Fyrsta árið okkar við stjórnvölinn

Í Kópavogi er stefna okkar sem myndum meirihluta í bæjarstjórn að nýta sem best fjármuni bæjarins og skapa svigrúm til að setja aukið fjármagn í grunnþjónustu. Um leið hlífum við skattgreiðendum við auknum álögum. Þessar áherslur endurspeglast í verkum okkar á fyrsta ári í bæjarstjórn.

Góður rekstur
Hlutverk kjörinna fulltrúa er að standa vörð um grunnþjónustuna og tryggja um leið að innviðir séu til staðar til að mæta þörfum bæjarbúa. Því skiptir höfuðmáli að halda fast utan um rekstur bæjarfélagsins og koma í veg fyrir að skuldir aukist, ekki síst í ljósi þess að fyrirséð er að þjónusta sveitarfélaga mun einungis þyngjast í rekstri horft til framtíðar. Í samanburði við önnur nærliggjandi sveitarfélög stendur rekstur Kópavogsbæjar á traustum grunni, skuldir hafa verið greiddar niður undanfarin ár og skuldahlutfall langt undir lögbundnu lágmarki. Á sama tíma hefur íbúum fjölgað hlutfallslega hratt og umfangsmiklar framkvæmdir verið á innviðum eins og leik- og grunnskólum. Stefna okkar er skýr – áfram verður staðið vörð um traustan rekstur og sjálfbærni skulda, frá því verður aldrei vikið.

Lægri skattar
Of margir stjórnmálamenn standast ekki freistinguna að sækja sífellt meira fjármagn úr vasa skattgreiðenda. Við ætlum að forgangsraða verkefnum til að tryggja að reksturinn gangi upp og unnt sé að veita viðeigandi þjónustu án þess að hækka álögur. Í umræðum í tengslum við fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar heyrðum við ákall þess efnis frá fulltrúum minnihlutans að fullnýta skattstofna sveitarfélagsins. Við sem gegnum forystu í bæjarfélaginu berum virðingu fyrir því fjármagni sem bæjarbúar og fyrirtæki afla sér og því skýr stefna okkar að skapa rými til að lækka álögur og það höfum við verið að gera. Á árinu 2023 lækkuðu fasteignaskattar í Kópavogi um 400 milljónir króna og eru með þeim lægstu á landsvísu – skattalækkanir sem allir bæjarbúar njóta góðs af. Með þeirri ákvörðun erum við að svara ákalli bæjarbúa um lægri álögur fasteignagjalda sem við fundum svo sterkt fyrir í kosningabaráttunni fyrir um rúmu ári síðan. 

Raunhæfar lausnir í leikskólamálum
Leikskólar eru ein af grunnstoðum samfélagsins sem fyrsta skólastig og þjónusta fyrir börn og foreldra. Ákall foreldra um að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til börn fá leikskólavist er skiljanlegt. Því höfum við lagt ríka áherslu á að bjóða upp á raunverulegt val um heimgreiðslur, dagvistun eða leikskóla. Vandi leikskólanna er djúpstæður mönnunarvandi sem þarf að leysa í skrefum. Undanfarið hefur starfshópur unnið við að móta tillögur um hvernig unnt sé að tryggja eftirsóknarvert starfsumhverfi í skólum bæjarins fyrir börn og starfsfólk. Þær tillögur verða kynntar fljótlega. Þá hafa heimgreiðslur þegar verið samþykktar og verða innleiddar í haust. 

Lýð- og geðheilsumálin efld
Við teljum mikilvægt að allir bæjarbúar hafi möguleika á að stunda almenna heilsueflingu, fyrir unga sem aldna. Heilsuefling eldri borgara í Kópavogi gegnum verkefnið „Virkni og vellíðan“ hefur gengið afskaplega vel og skilað góðum árangri. Við höfum því samþykkt að auka fjármagn til verkefnisins þannig að fleiri bæjarbúar fái tækifæri til heilsueflingar allt árið um kring. Þá hefur frá síðastliðnu hausti íþrótta- og tómstundaiðkun 5 ára barna verið gjaldfrjáls í bæjarfélaginu. Loks má geta þess að nýverið var samþykkt að styrkja ráðgjafa- og stuðningsþjónustu við ungmenni í Kópavogi með það að markmiði að mæta betur þörfum ungs fólks á aldrinum 16-25 ára. 

Efling menningarstarfs í Kópavogi
Nýverið voru breytingar kynntar á starfsemi menningarhúsanna með það að markmiði að efla starfsemi þeirra, upplifun og fræðslu bæjarbúa, ungra sem aldinna. Reynt hefur verið að afvegaleiða umræðuna um þær breytingar og því haldið fram að meirihlutinn sé að boða niðurskurð í menningarstarfsemi bæjarins, sem er alrangt. Með breytingunum er verið að forgangsraða fjármunum með öðrum hætti, endurhugsa starfsemi Náttúrufræðistofu og Bókasafnsins, samþætta samstarf milli stofnana og hanna einstakt upplifunar- og fræðslurými með sérstaka áherslu á yngri kynslóðina. Þessi vinna er þegar hafin í samstarfi við lista- og menningarráð og starfsfólk menningarstofnana. Við vonumst til að opna nýja rýmið næsta vor fyrir bæjarbúa. Menning spilar lykilhlutverk við að búa til fallegan bæjarbrag, undir okkar forystu verður áfram staðið vörð um menningarstarfið í bænum.

Stefna okkar er skýr
Hér hafa aðeins örfá dæmi verið nefnd af þeim verkefnum sem við höfum staðið fyrir á árinu. Kjörnir fulltrúar þurfa að standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir þátttöku í stjórnmálum. Það er auðvelt að missa sjónar á því sem skiptir máli ef áherslur beinast ekki að þeim verkefnum sem mestu skipta fyrir bæjarbúa hverju sinni. Hjá okkur er og verður áfram forgangsmál að efla grunnþjónustu við bæjarbúa, byggja upp öflugt samfélag þar sem sköttum á bæjarbúa er stillt í hóf. Kópavogur er sveitarfélag í fremstu röð og við ætlum að tryggja að svo verði áfram undir okkar forystu.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs
Orri Hlöðversson, formaður bæjarráðs í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar