Eva Sif nýr leikskólastjóri í Furugrund

Leikskólinn er fjögurra deilda og er nafn hans dregið af þeirri götu sem hann stendur við. Furugrund er rekinn af Kópavogsbæ og tók til starfa 8. apríl 1978. Í leikskólanum dvelja 70 börn á aldrinum 1-5 ára en nú í haust mun leikskólinn stækka og verða 6 deilda með 100 börn. Leikskólinn er staðsettur við Fossvogsdal og er stutt í skemmtileg útivistarsvæði. Í leikskólanum er lögð áhersla á að rækta með börnunum sjálfstæði og sjálfsaga og einkunnarorð leikskólans eru ; virðing, hlýja, öryggi og traust.

Eva Sif Jóhannsdóttir hefur starfað við leikskóla frá árinu 2002. Hún starfaði við leikskólann Marbakka í Kópavogi á árunum 2002-2008 sem leiðbeinandi með stuðning. Þá hafði hún umsjón með sérkennslu við sama leikskóla á árunum 2008-2012. Á árunum 2012-2021 starfaði hún við leikskólann Furugrund. Fyrst hafði hún umsjón með sérkennslu, þá var hún sérkennslustjóri og á árunum 2020-2021 var hún leikskólastjóri í afleysingu. Frá árinu 2021 hefur hún verið aðstoðarleikskólastjóri við leikskólann Núp og frá janúar–maí 2022 var hún í afleysingu sem sérkennsluráðgjafi á menntasviði Kópavogs.

Eva Sif lauk meistaragráðu í sérkennslufræðum frá menntavísindasviði Háskóla Íslands árið 2016. Hún hefur mikinn metnað fyrir starfinu, öfluga faglega sýn og leggur áherslur á mikilvægi góðra samskipta og samvinnu við nemendur, foreldra og samstarfsfólk. Reynsla hennar af stjórnun og faglegri forystu í leikskólastarfi ásamt jákvæðri og lausnamiðaðari nálgun mun nýtast henni við að gera góðan leikskóla enn betri. Eva Sif þekkir Furu-grund mjög vel og hugmyndafræði leikskólans og hefur skýra framtíðarsýn um starf hans.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar