Ánægjuleg heimsókn frá Grænlandi

Hópur grænlenskra unglinga hefur undanfarnar tvær vikur dvalið á landinu og fengið sundkennslu í Salalaug í Kópavogi auk þess að kynnast íslensku samfélagi og íslenskum jafnöldrum í Linda- og Salaskóla.

Heimsóknin var skipulögð af KALAK, vinafélagi Grænlands og Íslands, í samvinnu við Kópavogsbæ, Hrókinn og fjölmörg fyrirtæki og einstaklinga. Þetta er í sautjánda sinn sem börn frá austurströnd Grænlands dvelja hér á landi og læra sund.

Yfirleitt hafa börnin verið 11 ára, en heimsóknir hafa fallið niður undanfarin ár vegna Covid-19 og því var hópurinn stærri vanalega, en alls voru það 24 börn þrettán ára börn sem dvöldu hér á landi. Börnin lærðu sund í Salalaug undir styrkri stjórn Tómasar Jónssonar og Haraldar Erlendssonar sundkennara. Börnin byrjuðu daginn á sundkennslu í Salalaug og tóku svo þátt í skólastarfi með jafnöldrum sínum í Linda- og Salaskóla. Eftir hádegi fóru þau svo aftur í sund.

Meðal skólaverkefna sem börnin tóku þátt í með íslenskum jafnöldrum sínum má nefna list- og verkgreinasmiðjur, útikennslu og tónmennt. Þrátt fyrir tungumálaörðugleika hefur allt samstarf gengið ljómandi vel. Fyrir sundkennara er það unun að fá að kenna þessum börnum því þau eru svo spennt og jákvæð að takast á við að læra nýja hluti og voru flest orðin vel synd í lokin.

Margir leggja sitt af mörkum

Margir leggja sitt af mörkum við að gera dvöl barnanna sem ánægjulegasta. Börnin fóru til að mynda í bíó, heimsóttu Húsdýragarðinn, skautahöllina, Alþingi og Bessastaði. Þá fengu þau handklæði frá Rúmfatalagernum. Þau fóru jafnframt á hestbak og ferð um Gullna hringinn svo fátt eitt sé nefnt.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar