Garðabær hefur falið þremur fasteignasölum að halda utan um sölu á byggingarrétti á lóðum í fyrsta áfanga Hnoðraholts. Jarðvegsvinnu og gatnagerð mun ljúka á svæðinu í haust. Reikna má með að nýir lóðarhafar muni hefja uppbyggingu strax á þessu ári og að íbúar geti flutt inn 2025.
Í fyrsta áfanga setur Garðabær á sölu byggingarrétt fyrir eina parhúsalóð, fimm raðhúsa lóðir (alls 19 íbúðir), sjö einbýlishúsalóðir auk lóða fyrir fjölbýlishús. „Ég býst við því að verktakar muni einbeita sér að fjölbýlishúsalóðum við Vorbraut en að einstaklingar muni hafa áhuga á einbýlishúsalóðum, auk par- og raðhúsalóða,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri. Bæjarráð samþykkti úthlutunarreglur fyrir söluna á byggingarrétti á fundi sínum þriðjudaginn 13. júní. „Þetta hefur alla burði til að vera afskaplega gott hverfi fyrir fólk sem vill komast auðveldlega í náttúru og útivist, en líka eiga gott og greitt aðgengi að höfuðborgarsvæðinu. Það gerist varla meira miðsvæðis en Hnoðraholt.“
Fasteignasalan Torg, Garðatorg eignamiðlun og Fasteignamarkaðurinn munu annast sölu á byggingarrétti lóðanna fyrir Garðabæ og veita upplýsingar vegna tilboðsgerðar.
Tilboðsgjafi getur gert tilboð í allar lóðirnar
Ekki eru takmörk á því hversu margar lóðir hver tilboðsgjafi getur lagt fram tilboð í og fengið úthlutað. Hver tilboðsgjafi getur þó aðeins lagt fram eitt tilboð í hverja lóð.
Til að tryggja að uppbyggingin gangi vel fyrir sig setur Garðabær nokkrar kvaðir á upphaf vinnu við framkvæmdirnar.
- Lóðarhafi skuldbindur sig til að sækja um byggingarleyfi innan 8 mánaða frá tilkynningu um að lóð sé byggingarhæf.
- Lóðarhafi skuldbindur sig til að hefja framkvæmdir innan 8 mánaða frá samþykki byggingarleyfis.
- Lóðarhafi skuldbindur sig til ljúka grófjöfnun lóðar og frágangi við ytra byrði húss innan 24 mánaða frá samþykki byggingarleyfis.
„Þetta gerum við til þess að stýra framkvæmdunum í hverfinu, jafna framkvæmdatímann milli aðila og geta þannig undirbúið hverfið fyrir íbúana sem best,“ segir Almar.
Tilboð þurfa að berast fyrir kl. 16 fimmtudaginn 29. júní
Tilboð í byggingarrétt lóðanna þurfa að berast fyrir kl. 16:00 fimmtudaginn 29. júní 2023 og gilda til kl. 12:00 fimmtudaginn 13. júlí 2023.
Tilboð verða opnuð og tekin fyrir á fundi bæjarráðs Garðabæjar kl. 08:00 þriðjudaginn 4. júlí 2023.