Fyrirhugaðar stofnvegaframkvæmdir samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum var til umræðu á kynningarfundi Betri samgangna og Vegagerðarinnar fyrir hádegi í morgun. Sérstök áhersla verður lögð á kynningu á lokaáfanga Arnarnesvegar á fundinum sem mun liggja frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að Breiðholtsbraut. Arnarnesvegur hefur lengi verið á skipulagi enda er hann ein af forsendum uppbyggingar í efri hverfum Kópavogs. Útfærslan, sem kynnt verður á fundinum, er niðurstaða umtalsverðrar greiningarvinnu og samstarfs Vegagerðarinnar, Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar.
Umferðarþungi allt of mikill í efri byggðum Kópavogs
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi flutti erindi á kynningarfundinum og þar sagði hann m.a. að mikilvægi þess að ljúka við Arnarnesveg hafi lengi legið fyrir. ,,Viðbragðsáætlanir neyðarbíla hafa sýnt að viðbragðstími í efri byggðum Kópavogs er allt of langur sérstaklega fyrir efri byggðir Kópavogs. Þá vita allir sem leið eiga um Vatnsendann í Kópavogi að umferðaþungi er allt of mikill á Vatnsendavegi á álagstímum og gengur ekki upp fyrir íbúa og fyrirtæki í hverfinu að öll umferðin liggi um Vatnsendaveg.
Ef við skoðum söguna þá hefur það lengi legið fyrir að ljúka þyrfti Arnarnesvegi og saga hans er reyndar orðin ansi löng. Sá hluti vegarins sem liggur milli Hafnarfjarðarvegar og Reykjanesbrautar var lagður snemma á tíunda áratugnum.
Lokakaflinn 1,3 km langur
Það leið svo og beið til ársins 2016 áður en vegkaflinn frá Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi var vígður og nú bíðum við spennt eftir því að lokakaflinn, 1,3 kílómetra langur, verði lagður en hann liggur frá nágrenni Salalaugar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík.
Vonbrigðin voru mikil árið 2018
Þessi samgöngubót hefur verið lengi í fæðingu, allt of lengi. Vonbrigðin voru mikil þegar samgönguáætlun var kynnt árið 2018 og í ljós kom að framkvæmdinni hafði verið frestað enn og aftur. Sem betur fer var hlustað á gagnrýnisraddir, viðbragðsaðilar sögðu frestun óásættanlega og við sem erum í forsvari sveitarfélaganna tókum sannarlega undir áhyggjur þeirra auk þess sem við þekkjum vel sjónarmið íbúa sem þurfa að komast leiðar sinnar.
Málið er semsagt komið á skrið og nú er verið að vinna að deiliskipulagstillögu fyrir svæðið svo hægt verði að hefjast handa við næstu skref í átt að útboði vegarins.
Á þessum langa meðgöngutíma hefur ýmislegt breyst. Þar langar mig sérstaklega að nefna að vegkaflinn sem um ræðir liggur nú að mestu í landi Kópavogs með brú yfir Breiðholtsbraut en hafði áður legið nær Seljahverfi.
Innanhverfisvegur gegnt hlutverki þjóðvegar
Í Kópavogi austan Reykjanesbrautar búa hátt í 15.000 manns. Þetta er fjölmennt svæði, íbúar þekkja vel umferðasultuna sem myndast á Vatnsendavegi á álagstímum. Innanhverfisvegur hefur í raun gegnt hlutverki þjóðvegar en Vatnsendavegur er eina leiðin í gegnum Vatnsendann í dag. Sá vegur er óásættanlegur sem eina leiðin um svæðið.
Verður íbúum til hagsbóta
Lokaáfangi Arnarnesvegar mun létta á umferðinni um Vatnsendaveg, íbúum til hagsbóta. Betra umferðaflæði fylgir aukið öryggi, minni tíma verður varið í umferð, dregur úr mengun og lífsgæði aukast. Það gefur auga leið að umferð mun einnig léttast á Reykjanesbraut þegar ferðaleiðum fjölgar. Íbúar í næsta nágrenni, bæði í Kópavogi og Reykjavík munu njóta góðs af því og íbúar í Garðabæ og Hafnarfirði sömuleiðis.
Ég vil að lokum fagna þessum áfanga, lokakaflanum í ríflega 30 ára sögu vegarins. Ég hlakka til að keyra fullgerðan Arnarnesveg von bráðar,“ sagði Ármann Kr. á fundinum í morgun.