Áfram hátíðarhöld í hverfum bæjarins á 17. júní

Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála hjá Kópavogsbæ segir að breytingar síðustu ára á 17. júní hátíðarhöldunum hafi mælst vel fyrir hjá bæjarbúum og því hafi Lista- og menningarráð ákveðið að vinna áfram með þá útfærslu.

Enginn afsláttur af gæðum hátíðarhaldanna

Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála hjá Kópavogsbæ segir að breytingar síðustu ára á 17. júní hátíðarhöldunum hafi mælst vel fyrir hjá bæjarbúum

,,Kópavogsbúar tóku fagnandi þeirri ákvörðun bæjaryfirvalda að halda 17. júní hátíðarhöldum til streitu síðastliðin tvö ár þrátt fyrir miklar takmarkanir og óvissu sem þá ríkti. Uppsetningin var mikil áskorun fyrir okkur sem að menningarmálum starfa en tókst með eindæmum vel,” segir Soffía.  „Breytingin fólst aðallega í því að dreifa fólki í stað þess að safna því saman á einn stað eins og gert var á Rútstúni. Þannig var hátíðinni dreift á fimm staði í bænum og úr varð skemmtileg hverfastemning sem bæjarbúar voru mjög hrifnir af. Breytingin kallaði á mikla endurskipulagningu og breyttar áherslur sem við höfum verið að endurmeta núna. Við viljum halda í gömlu góðu gildin sem fylgt hafa 17. júní, en um leið taka það besta með okkur sem hverfahátíðirnar kenndu okkur. Við gefum engan afslátt af gæðum hátíðarhaldanna í ár og hlökkum til að hitta bæjarbúa í öllum hverfum bæjarins í hátíðarskapi og byrjum að venju að morgni þjóðhátíðardagsins með 17. júní hlaupinu í Smáranum,“ segir hún.

Landslið skemmtikrafta um allan Kópavogsbæ

,,Við erum um þessar mundir að raða niður dagskrá í hverfin en búið er að staðfesta m.a. Reykjavíkurdætur, Hr. Hnetusmjör, Bríeti, Ávaxtakörfuna, Línu Langsokk, Regínu og Selmu, Dansskóla Birnu Björns, Evu Ruzu og Hjálmar, Húlla-Dúllu, Sævar Helga  og svo verður Guðrún Árný með sing-a-long,” segir Soffía og bætir við að allir skemmtikraftarnir komi fram á tveimur hátíðarsvæðum, nema Reykjavíkurdætur sem koma fram á fleiri sviðum í ár. Þá verði Skapandi sumarstörf með í hátíðarhöldunum við menningarhúsin að venju. Auk þess mun Skólahljómsveit Kópavogs leika á flestum stöðunum og leiða tvær skrúðgöngur í byrjun hátíðarhaldanna. Önnur skrúðgangan hefst við MK og leggur leið sína að garðinum við menningarhúsin þar sem öflug dagskrá fer fram undir stjórn Sævars Helga Bragasonar og hin leggur af stað frá Hörðuvallaskóla og gengur að hátíðarsvæðinu við Kórinn þar sem Leikhópurinn Lotta heldur utan um dagskrána en nánari dagskrá verði auglýst þegar nær dregur.

Lina Langsokkur mætir á 17. júní hátíðina í ár

Frítt í öll leiktæki

Ókeypis verður í öll leiktæki eins og undanfarin tvö ár en auk hoppukastala er börnum boðið upp á andlitsmálun, henna-tattú, hestateimingar, kassabílaakstur, fjölbreytta viðburði á vegum Vatnsdropaverkefnisins og fjölmargt fleira. „Það er virkilega ánægjulegt að Kópavogsbær hafi tekið þá ákvörðun að hafa frítt í öll tæki og afmá þannig þann aðstöðumun sem kann að skapast með gjaldtöku,“ segir Soffía og bætir við að þetta sé hátíð barnanna og þau eigi bara það besta skilið. 

Fjáröflun fyrir íþróttafélögin og skátana

„Annað gott sem hverfafyrirkomulagið hefur leitt af sér“, segir Soffía, „er ný fjáröflunarleið sem opnaðist fyrir íþróttafélögin í bænum. Þau hafa sett upp mjög metnaðarfulla sölubása á hátíðarsvæðunum og sett svip sinn á hátíðarhöldin. Í ár bætast svo skátarnir við og verða við menningarhúsin.“ 

Soffía segir að lokum að Kópavogur sé stór og öflugur bær og frábært að gera öllum bæjarbúum jafnhátt undir höfði með því að dreifa hátíðarhöldunum. Í dag geta bæjarbúar einfaldlega skemmt sér í sínu hverfi, rölt á hátíðarsvæðið heiman frá sér og það sé líklega ekki mikil eftirsjá í bílaöngþveitinu sem skapast þegar hátíðarhöldin séu á einum stað. 
 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar