Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt heimild til riftunar verksamnings við verktakafyrirtækið Rizzani de Eccher um byggingu Kársnesskóla við Skólagerði.
Komið hafa fram gallar á unnu verki verktakans og þá hefur verktaki ekki sinnt fullnægjandi úrbótum þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir, en bygging nýs Kársnesskóla hófst í kjölfar þess að eldri bygging við Skólagerði var rýmd vegna rakaskemmda og myglu en húsið var dæmt ónýtt og rifið í byrjun árs 2019.
Mikilvægt er að mati Kópavogsbæjar að verkinu verði komið í viðunandi horf með hagsmuni íbúa að leiðarljósi.
Markmið Kópavogsbæjar er að byggingu Kársnesskóla ljúki fyrri hluta árs 2024, eins og núverandi tímaáætlun gerir ráð fyrir.
Niðurstöður útboðs um nýju byggingu skólans voru kynntar í febrúar árið 2021 en þar átti áðurnefnt ítalska verktakafyrirtæki naumlega lægsta boð, 3,2 milljarða, á undan Ístaki og Íslenskum aðalverktökum sem buðu 3,24 og 3,28 milljarða í bygginguna. Kostnaðaráætlun verksins hljóðaði upp á 3,7 milljarða.