Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á fundi sínum í vikunni tillögu Pírata, Samfylkingar og BF Viðreisnar um að láta framkvæma könnun meðal íbúa í Glaðheimahverfi og meta hvernig til tókst að ná þeim markmiðum sem lagt var upp með í skipulagi svæðisins:
,,Lagt er til að setja íbúakönnun nýrra hverfa sem skilyrði eftir að uppbyggingu lýkur og reynsla er komin af umhverfinu. Byrjað verður að kanna viðhorf íbúa í Glaðheimahverfinu með netkönnun. Spurningalisti verður þróaður í samstarfi við fagaðila sem sér um úrvinnslu og samantekt. Verði þessi vinna hafin sem fyrst geta niðurstöður hennar nýst í hinu veigamikla nýja skipulagi í Hamraborginni.“
Í greinargerð með tillögunni minnihlutans kemur fram að nauðsynlegt sé að afla þekkingar af hendi þeirra sem búa í hverfinu, svo að hægt sé að draga lærdóm af því sem gekk vel og því sem betur hefði mátt fara. Við skipulag Glaðheimasvæðisins var lagt upp með að Glaðheimahverfið yrði eftirsótt fyrir fjölskyldufólk strax frá fyrsta degi. Áhersla skyldi lögð á almannarými, góðar almenningssamgöngur og góða upplifun íbúa af nærumhverfinu. Um nýjung í skipulagsvinnu er að ræða, en sambærileg könnun hefur ekki verið framkvæmd áður í Kópavogi. Má segja að þannig sé verið að loka verkferlahringnum við skipulagsgerðina, en mikil sóknarfæri eru falin í því að nýta þá verðmætu þekkingu sem býr í upplifun íbúa svæðisins til að taka upplýstar ákvarðanir um skipulag næsta hluta hverfisins sem nú er í vinnslu.
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi fagnar þeim góðu viðtökum sem tillagan fékk í bæjarstjórn og segir hana gott dæmi um þau fjölmörgu litlu en mikilvægu skref sem þarf að taka til að skapa lífvæna byggð í Kópavogi. ,,Píratar í Kópavogi starfa eftir grunnstefnu Pírata og hafa lagt ríka áherslu á það að íbúum sé gert kleift að vera virkir þátttakendur í allri stefnumörkun sinna hverfa, ekki eingöngu til að efla þekkingu og vandaða ákvarðanatöku innan stjórnsýslu Kópavogs, heldur einnig til að efla lýðræðislega aðkomu bæjarbúa að málefnum sem snerta þá. Það er okkar einlæga trú að þær breytingar sem grunnstefna Pírata boðar efli bæði lýðræði og skilvirkni í samfélaginu, og það er alltaf gleðiefni þegar þessar hugmyndir fá meðbyr annarra flokka.”