Virðing og velferð í forvarnaviku

Í samstarfi íþrótta- og tómstundaráðs, leik-, grunn- og Tónlistarskóla Garðabæjar, ungmennaráðs, Fjölbrautaskólans í Garðabæ, Jónshúss og frjálsu félaganna í bænum er forvarnarvika Garðabæjar nú haldin í sjötta sinn.
Markmið forvarnarvikunnar er að vekja athygli á mikilvægum og fjölbreyttum þáttum í forvarnarstarfi ásamt því að virkja bæjarbúa til þátttöku.

Virðing og velferð

Eitt af leiðarljósum okkar í lífinu ætti ávallt að vera velferð og virðing fyrir okkur sjálfum sem og öðrum einstaklingum. Velferð og virðing skírskota meðal annars til þess að við gefum og meðtökum ást og umhyggju ásamt því að skapa aðstæður til að við sjálf og aðrir geta þroskast og dafnað enn frekar.

Fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir eru ein besta leiðin til að undirbúa einstaklinga til að takast á við þau mismunandi verkefni sem lífið hefur upp á að bjóða. Með slíkum aðgerðum getum við meðal annars unnið að uppbyggingu sjálfsmyndar, streitustjórnun, almennri heilsueflingu, virðingu og að taka tillit til annarra ásamt því að efla okkar eigin færni í mannlegum samskiptum. Allt eru þetta þættir sem dagskrá forvarnarvikunnar í ár er ætlað að vekja okkur til umhugsunar um eða aðstoða við að efla og styrkja.

Virkjum allt samfélagið

Forvarnarvikan hefur vaxið að umfangi með ári hverju. Verkefnið hófst í grunnskólum bæjarins en á öðru ári bættust leikskólarnir við. Ýmsar stofnanir í bænum, eldri borgarar, frjáls félög og ungmennaráð hafa á undanförnum árum einnig verið virkjuð til þátttöku með afar góðum árangri. Ég tel að sú þróun að virkja sem flesta með aðkomu að forvarnarvikunni hafi verið mikilvægt framfaraskref fyrir okkur öll hér í Garðabæ. Forvarnir varða alla bæjarbúa og verða þeim mun áhrifameiri ef allt samfélagið tekur höndum saman og vinnur að þeim sem ein heild.

Fjölbreytt dagskrá

Dagskrá forvarnarvikunnar í ár er fjölbreytt enda markmiðið að vekja alla bæjarbúa til umhugsunar um virðingu og velferð. Meðal annars má finna fjölmarga áhugaverða fyrirlestra sem og skapandi samverustundir fyrir nemendur sem fram fara í skólum og félagsmiðstöðvum bæjarins. Jafnframt verður haldinn foreldrafundur með fræðsluerindum þann 14. október kl. 20:00 í Sjálandsskóla en áhersla fundarins er að fræða foreldra um þær forvarnir sem unnið er að í Garðabæ.

Fjölbreytt dagskrá verður í Jónshúsi, félagsmiðstöð eldri borgara, en þar má finna bæði söngstund ásamt listasmiðju þar sem kynslóðir verða leiddar saman. Jafnframt má nefna að þær Ingibjörg og Guðbjörg frá Saga Story House munu mæta í Jónshús og halda fyrirlestur sem ber nafnið „Að næra delluna sína“ þriðjudaginn 19. október kl. 13:30.

Ráðstefnan „Stelpur skína“ verður haldin fimmtudaginn 14. október. en þar verða flutt ýmis erindi sem hafa það að markmiði að efla íþróttastúlkur í bænum enn frekar. Verkefnið er unnið í samstarfi ÍTG og frjálsu félaganna í bænum og er ætlað öllum íþróttastúlkum í 8., 9. og 10. bekk.

Hér hafa einungis verið nefnd nokkur dæmi um þá dagskrá sem verður í boði í vikunni. Vil ég hvetja alla til að kynna sér dagskrána vel en hana er að finna á heimasíðu bæjarins, gardabaer.is

Fyrir hönd íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar vil ég þakka sérstaklega þeim fjölmörgu aðilum sem hafa lagt sig fram við að undirbúa áhugaverða, fræðandi og skemmtilega dagskrá fyrir forvarnarvikuna okkar árið 2021.

Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar og formaður ÍTG

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar