Rótarýklúbbar Garðabæjar gáfu bæjarfélaginu plöntur

Í góðviðrinu síðustu daga hefur viðrað vel til gróðursetningar. Síðastliðinn laugardag 8. maí afhentu Rótarýfélagar í Garðabæ bæjarfélaginu formlega trjágjöf sem felur í sér 115 plöntur. Jóna Sæmundsdóttir bæjarfulltrúi og formaður umhverfisnefndar Garðabæjar veitti gjöfinni viðtöku fyrir hönd bæjarins og þakkaði þeim fyrir mikilvægt framlag til umhverfismála.

Láta gott af sér leiða! F.v. Guðrún, forseti Rkl. Görðum og Sigríður Björk, forseti Rkl. Hof gróðursetja fallegt tré í Bæjargarðnum í Garðabæ

Ein planta fyrir hvern félaga í klúbbunum

Í Garðabæ starfa tveir Rótarýklúbbar sem kenndir eru við Garða og Hof. Eins og gildir um Rótarýklúbba láta þessir tveir klúbbar gott af sér leiða með ýmsu móti í samfélaginu. Plöntunum, sem klúbbarnir gáfu, var fundinn góður staður í nýjum bæjargarði bæjarbúa í nálægð við Ásgarð og Vífilsstaðalæk. Á meðal plantnanna eru berjarunnar sem ættu að gleðja marga vegfarendur og börn og fjölskyldur sem sækja leiksvæði í bæjargarðinum. Rótarýdagurinn er árlegur viðburður og það var á einum slíkum sem plöntugjöfin var veitt Garðabæ og garðyrkjustjóri bæjarins Smári Guðmundsson veitti henni viðtöku. Um er að ræða eina plöntu fyrir hvern félaga í klúbbunum tveimur eða 115 talsins. Rótarý leggur mikla áherslu á umhverfismál og í þeim anda var gjöf klúbbanna til Garðabæjar veitt.

Forsíðumynd. F.v. Guðrún Högnadóttir, Guðmundur Einarsson, Vilhjálmur Bjarnason, Sigríður Björk Gunnarsdóttir, Bjarni Þór Þórólfsson, Hrefna Sigríður Briem, Stella Víðisdóttir og
Jóna Sæmundsdóttir sem veitti trjánum viðtökur.

Búið er að koma fyrir merkingu við trjáreitinn um gjöf Rótarýklúbbanna. F.v. Guðrún, Bjarni, Vilhjálmur, Hrefna, Guðmundur, Jóna, Stella og Sigríður
Bjarni Þór og Jóna Sæmunds gróðursetja tvær af 115 plöntur sem eru í reitnum
Trjáreitur Rótarýklúbbanna
Það var létt yfir mannskapnum!

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar