Staða leikskólamála í Garðabæ

Afsláttur fyrir tekjulægri heimili

Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 20. janúar sl. voru samþykktar reglur um tekjutengingu afslátta af leikskólagjöldum, gjöldum frístundaheimila og gjöldum til dagforeldra. Reglurnar eru settar til að koma til móts við barnafjölskyldur með lágar tekjur með það að markmiði að bæta kjör fjölskyldna.

Nú geta fjölskyldur með lægri heimilistekjur en 787.200 sótt um 40% afslátt af leikskólagjöldum, gjöldum í frístund og gjöldum til dagforeldra.

Við ákvörðun bæjarstjórnar var stuðst við sömu nálgun viðmiðunartekna og félagsmálaráðuneyti er með vegna frístundastyrkja. Heimild til afsláttar miðast við tekjur heimilisins.
Systkinaafslættir haldast áfram óbreyttir og afslættir til forgangshópa og námsmanna haldast óbreyttir til ársloka.

Stefnan er skýr varðandi 12 mánaða börnin

Stefna Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar var mjög skýr hvað varðar mögulegar lausnir fyrir foreldra vegna vistunar barna á leikskóla um leið og 12 mánaða fæðingarorlofi lýkur.
Undanfarin fjögur ár hefur markvisst verið unnið að því að fylgja þessari stefnu eftir. Markmiðinu um að bjóða upp á leikskóladvöl fyrir börn frá 12 mánaða aldri var náð tímabundið á síðasta ári en vegna manneklu, meðal annars af völdum covid-19 faraldursins, hefur ekki tekist að standast þessar væntingar að fullu.

Nýr sex deilda ungbarnaleikskóli, Mánahvoll, er risinn við Vífilsstaði og eru foreldrar mjög ánægðir með aðstöðuna og þjónustuna þar. Þennan leikskóla er hægt að stækka í átta deildir með skjótum hætti. Hins vegar hefur gengið erfiðlega að ráða starfsfólk og núna er einungis búið að opna þrjár af sex deildum. Allar hinar þrjár deildirnar á Mánahvoli eru tilbúnar til notkunar. Í vesturbænum okkar á Álftanesi hefur ein deild verið ónotuð því illa hefur gengið að ráða fólk þar líka.
Garðabær fór haustið 2021 í sérstaka auglýsingarherferð til þess að laða fólk til starfa á leikskólum bæjarins. Það hefur skilað árangri en ekki nægilega miklum.

Markmið okkar um að bjóða upp á leikskóladvöl fyrir börn frá 12 mánaða aldri er í fullu gildi. Við verðum að halda ótrauð áfram og leita allra leiða til þess að fá fólk til starfa á leikskólunum okkar.
Til þess að styrkja innra starf leikskólanna í Garðabæ samþykkti bæjarráð þann 18. janúar sl. tillögu leikskólanefndar um reglur varðandi úthlutun úr sérverkefnasjóði leikskóla. Úthlutun úr sjóðnum er ætlað að standa straum að launakostnaði vegna sérverkefna í leikskólum bæjarins. Fjárveiting samkvæmt fjárhagsáætlun Garðabæjar 2022 er 25 milljónir króna.

Framundan

Íbúaþróun og íbúasamsetning í Urriðaholti hefur reynst önnur en spár gerðu ráð fyrir. Hlutfall ungra barnafjölskylda er þar mun hærra en gerist almennt í nýjum íbúðarhverfum. Það er gleðiefni að ungt fólk skuli í svo miklum mæli sækjast eftir að búa í Garðabæ.

Nú á vordögum mun rísa í Urriðaholti 4-6 deilda leikskóli til tímabundinnar notkunar á meðan á byggingu nýs 6 deilda leikskóla þar stendur. Eftir að nýi leikskólinn tekur til starfa verður hægt að nýta bráðabirgðahúsnæðið áfram sem leikskóla ef þörf er á. Hafist verður handa við byggingu nýja leikskólans í sumar og er stefnt að opnun hans á næsta ári.

Gert er ráð fyrir nýjum leikskóla í Hnoðraholti og hægt að hefja strax undirbúning að byggingu hans samhliða uppbyggingu íbúðarbyggðar þar. Einnig verður hugað að stækkun Mánahvols í átta deildir samhliða uppbyggingu á nýju íbúðarsvæði í Vetrarmýri.

Nýr leikskóli er svo áformaður í Lyngási samhliða byggingu nýrra íbúða á því svæði.

Viðhorf íbúa og starfsfólks leikskólanna

Undanfarin ár hefur Garðabær verið í fremstu röð sveitarfélaga vegna þjónustu við íbúa varðandi leikskóla. Samkvæmt árlegum könnunum Gallup eru Garðbæingar mjög ánægðir með þjónustu leikskólanna í Garðabæ.

Samkvæmt Skólapúlsinum, þar sem m.a. er spurt um líðan starfsfólks, er starfsfólk leikskóla í Garðabæ einnig ánægt í starfi.

Starfsfólk leikskóla Garðabæjar hefur staðið sig mjög vel við að halda leikskólum bæjarins opnum við afar erfiðar aðstæður síðustu misserin og það ber að þakka.

Við þurfum öll að standa vörð um það góða starf sem fram fer í leikskólum Garðabæjar því lengi býr að fyrstu gerð.

Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar