Elligettó á forsendum fjárfesta

Bæjarstjóri Kópavogs hefur lagt það til að fara í samstarf við fjárfesta á Gunnarshólma um uppbyggingu 7500 manna byggðar fyrir eldri borgara, sem samanstendur af leiguíbúðum og hjúkrunarrýmum. Þetta er að mínu mati algjört glapræði sem þjónar raunverulega engum nema fjárfestunum sem vilja að sjálfsögðu hámarka hagnað sinn með kaupum á þessu beitarlandi.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa markað sér sameiginlega stefnu um skipulag og uppbyggingu húsnæðis til ársins 2040. Þar eru skilgreind vaxtarmörk og öll uppbygging þéttbýlis á að eiga sér stað innan þeirra, enda er mikilvægt sjálfbærnimál að þétta byggðina inn á við. Þannig nýtum við betur núverandi grunnkerfi samgangna, veitna og almannaþjónustu. Samkvæmt fyrirliggjandi greiningum er gert ráð fyrir að vaxtarmörkin dugi vel fram yfir árið 2040. Bæjarstjóri hefur aftur á móti fullyrt að það blasi við að okkur muni ekki takast að uppfylla þörfina fyrir byggð innan vaxtarmarka höfuðborgarsvæðisins. Engar greiningar liggja þar að baki.

Fyrir utan skipulagslega óhagkvæmi þá er það eins og einhver hugmynd frá 1970 að búa til slíkt „elli-gettó“ fjarri annarri byggð. Það tekur um það bil tvær klukkustundir að ganga í næsta hverfi Kópavogs og engar almenningssamgöngur ganga þarna á milli. Það drægi því úr tækifærum fyrir samveru milli kynslóða, með tilheyrandi sálfélagslegum afleiðingum – en það er mikilvægt, bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu eldri borgara að einangra þá ekki frá restinni af samfélaginu með þessum hætti.

Þá þykir mér vægast sagt sérkennilegt að bæjarstjóri Kópavogs sitji fyrir á myndum og mæti í viðtöl með fjárfestunum á Gunnarshólma, sem eiga allt undir afgreiðslu bæjarstjórnar eftir hálfan mánuð. Það má velta fyrir sér hvort það sé hlutverk bæjarstjóra að ganga erinda fjárfesta með þessum hætti.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar