Eins og njótendur menningarviðburða í Garðabæ hafa orðið varir við hefur viðburðum verið frestað það sem af er ári. Með breyttum sóttvarnarreglum fer að líða að því boðið verði uppá viðburði fyrir börn og fjölskyldur en samkvæmt menningarfulltrúa Garðabæjar hefur fræðslu- og menningarsvið tekið þá ákvörðun að fara varlega af stað.
„Mér og mínu fólki í Hönnunarsafninu og Bókasafni Garðabæjar féllust auðvitað hendur í byrjun árs þegar ljóst var að enn á ný þurftum við að breyta okkar plönum enn á ný“ segir Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi. Eins og margir muna voru sýnd menningarmyndbönd haustið 2020 þar sem ekki var hægt að halda viðburði. Í janúar hóf Ólöf að undirbúa nokkur myndbönd sem hún segir okkur frá:
„Ég sá fyrir mér að vilja gera eitthvað fyrir næstum alla. Skemmtilegt og fræðandi efni fyrir börn, bæði skólahópa en líka börn og fjölskyldur til að njóta heima; útsaumskennslu fyrir alla þá sem ekki komast á námskeið í Hönnunarsafninu og svo tónlist fyrir tónleikaþyrsta gesti tónleikaraðarinnar Tónlistarnæring sem hefur verið mánaðarlega á dagskrá í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Það tók smá tíma að komast í gang þar sem margir voru í sóttkví og en núna um mánaðarmótin fóru tökur loksins fram og þættirnir munu birtast á facebooksíðu Garðabæjar um leið og búið er að vinna efnið,“ segir Ólöf spennt að venju.
Frönsku hnútarnir hennar Sunnu Örlygsdóttur eru meðal annars kenndir í myndbandi sem við tókum upp á Hönnunarsafninu en það er Hafdal framleiðsla tekur upp efnið og vinnur það en samstarfið þá hefur verið einstaklega farsælt segir Ólöf. Verkefnið sem Barnamenningarsjóður styrkti og nefnist Við langeldinn/Við eldhúsborðið fær rými í þremur stuttum þáttum með þjóðfræðingnum Dagrúnu Ósk Jónsdóttur sem segir meðal annars frá sögum af huldufólki og leikjum barna í gegnum tíðina en teiknarinn Ari Yates gerir myndskreytingar í þáttunum. Tenórinn ástsæli Gissur Páll Gissurarson sem ætlaði að syngja á tónleikum 2. febrúar tók upp nokkrar aríur fyrir okkur í safnaðarheimili Vídalínskirkju en með honum leikur Guðrún Dalía Salómonsdóttir.
„Í raun hefðum við getað haldið tónleikana en vorum búin að undirbúa upptökur en auk þess mega utanaðkomandi gestir ekki heimsækja Tónlistarskólann. Við tókum því þá ákvörðun að halda okkar striki með upptökur og fara varlega af stað með viðburði enda viðbúið að smitum í samfélaginu fjölgi þar til að faraldrinum lýkur. Ég held að við getum látið okkur hlakka til að njóta aftur í menningarstofnunum bæjarins en sé gott að anda djúpt og vonandi njóta sem flestir þessa rafræna efnis,“ segir Ólöf að lokum og hvetur menningarnotendur til að fylgjast með á facebooksíðu bæjarins.