Eldhús Aðalþings í Kópavogi er fyrsta skólaeldhúsið á landinu sem er Svansvottað

Eldhús leikskólans Aðalþings í Kópavogi fékk núna í marsmánuði fyrst íslenskra skólaeldhúsa Svansvottun. Hörður Svavarsson leikskólastjóri, Agnes Gústafsdóttir aðstoðarleikskólastjóri og Heiðdís Hauksdóttir matreiðslumaður Aðalþings tóku við viðurkenningunni frá Ester Öldu Hrafnhildar Bragadóttur sérfræðings hjá Umhverfisstofnun að viðstöddum Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogsbæjar, starfsfólki Aðalþings og góðum gestum.

Í tilefni dagsins var opið hús og boðið upp á góðgæti úr eldhúsinu. Í Aðalþingi er matarstefna sem í felst að maturinn er sem mest unninn frá grunni, brauð bökuðu á staðnum og sykur ekki notaður í matreiðslu. Maturinn á að vera sanngjarn gagnvart framleiðendum, fólki, jörð og náttúru. „Gott eldhús og góður matur er forsenda fyrir góðu skólastarfi,“ segir í upplýsingabækling sem gefinn var út af tilefninu.

Aðalþing er rekið af kennurum samkvæmt þjónustusamning við Kópavogsbæ.

Svansmerkið er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem tekur til alls lífsferils vöru og þjónustu. Svansvottuð vara er betri fyrir umhverfið og heilsuna.

Heiðdís Hauksdóttir matreiðslumeistari í Aðalþingi og Sigurlaug Bjarnadóttir deildarstjóri á menntasviði Kópavogsbæjar hressar

Við móttöku vottunarinnar sagði Hörður Svavarsson skólastjóri að þessi Svansvottun sé ekki einungis merkileg vegna þess að þetta er fyrsta skólaeldhúsið sem við vitum um á norðurlöndum sem fær þessa vottun. ,,Heldur er hún líka mikilvægt varnarviðbragð til að tryggja gæði í mat fyrir börnin. Nú þegar gætir ákveðinnar tilhneigingar, ef ekki stefnu, hjá sumum sveitarfélögum að útvista eldhússtörfum og matnum og kaup aðfluttan verksmiðjuframleiddan mat fyrir börnin. Nú þegar krafa er um fríar skólamáltíðir er mikilvægt að það orsaki ekki niðurskurð í gæðum. Börn þurfa góðan og hollan mat,” sagði Hörður.

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri lét þess jafnframt getið að það væri sérlega ánægjulegt að fyrsta Svansvottaða skólaeldhúsið væri í Kópavogi og sagðist fullviss um að Aðalþing stæði áfram vörð um gæði í skólastarfinu, enda hefði samstarf Aðalþings og Kópavogsbæjar verið einstaklega farsælt.

Í Aðalþingi er matarstefna sem í felst að maturinn er sem mest unninn frá grunni, brauð bökuð á staðnum og sykur ekki notaður í matreiðslu

Meginmarkmið skólans er að í Aðalþingi fái barnið þá bestu umönnun og kennslu sem völ er á. ,,Það er margt sem við eigum öll sameiginlegt. Við leitum hamingjunnar saman og stillum okkur inn á að upplifa ævintýrið í hversdeginum. Til þess að geta það þarf að vera jafnvægi milli þeirra grunnþátta sem gera okkur að lífsglöðum manneskjum. Við öndum, sofum, borðum, hreyfum okkur, hugsum, rannsökum og sköpum. Matur getur aldrei verið aukaatriði í lífi okkar. Það er augljóst að gott eldhús og góður matur er forsenda fyrir góðu skólastarfi. Svansvottun er góð leið til að miðla umhverfisstarfi okkar og sendir samfélaginu skýr skilaboð um að skólinn vinni markvisst að því að draga úr umhverfisáhrifum í öllum lífsferli vörunnar. Svansmerkið er áreiðanleg vottun sem flestir Íslendingar þekkja,” segir Hörður.

Ekkert skólaeldhús á Íslandi hefur fengið Svansvottun fram að þessu eins og áður segir. Svansvottun er ítarlegt ferli þar sem sýna þarf fram á með haldbærum gögnum að birgjar, innkaup, ferlar og framleiðsla standist kröfur.
Það fer vel að matarstefnu, eiturefnaleysi, sjálfbærni og gæðastarfi Aðalþings að vinna að Svansvottun fyrir eldhúsið og matinn. Fyrir tveimur árum var ákveðið að hefja það verkefni og í síðustu viku fékk svo eldhús Aðalþings Svansvottunina.

Forsíðumynd: Hörður Svavarsson leikskólastjóri á Aðalþingi, Heiðdís Hauksdóttir matreiðslumaður Aðalþings, Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, Agnes Gústafsdóttir aðstoðarleikskólastjóri Aðalþings og Ester Alda Hrafnhildur Bragadóttir sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun er Svansvottunin var staðfest.

Í tilefni dagsins var opið hús í Aðalþingi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar