Elva, Davíð og Tómas stóðu sig vel á Special Olympics

Fyrr í sumar fóru fram Special Olympics í Berlín og kepptu þrír iðkendur frá Gerplu fyrir hönd Íslands í áhaldafimleikum. Leikarnir stóðu yfir í tvær vikur með allskyns viðburðum sem þau tóku þátt í.
Fyrri helming ferðarinnar æfðu þau mikið úti og gerðu þrek og undirbúning fyrir mótið en seinni vikuna fengu þau aðstöðu inni í fimleikasal til að æfa sig.

Iðkendum er raðað í deildir á leikunum sem þau keppa síðan í til úrslita svo allir séu að keppa við sína jafningja í íþróttinni. Þau kepptu tvo daga samtals, fyrri daginn fór fram forkeppni sem gildir 25% af heildarstigum mótsins og seinni daginn var keppt til úrslita. ,,Við erum gífurlega stolt af þeirra árangri á mótinu og þau voru Gerplu og áhaldafimleikum á Íslandi til mikils sóma. Þau sýndu öll stórglæsilegar æfingar eins og sást á úrslitunum og jafnframt fengu þau góða upplifun og reynslu á stórmóti. Öll eru þau gríðarlega flottar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur í félaginu og íþróttinni,” segir Agnes Suto, markaðsstjóri Gerplu, en þjálfarar þeirra í ferðinni voru þær Eva Hrund Gunnarsdóttir og Lilja Árnadóttir.

Elva Björg Gunnarsdóttir keppti í Level 2 og vann sér inn silfur í fjölþraut. Hún fékk jafnframt silfurverðlaun á stökki og á slá og bronsverðlaun á tvíslá. Henni var raðað í erfiðustu deildina í sínu þrepi á slá og var því næst hæst á því áhaldi á mótinu.

Tómas Örn Rúnarsson keppti í Level 3. Það er erfiðasta þrepið á mótinu. Tómas lenti í þriðja sæti á bogahesti, stökki og svifrá. Hann var í fjórða sæti í fjölþraut, á gólfi, hringjum og svifrá.

Davíð Þór Torfason keppti í Level 2. Hann vann sér inn silfur í fjölþraut. Hann vann líka annað sæti á gólfi, bogahesti, hringjum og á stökki. Svo gerði hann sér lítið fyrir og vann gull fyrir æfingar á svifrá.
Agnes Suto fór sem fjölmiðlafulltrúi út á leikana fyrir hönd Gerplu og náði hún stórglæsilegum myndum og myndböndum af mótinu. Hægt er að skoða myndirnar á gerpla.smugmug.com/2023/Special -Olympics-2023-Berlin Annað efni eins og viðtöl og myndbönd má finna inná Instagram síðu Gerplu @ithrottafelagidgerpla

Iðkendur voru styrkt með keppnisfatnaði frá H verslun og fengu sérhannaðan keppnisfatnað frá þeim. Ferðin var jafnframt styrkt af fyrirtækjunum RJR/Sportvörur og Hirzlunni og þökkum við þeim fyrirtækjum kærlega fyrir stuðninginn! Einnig var ferðin styrkt af forráðamönnum okkar allra yngstu iðkenda, ungunum, í vetur sem greiddu frjáls framlög til styrktar ferðarinnar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar