Almar Guðmundsson, bæjarstjóri og sviðsstjórar Garðabæjar bjóða til samtals við íbúa í Urriðaholti, mánudaginn 4.september nk. Á fundunum verður farið yfir það sem efst er á baugi í hverfinu og framtíðarsýn hverfisins.
„Mér finnst afskaplega gott að eiga sjálfur og með bæjarskrifstofunni í góðu og reglulegu samtali við bæjarbúa. Það er margt sem við viljum ræða í Urriðaholti, fara yfir hvað er búið af framkvæmdum – sem er heilmikið – og svo auðvitað það sem er eftir. Svo er gott að fara yfir skólamálin, menningarmálin, fjölskyldumálin og auðvitað þjónustuna. Svo ræðum við auðvitað um Flóttamannaveginn,“ segir Almar og bætir við: „Þetta snýst auðvitað ekki bara um Urriðaholtið, það er gott og mikilvægt að eiga samtal um bæinn okkar sem heild og það eru allir velkomnir. Ég hlakka til að ræða við íbúana, heyra hvernig Vinagarður er að reynast, svara spurningum og heyra taktinn í okkar fólki.“
Fundurinn hefst klukkan 19:30 í skólanum og boðið verður upp á kaffisopa og léttar veitingar. Boðað verður til íbúafunda fyrir önnur hverfi Garðabæjar með haustinu.