Geyma úthlutun lóðar í Múlalind fyrir einhvern gæðing?

Íbúar í Múlalind eru ósáttir við bæjaryfirvöld í Kópavogi, sem eiga enn eftir að úthluta lóð í götunni, en bærinn hirðir ekki um lóðina sem er í mikilli órækt, íbúum til mikillar mæðu. Íbúi við götuna segir margoft búið að hafa samband við bæjaryfirvöld en án árangurs þar til í síðustu viku. ,,Bærinn brást þá við kvörtunum okkar eftir ítrekaðar tilraunir, en árangurinn var að nú lítur skikinn verr út en áður,” segir Örn Gunnlaugsson íbúi við Múlalind sem vildi koma málinu á framfæri við Kópavogspóstinn.

Lóðin að Múlalund 5

Gatan okkur vinnur ekki til verðlauna fyrir prýði

,,Við erum nokkrir íbúar í götunni sem erum að reyna að hafa huggulegt og snyrtilegt í kringum okkur. Við erum þó sammála um að gatan okkar vinnur ekki til verðlauna fyrir prýði, þökk sé bæjaryfirvöldum sem leggjast greinilega á árarnar með að tryggja að okkar gata keppi ekki við aðrar hvað það varðar í bæjarfélaginu. Það er dapurlegt að bæjaryfirvöld skuli þó ekki sjá sóma sinn í að hirða um þennan skika (Innsk blm. Lóð nr. 5) sem er á þeirra forræði, en þau eru að því er virðist að geyma úthlutun lóðarinnar fyrir einhvern gæðing. Þar sem lóðinni er ekki úthlutað þykir okkur íbúum sem rætt hafa saman ekki óeðlilegt að fyllt verði upp í þennan ófögnuð og svæðið tyrft eða einhverjar ráðstafanir gerðar sem laga ásýnd svæðisins,“ segir Örn.

Loka bara eyrum og augum

,,Það er margbúið að hafa samband við bæjaryfirvöld á öllum stigum en alls staðar lokar þetta fólk þar bara eyrum og augum fyrir þessu,“ segir Örn.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar