Gert ráð fyrir fyrir íbúðabyggð á Vatnsendahæð

Skipulagslýsing fyrir deiliskipulag á Vatnsendahæð í kynningu

Skipulagsráð Kópavogs hefur samþykkt kynningu á skipulagslýsingu fyrir gerð nýs deiliskipulags á Vatnsendahæð.

Skipulagslýsingin nær yfir óbyggt svæði á Vatnsendahæð þar sem gert er ráð fyrir íbúðabyggð í tillögu að nýju Aðalskipulagi Kópavogi 2019-2040. 

Deiliskipulagssvæðið er um 29 hektarar og liggur suðaustan við fyrirhugaðan Arnarnesveg á mörkum Kórahverfis og Hvarfa í Vatnsenda. Í skipulagslýsingunni koma meðal annars fram helstu áherslu bæjaryfirvalda við fyrirhugaða deiliskipulagsgerð, upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu, fyrirhugað skipulagsferli svo og um kynningu og samráð.

Viðfangsefni og markmið

Ekkert deiliskipulag er til fyrir svæðið og því er um að ræða nýtt deiliskipulag. Megintilgangur með deiliskipulagsvinnunni er að móta hverfi með vistvænum áherslum í samræmi við markmið aðalskipulagstillögu Kópavogs. Með uppbyggingu í Vatnsendahvarfi er stutt við betri nýtingu á núverandi grunnkerfum samgangna, veitna, samfélagslegum innviðum og almannaþjónustu.

Skipulagssvæðið er brúna svæðið fyrir miðju og það græna umhverfis það.

Deiliskipulagssvæðið er um 29 hektarar

Deiliskipulagssvæðið er um 29 hektara og liggur að mörkum Reykjavíkur, Kórahverfis og Hvörfum í Vatnsenda. Vatnsendahvarfið er hæst 148 m.y.s og liggur hærra í landinu en aðliggjandi svæði. Svæðið er aflíðandi og óbyggt að mestu. Á svæðinu eru fjarskiptamöstur og tilheyrandi mannvirki m.a gamla útvarpsstöðin.

Í nálægð við skipulagssvæðið er að finna margvíslega þjónustu og samfélagslega innviði, þar má nefna íþróttasvæði Kórsins, útivistarsvæði við Elliðavatn, Guðmundarlund, fjölda leikskóla, tvo grunnskóla, athafnasvæði, heilsugæslu, hótel, líkamsrækt, bakarí og aðra verslun og þjónustu.

7,5 hektarar í eigu ríkisins

Efst í Vatnsendahvarfi er land í eigu ríkisins 7,5 hektara að flatarmáli. Unnið er að samkomu- lagi um kaup Kópavogs á þessu landsvæði. Taka þarf tillit til eignarhalds við gerð deiliskipu- lags fyrir svæðið svo hægt sé að byggja svæðið í áföngum.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Kópavogsbær hefur innleitt Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sveitarfélagsins og sett sér 36 yfirmarkmið til þess að vinna eftir. Heimsmarkmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög og heimsmarkmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum og 15 um líf á landi eru mikilvægustu markmiðin til að huga að við gerð deiliskipulags í Vatnsendahvarfi.

Skipulagslýsing er eins konar verkáætlun um mótun tillögu að verulegri breytingu eða endurskoðun á gildandi skipulagi þar sem tildrögum og forsendum skipulagsgerðarinnar er lýst og áherslur sveitarstjórnar dregnar fram. Með skipulagslýsingu er íbúum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að koma með ábendingar og athugasemdir sem snúa að málefnum deiliskipulagsins og komandi skipulagsvinnu.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar