keppni.

Aðeins um Lífshlaupið.  Um er að ræða heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Forsaga Lífshlaupsins má rekja allt aftur til 2005 en ári síðar tók ÍSÍ við vef sem haldið hefur utan um verkefnið.

Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Í ráðleggingum Embætti landlæknis um hreyfingu er börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag.

Lífshlaupið er skemmtilegur leikur þar sem keppt er í nokkrum mismunandi hópum.  Í boði er vinnustaðakeppni, grunnskólakeppni, framhaldsskólakeppni og svo einstaklingskeppni.  Lífshlaupið beinist því að breiðum hóp í okkar samfélagi.  Því ættu sem allra flestir að geta tekið þátt og skráð sína daglegu hreyfingu allt árið. Nánari upplýsingar er hægt að finna á heimasíðu Lífshlaupsins.

Skrá má alla hreyfingu sem nær minnst 30 mínútum samtals á dag hjá fullorðnum og minnst 60 mínútum samtals á dag hjá börnum og unglingum. Tímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn s.s. 10 til 15 mín í senn.

Í Kópavogi er fjölmennir grunnskólar og framhaldsskóli ásamt því að hér eru einnig fjöldi vinnustaða.  Ég vil því hvetja ykkur öll til þess að taka þátt, hvort heldur sem er í einhverjum af þeim hópum sem þið tilheyrið eða í einstaklingskeppninni.  

Við í íþróttabænum Kópavogi eigum að sjálfsögðu að láta mikið fyrir okkur fara í þessari frábæru og skemmtilegu keppni sem ÍSÍ ásamt samstarfsaðilum hefur staðið fyrir í mörg ár. Það kemur sér því vel hjá mér að hjóla við og við til vinnu og ætti þátttaka í Lífshlaupinu að hvetja mig til að gera enn betur hvað það varðar.  Vona að þið sjáið sem flest tækifæri til þess að auka hreyfingu í ykkar daglega lífi og taka þátt í Lífshlaupinu. Gangi ykkur sem best.

Jón Finnbogason
Formaður Íþróttaráðs Kópavogs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar