Getum veitt okkur allt sem við viljum

Umhverfisviðurkenningar Garðabæjar fyrir árið 2021 voru veittar við hátíðlega athöfn í Sveinatungu í síðustu viku, en þar fengu hjónin Þóra Margrét Þorgeirsdóttir og Ögmundur Hrafn Magnússon viðurkenningu fyrir eftirtektarverðan árangur í flokkun og miðlun í þeim málaflokki.
Þetta er í fyrsta skipti sem slík viðurkenning er veitt á umhverfishátíð Garðabæjar, en í desember í fyrra samþykkti bæjarstjórn að fela Umhverfisnefnd Garðabæjar að útfæra leiðir til að innleiða fjárhagslega hvata fyrir íbúar Garðabæjar sem stuðla að betri flokkun og úrgangsstjórnun í sveitarfélaginu. Jafnframt að viðurkenningum fyrir góðan og eftirtektarverðan árangur sem tengjast flokkun og betri úrgangsstjórnun yrði hluti af árlegum umhverfisviðurkenningum Garðabæjar.

Ekki hægt að varpa ábyrgðinni eingöngu á stjórnvöld

Þóra Margrét og Ögmundur Hrafn búa á Álftanesi og eiga þrjú börn fædd 2008, 2013 og 2014. Garðapósturinn spurði Þóru hvernig það hafi komið til að fjölskyldan ákvað að byrja flokka sorp og hvernig gekk þetta í upphafi? ,,Á þessum tíma rann upp fyrir okkur að við sem neytendur værum hluti af loftslagsvandamálinu og það væri ekki hægt að varpa ábyrgð-inni eingöngu á stjórnvöld heldur þyrftu allir að leggja hönd á plóg; stjórnvöld, fyrirtæki eða einstaklingar. Við fórum þess vegna að skoða hvað við sem fimm manna fjölskylda gætum gert til að vera hluti af lausninni. Við sáum að það var ýmislegt eins og að borða minna af dýraafurðum, fljúga minna og flokka betur. En svo var það ákveðin hugljómun þegar við áttuðum okkur á því að betri flokkun væri í raun bara plástur á umhverfissárið; við þyrftum ekki síður að einblína á rót vandans og minnka það sorp sem félli til yfir höfuð. Við byrjuðum á nokkrum einföldum breyting-um og þegar þær gengu vel og báru árangur fundum við að við vildum og gátum gert betur, þannig að fleiri breytingar til að minnka sorpið fylgdu í kjölfarið smám saman,” segir Þóra.

Endurskoðuðu innkaupahegðun sína

Þið ákváðuð síðan í Meistaramánuðinum í febrúar 2017 að taka skrefið lenga og byrjið markvisst að reyna að taka meiri ábyrgð á ykkar eigin neyslu. Með hvað hætti og hvað þýddi þetta í raun fyrir fjölskylduna? ,,Í raun fólst þetta í að endurskoða innkaupahegðun okkar; við fórum að kaupa minna og kaupa vistvænt. Það er hægt að gera ótal margt í þessu sambandi og það er tiltölulega einfalt og áreynslulaust ef maður tekur nokkrar breytingar fyrir í einu. Skrefin fimm í þeim sorplausa lífsstíl (Zero Waste) sem Bea Johnson hefur boðað hafa reynst okkur sérlega gagnleg í þessum efnum;

AFÞAKKA – það sem við þurfum ekki.
DRAGA ÚR – því sem við þurfum.
ENDURNÝTA – þá hluti sem við þurfum.
ENDURVINNA
JARÐGERA

Fyrstu þrjú skrefin snúa að því að takmarka úrgangsmyndun á meðan skref 4 og 5 taka á meðhöndlun þess úrgangs sem myndast. Ef þessum fimm skrefum er fylgt eftir til hins ýtrasta, þá ætti niðurstaðan að verða sjálfkrafa: Ekkert sorp! Auðvitað er ekki hægt að lifa án þess að búa til nokkurt sorp, framleiðsluaðferðir nútímans koma í veg fyrir það. En sorplaus lífsstíll gefur manni magnbundið viðmið eða einhvers konar gulrót sem maður vill komast eins nálægt og mögulegt er,” segir hún og heldur áfram með hvað þessar breytingar þýddu fyrir fjölskylduna.

Fengu viðurkenningu frá Garðabæ! F.v. Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, Ögmundur Hrafn Magnússon, Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar Garðabæjar, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ ásamt börnum Þóru og Ögmundar.

Afgangurinn af jólamatnum nærir rósirnar

,,Við byrjuðum til dæmis að hætta að kaupa allt óþarfa dót og drasl auk þess sem við fórum í auknum mæli að kaupa notaða hluti eða fá þá lánaða eða leigða. Við fórum að nota meira af fjölnota boxum fyrir geymslu og innkaup á matvælum, en hættum að nota einnota plastpoka, álpappír og plastfilmur. Við hættum að nota eldhúsrúllur en gripum þess í stað til gömlu góðu tuskuna. Við fórum að kaupa umbúðalaus hreinsefni og bara almennt að velja okkur frá vörum sem voru í miklum umbúðum og/eða voru úr óvistvænum efnum. Við fórum að huga betur að matarsóun, nota fjölnota bleiur í stað einnota. Við fórum líka að flokka lífrænan úrgang úr almenna sorpinu og notum nú sem moltu í garðinum okkar; það er mjög gaman að hugsa til þess að afgangurinn af jólamatnum næri nú rósirnar sem við gróðursettum í vor. Svo reynum við markvisst að takmarka dótið í geymslunni með því að gæta þess að gefa eða selja þá hluti sem við erum hætt að nota; koma þeim í hringrásarhagkerfið í stað þess að láta hlutina liggja ónotaða heima hjá okkur engum til gagns.”

Breytingarnar urðu ekki til á einni nóttu

,,Við gerðum þessar breytingar ekki á einni nóttu, þá hefðum við gefist strax upp, heldur tókum við fyrir 3-5 breytingar í einu og þegar þær voru komnar í gegn þá fórum við að skoða hvað við gætum tekið fyrir næst. Þetta varð aldrei nein kvöð eða einhvers konar heilaþvottur innan fjölskyldunnar, heldur jókst áhuginn stöðugt eftir því sem árangurinn kom fram. Þetta varð í raun bara skemmtilegt fjölskylduáhugamál eða leikur, sem allir vildu taka þátt í. Fyrir utan það að sorpið minnkaði þá fækkaði óþarfa dóti innan heimilisins, óreiðan varð minni og pyngjan þyngdist.
Þetta hefur líka leitt til þess að við erum orðin meðvitaðri um aðrar lausnir sem við getum unnið með í þágu umhverfisins. Við höfum til dæmis minnkað neyslu á dýraafurðum, valið vistvænni samgöngukosti, plokkað og fækkað flugferðum.”

Ekki flókið í framkvæmd

Og var þetta ekkert flókið í framkvæmd og sérstaklega þar sem þið eigið þrjú ung börn? ,,Nei, þetta var ekki flókið vegna þess að við tók-um bara fyrir 3-5 breytingarnar í einu – og eingöngu þær sem við vorum tilbúin að fara út í hverju sinni og þegar við vorum

búin að finna nýjar lausnir sem við vorum sátt við. Það tók mig til dæmis smá tíma að vilja losa mig við Nespresso-kaffihylkjavélina; mér fannst einhvern veginn nauðsynlegt að geta fengið mér gott kaffi með lítilli fyrirhöfn. Ég var ekki tilbúin að kveðja þann mikla úrgangsmyndunargrip fyrr en mér áskotnaðist notuð Jura-kaffivél sem gat malað umbúðalausar baunir og tryggt mér gott kaffi í bollann á jafnskömmum tíma og Nespresso-vélin. Það má kannski segja að helsta vesenið felist í að finna nýjar vistvænar lausnir í stað fyrri innkaupa sem maður er sáttur við; en það má líka líta á það sem spennandi rannsóknarvinnu. Í því skiptir líka miklu máli að heyra hvað aðrir hafa gert í sömu sporum. Reynslusögur annarra í sömu sporum hjálpuðu mér til dæmis að finna fljótt umbúðalausa sápu sem ég var ánægð með. Börnin hafa verið til í þetta verkefni frá upphafi; þau skilja tilganginn og árangurinn, þannig að við höfum alls ekki þurft að snúa mikið upp á hendurnar á þeim.”

Það þarf að byrja framar í ferlinu

Og þið létuð ekki staðar numið þarna því þetta snérist ekki eingöngu um að flokka, held-ur miklu frekar að minnka allt heimilisþorp með því að breyta kaup- og neytenda-hegðun ykkar? ,,Flokkun og endurvinnsla eru að sjálfsögðu mikilvægir þættir í okkar samfélagi en staðan er því miður þannig að þeir geta ekki talist vera aðallausnin við sorpvanda okkar tíma. Til dæmis er endurvinnsla orkufrek, verðmæti og gæði hluta tapast oft við ferlið auk þess sem reglur og merkingar um endurvinnslu hluta eru oft óljósar. Það þarf að byrja framar í ferlinu og minnka allt heimilissorp (bæði endurvinnanlegt og það sem fer í urðun), og þá einkum með minni neyslu.”

Getum veitt okkur allt sem við viljum

En eruð þið þá að leyfa ykkur miklu minna en þið gerðuð áður? ,,Við erum svo heppin að geta í raun leyft okkur allt sem við viljum, en það sem hefur breyst á þessu ferðalagi eru í raun langanir okkar; okkur langar ekki lengur í það sama og áður. Hér áður voru langanir okkar komnar svo langt umfram grunnþarfir okkar en með þessu verkefni hafa þessir þættir færst aðeins nær hvorum öðrum,” segir hún og bætir við: ,,Okkur langar til dæmis ekki lengur að eiga nýjustu húsgagnatískuna eða versla ný föt í hverjum mánuði. Mér finnst miklu eftirsóknarverðara að kaupa notuð húsgögn og föt – og það þá eftir þörfum. Nú ef við getum ekki fundið notuð föt og húsgögn, þá kaupum við þau að sjálfsögðu ný – en reynum þá að velja vistvænar lausnir, til dæmis vörur sem umhverfisvottaðar, framleiddar í Evrópu, úr endurunnu efni eða eitthvað þess háttar.
Stundum kemur það fyrir að maður ætlaði að kaupa einhvern hlut, segjum rauð epli, en þau eru bara til í plastumbúðum í búðinni. Þá kaupum við eitthvað annað í minni eða engum umbúðum sem uppfyllir sömu þörf og getur komið í staðinn. Þá er þetta ekki spurning um að ég hafi ekki leyft mér að kaupa þessi rauðu epli, ég hef bara engan áhuga á að kaupa þau í plastumbúðum þegar ég hef annan valkost sem ég er ánægð með.”

Þóra og fjölskylda flokka lífrænan úrgang úr almenna sorpinu og þau nota það sem moltu í garðinum

Reynum alltaf að gera okkar besta

,,En svo eru auðvitað ýmsar matvörur sem eru í leiðinda umbúðum og við leyfum okkur að kaupa því við höfum ekki fundið neitt annað í staðinn sem við erum ánægð með, eins og til dæmis drykki, morgunkorn, sælgæti, brauðmeti og þess háttar. En þá reynum við að velja vistvæna valkosti ef mögulegt er, eins og plöntumjólk, mjólk sem er án plasttappa, gos í dósum, Svansvottaðan salernispappír o.s.frv. En það gengur ekki alltaf upp og þá er það bara þannig; við miss-um engan svefn yfir því, við reynum bara alltaf að gera okkar besta eftir aðstæðum.”

Reynum að vera hluti af lausn loftslagsvandans

Hver er svo tilgangurinn og markmiðið með þessu öllu? ,,Tilgangurinn er fyrst og fremst að reyna að vera hluti af lausn loftslagsvandans, fremur en að vera hluti af honum. En annar ávinningur af þessu ferðalagi er líka mjög hvetjandi, eins og einfaldara líf sem fylgir færri innkaupaferðum og minni óreiðu á heimilinu, þyngri budda og vellíðan sem fylgir því að leggja sitt af mörkum til umhverfismála með ábyrgri neyslu.”

Vel þekktur höfuðverkur

Og er fjölskyldan mjög samtaka í þessu – hvernig hefur þetta gengið og er þetta ekkert flókið í framkvæmd og smá vesen eða er þetta fljótt að komast upp í vana? ,,Fjölskyldan hefur verið frekar samtaka í þessu og án þess að það hafi verið of flókið í framkvæmd, því við höfum tekið breytingarnar inn smám saman og þær verða að vana með stuttum tíma. Það væri mjög flókið og erfitt að ætla að gera þetta á einni nóttu og maður myndi bara gefast upp. En auðvitað hafa komið aðstæður þar sem við hjónin erum kannski ósammála um breytingar og lausnir. Þetta er vel þekktur höfuðverkur sem myndast þegar sumt heimilisfólk vill ganga lengra eða skemur en aðrir á heimilinu varðandi flokkun og minni sóun. Mér finnst ágætt að vita að þetta sé raun eðlilegur vandi sem önnur heimili eru að glíma við og þá er um að gera að ræða það með gagnkvæmri virðingu. Ögmundi finnst til dæmis notkun á sjampóstykki vera skerðing á lífsgæðum sínum; hann vill nota sjampó í vökvaformi. Það er í góðu lagi, þá kaupum við sjampó í brúsum úti í búð og í áfyllingu þegar við höfum tækifæri til.”

Minnka útgjöld um 30% og buddan þyngist

En hvað þýðir þetta fjárhagslega, er mikill sparnaður í þessu þegar búið er að taka út öll óþarfa kaup og hlutirnir endurnýttir – meira í buddunni? ,,Já, það skilar sér klárlega í budduna þegar maður kaupir minna af dóti og verslar meira notað en áður. Við höfum reyndar ekki tekið þetta saman í nákvæmum tölum fyrir okkar heimili, en sumir segjast hafa náð að minnka útgjöld um 30% með þessum hætti.

Úr 36 kílóum í urðun á hverjum mánuði í 140 grömm

Hvað með sorptunnuna sjálfa, hafið þið getað mælt í kílóum hversu miklu minni sorpi þið kastið á hverju ári? ,,Já, þetta varð svo mikið áhugamál hjá mér á tímabili að ég vigtaði mánaðarlega allt sorp sem féll til á heimilinu 2017-2019. Fyrir breytingarnar fóru um 36 kíló af sorpi frá okkur í urðun í hverjum mánuði, en við höfum náð þeim úrgangsflokki niður í 140 grömm á mánuði. Aðrir flokkar eins og plast og pappír hafa líka minnkað töluvert.”

Myndi hafa jákvæð áhrif á flokkun

Það er svakalegur munur. Væri ekki sanngjarnt að Garðabær leggði sitt að mörkum og lækka sorphirðugjaldið á þá íbúa sem sýna markvissan árangur að flokka og minnka heimilissorp? ,,Já, það væri vissulega sanngjarnt og eðlilegt. Slíkur fjárhagslegur hvati myndi líka án efa hafa áhrif á sorpmálin þróist í jákvæða átt með bættri flokkun og minna sorpi.”

Væri gaman að geta vigtað sorpið

Og hvað ber svo framtíðin í skauti sér, getið þið gert enn betur og er það mark-miðið? ,,Við höldum að sjálfsögðu áfram á sömu braut í okkar lærdómsferli við að minnka sorpið og reyna hvað við getum að lifa vistvænni lífsstíl en áður; við höfum enga löngun til að fara aftur í gamla farið.
Það væri samt gaman að geta tekið aftur upp á að vigta sorpið með reglubundnum hætti og blogga um stöðugan lærdóm okkar í þessum efnum á síðunni okkar minnasorp.com; þessir tveir þættir hafa legið í dvala hjá okkur um nokkurt skeið vegna anna. það er aldrei að vita nema við tökum upp þá þræði í nánustu framtíð.”

Þetta er alls ekki eins flókið og margur heldur

Og hvað viljið þið segja við Garðbæinga, einhver hvatning að byrja að flokka sorp og bæta úrgangsstjórnun? ,,Það er um að gera að byrja að flokka sorpið og reyna sitt besta við að draga úr því með breyttri neyslu. Þarna getum við sem einstaklingar lagt okkar á vogarskálarnar í baráttunni gegn hamfarahlýnuninni. Það er alls ekki eins flókið margur heldur, sérstaklega ef bara er unnið með um 3-5 breytingar í einu. Fyrsta skrefið er að vera meðvitaður um að það geta allir gert eitthvað og borið meiri ábyrgð á eigin neyslu. Mér finnst líka alltaf gott að hafa i huga að hver einustu innkaup skipta máli; mikið magn af orku og hráefni hafa farið í að búa til hvern einasta hlut – og svo er hitt að allt það sem maður ber inn á heimilið verður að úrgangi fyrr en síðar – og úrgangurinn gufar ekki bara upp, þótt við sjáum hann ekki lengur þegar búið er að tæma tunnurnar okkar. Þegar maður hugsar um allan líftíma hvers hlutar, frá vöggu til grafar, þá breytist viðhorf manns fljótt og það verður auðveldar að breyta innkaupahegðuninni. Það er líka mjög hjálplegt og hvetjandi að læra af öðrum og deila reynslu sinni með vinum og ættingjum og fylgjast með umræðum á samfélagsmiðlum; til dæmis á Facebook-hópnum “Áhugahópur um endurvinnslu og endurnýtingu.”

Nánari upplýsingar á minnasorp.com

Og ef bæjarbúar hafa áhuga að kynna sér þetta frekar þá heldur þú úti heimasíðunni, minnasorp.is, þar sem hægt er að fá ýmsar upplýsingar um flokkun auk þess sem hægt er að fylgjast með hvað fjölskyldan ykkar er að gera? ,,Já, það er hægt að finna ýmsar upplýsingar um þetta sorpferðalag okkar á minnasorp. com og á Facebook-síðunni “Minna sorp; lærdómsferli fjölskyldu”. Við höfum ekki náð að setja færslur þar inn nýlega en efnið sem er þar inni nú þegar lifir góðu lífi. Okkur þykir gríðarlega vænt um að hafa verið meðal þeirra sem fengu umhverfisviðurkenningu Garðabæjar; hún mun eflaust hvetja okkur til að taka aftur upp blogg-þráðinn í nánustu framtíð,” segir hún og bætir við: ,,Fyrir þá sem vilja kynnast þessum lífsstíl enn betur þá mæli ég með bókinni ,,Engin sóun; leiðarvísir að einfaldara, sorplausu heimili” eftir Zero waste drottninguna Bea Johnson. Annars er að finna á minnasorp.com nettan lista yfir 40 skref til minna sorps, sem gæti kannski komið að góðum notum fyrir marga. Eins eru þar 30 vistvæn jólaráð, sem er ekki vitlaust að renna í gegnum nú þegar jólamánuðurinn fer að nálgast með allri sinni neyslu. Við sendum að sjálfsögðu góðar óskir um að okkur öllum gangi sem allra best á sorplausu vegferðinni,” segir Þóra brosandi að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar