Faglegt og fjölbreytt tónlistarnám

Tónlistarskólinn Tónsalir er nú að ljúka sínu 16 starfsári. Tónsalir er einkarekinn skóli og má með sanni segja að hafi notið mikilla vinsælda enda námið fjölbreytt og faglegt. Í skólanum er kennt eftir ryþmískri námsskrá, en ryþmísk tónlist er safnheiti yfir djass, rokk, blús og aðrar tónlistartegundir sem teljast ekki til klassískrar tónlistar.

Ólafur Kristjánsson skólastjóri Tónsala segir að í skólanum sé boðið upp á einstaklingsbundið nám á gítar, píanó, rafbassa, trommur og söng sem rúmar mismunandi óskir og áherslur nemenda hverju sinni. Í Tónsölum eru kennd bókleg fög á borð við tónfræði, tónheyrn og hljómfræði og þar að auki samspil sem er kjarninn í kennslu ryþmískrar tónlistar.

Ólafur Kristjánsson, skólastjóri Tónsala

Fyrir tveimur árum flutti skólinn starfsemi sína í nýtt og glæsilegt sérhannað húsnæði fyrir starfsemi skólans að Ögurhvarfi 4A í Kópavogi. Segja má að flutningarnir hafi verið bylting í starfsemi skólans að sögn Ólafs. ,,Nýja húsnæðið er mun hentugra fyrir starfsemina þar sem það er teiknað upp með okkar þarfir í huga. Fyrir utan að vera stærra og fleiri kennslurými, er betri hljóðvist í rýminu sem þýðir að ekki er truflun á milli stofa eins og oft var í því húsnæði sem við vorum í fyrir. Svo er stærri tónleikasalur fyrir nemendatónleika. Þannig það má alveg tala um byltingu fyrir skólastarfið,” segir Ólafur.

Síðustu tvö skólaár krefjandi

,,Með sanni má segja að síðustu tvö skólaár hafi verið krefjandi. Þá helst vegna heimsfaraldursins sem hefur kallað á breytta starfshætti í skólum. Einnig var síðasti vetur var heldur ekki hagstæður okkur þegar kemur að veðri. Þá kom sér vel að við höfum tekið upp í meira mæli starfræna miðlun. Vegna samkomutakmarkana hefur til dæmis aðeins einu sinni verið boðið uppá nemendatónleika í nýja húsnæðinu okkar. Það er því til-hlökkunarefni að geta í fyrsta skipti boðið til nemandatónleika í nýuppgerðum sal skólans.”

Það er ekki margt sem hefur breyst síðan skólinn hóf störf en þó eru alltaf smávægilegar áherslubreytingar. ,,Við höfum verið dugleg að nýta okkur tækninýjungar í okkar starfi og þróa kennsluaðferðirnar í samræmi við það, meðal annars með innleiðingu speglaðrar kennslu. Nemandi hefur þá aðgang að kennsluefni og kennara eftir að heim er komið við æfingar og getur undirbúið sig betur fyrir kennslustund. Samband kennara og nemanda fer því ekki einungis fram í kennslutíma. Auk þess hefur verið gríðarleg þróun í margskonar kennslusmáforritum síðustu ár sem mörg hver eru kær viðbót við hefðbundna hljóðfæra- og tónfræðikennslu. Það kemur þó ekkert í staðin fyrir hefðbundna tónlistarkennslu og verður líklega seint þannig að tónlistarkennarar og tónlistarskólar verði leystir af hólmi með tækninni. Áfram höldum við að þróa okkar starf með nýungar í huga, þar viljum við vera í fararbroddi meðal tónlistarskóla á landinu,” segir hann.

Laus pláss eru ekki mörg

Skólinn hefur verið fullsetin frá fyrsta degi og nú þegar farnar að streyma umsóknir fyrir næsta skólaár. ,,Okkar helsta vandamál, ef vandamál skal kalla, er að fáir nemendur hætta námi hjá okkur þannig laus pláss eru ekki mörg til umráða fyrir nýja nemendur, en þó alltaf eitthvað. Hvetjum við alltaf áhugasama að senda umsókn til okkar í gegnum heimasíðu skólans svo hægt sé að hafa samband ef pláss losnar,” segir Ólafur og heldur áfram. ,,Áskorun í okkar starfi hefur aldrei verið að laða til okkar nemendur þar sem það er alltaf fullt, heldur að fá til okkar hæfa kennarar til starfa og það hefur gengið sérstakalega vel. Hjá Tónsölum hafa starfað úrvals kennarar sem hafa metnað fyrir að miðla til nemanda sinna. Svo það sé bara orðað eins og það er, þá er ekki sjálfgefið að tónlistarmaður sem hefur lagt á sig margra ára nám á sitt hljóðfæri hafi áhuga fyrir að starfa við kennslu því flestra metnaður liggur til að spila á sitt hljóðfæri . Ekki er ég þó að segja að okkar kennarar hafi ekki áhuga og metnað til að ferkari spilamennsku, heldur að það er ekki fyrir alla að starfa við kennslu. Við höfum verið sérstakalega heppinn með kennaraliðið hjá okkur. Nokkrir kennarar við skólann hafa starfað hér nánast frá stofnun skólans.”

Yngstu nemendurnir á sjöunda aldursári

,,Yngstu nemendur hjá okkur í Tónsölum eru á sjöunda aldursári. Það er þó ekki algilt, ég hef stundum sagt að nemendur þurfa að hafa náð þeim þroska til að meðtaka kennslu sem getur verið mismunandi hjá ein-staklingum. Yfirleitt er það þannig að nemendur vaxa upp í skólanum sem er gaman að fylgjast með. Hef séð hér nemendur sem mættu fyrst til okkar sem ung börn og eru nú orðin fullorðið fólk.”

Ólafur segir að lokum að markmið skólans er að það sé eftirsóknarvert fyrir nemendur að stunda þar nám og að skólinn sé einnig eftirsóttur vinnustaður fyrir kennara. Skólinn leggur áherslu á að tónlistarnámið sé fjölbreytt og skemmtilegt.

Hægt er að fylgjast með skólastarfinu á heimasíðu skólans www.tonsalir.is sem og á insta-gram Tónsala.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar