Árangur fræðslustarfsins mikill og góður í ELKO – Menntafyrirtæki ársins 2024

ELKO er Menntafyrirtæki ársins 2024, en menntaverðlaun atvinnulífsins eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Verðlaunin voru veitt á Menntadegi atvinnulífsins, þann 14. febrúar sl. og var það Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem afhenti forsvarsmönnum ELKO verðlaunin í Hörpu.
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Ný stefna mörkuð árið 2019 með Fræðslupakka ELKO

ELKO kom með krafti inn á íslenskan raftækjamarkað árið 1998 og er í dag ein stærsta raftækjaverslun landsins með þrjár verslanir á höfuðborgarsvæðinu og er sú stærsta í Lindum í Kópavogi, ein er á Akureyri, tvær verslanir á Keflavíkurflugvelli ásamt því að vera með vefverslun. Þá er eignarhaldsfélag ELKO, Festi með höfuðstöðvar á Dalvegi Kópavogi. Árið 2019 var mörkuð ný stefna hjá fyrirtækinu þar sem framtíðarsýnin var ánægðustu viðskiptavinirnir og því til stuðnings var lögð enn meiri áhersla á fræðslu og þjálfun og ánægju starfsfólks.
Í tilnefningu ELKO koma fram greinargóðar upplýsingar um fræðslustarfið og þau fjölmörgu námskeið og menntaleiðir sem bjóðast starfsfólki í svokölluðum Fræðslupakka ELKO. ,,ELKO uppfyllir öll viðmið menntaverðlauna atvinnulífsins með skipulagðri og markvissri fræðslu innan fyrirtækisins þar sem þátttaka starfsfólks er góð enda hvatning til frekari þekkingaröflunar til staðar. ELKO sýnir með fræðsluáætlun, skýrum mælikvörðum og mælingum að árangur fræðslustarfsins er mikill og góður. Ljóst er að stefnumiðuð og markviss vinna í fræðslumálum starfsfólks hefur lagt grunn að mjög góðum árangri í þeirri vegferð fyrirtækisins að auka ánægju starfsfólks og fylgja stefnunni eftir um ánægðustu viðskiptavinina. Þá er eftirtektarvert að fyrirtækið hefur einnig stutt við viðskiptavini sína og sitt ytra umhverfi þegar kemur að menntun og fræðslu, til dæmis með foreldrafræðslu um rafíþróttir og leikjaspilun barna,” segir í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.

Óttar Örn Sigurbergsson framkvæmdastjóri ELKO fyrir miðju ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands, starfsfólki ELKO og forstöðufólki Samtaka atvinnulífsins

Kópavogspósturinn heyrði hljóðið í Óttari Erni Sigurbergssyni framkvæmdastjóra ELKO hvort félagið sé ekki stolt af þessum verðlaunum? ,,Við erum öll hrikalega stolt að fá þessa viðurkenningu. Þetta segir okkur það að við erum á réttri leið með okkar fræðslumál. Við erum hinsvegar alls ekki hætt og erum með gríðarmörg verkefni sem við erum að vinna áfram til framtíðar,” segir hann.

Ný stefna sem hugsuð út frá viðskiptavinum með framtíðarsýnina að eiga ánægðustu viðskiptavinina

En hvernig kom það til að farið var í þessa vegferð árið 2019 þar sem markmiðið var ánægðustu viðskiptavinirnir og að efla og auka fræðslu, þjálfun og ánægju starfsfólks ELKO? ,,Við sáum það að vinningsformúla síðustu ára myndi ekki henta í þeirri alþjóðavæðingu sem var í gangi með minni aðgangshindrunum inn á markaðinn. ELKO hafði hingað til verið vörumiðað fyrirtæki og var þörf á algerri endurnýjun. Sett var ný stefna sem var viðskiptavinamiðuð með framtíðarsýnina að eiga ánægðustu viðskiptavinina. Skilgreindur var aðgerðarlisti og tímasett verkefni hvernig við myndum ná því til framtíðar. ELKO er ennþá að vinna að innleiðingu á stefnunni og var einn mikilvægur liður í því að auka fræðslu, þjálfun og ánægju starfsfólks.”

Allar mælingar hjálpa okkur í að verða betri

Og hvernig metið þið árangurinn af þessari aukinni fræðslu og þjálfun starfsfólksins, hverju skilar það sér og finna viðskiptavinir fyrir því? ,,Við mælum árangurinn í mánaðarlegum ánægjumælingum starfsfólks, daglegum ánægjumælingum viðskiptavina sem og niðurstöðum úr þarfagreiningu fræðslumála sem send er reglulega á okkar starfsfólk. Allar þessar mælingar hjálpa okkur í að verða betri að taka ákvarðanir til að elta framtíðarsýn okkar að eiga ánægðustu viðskiptavinina. Ef við gerum hlutina rétt þá eiga viðskiptavinir okkar að líta á okkur sem trausta ráðgjafa og trúa því og treysta að okkar ráðgjöf sé sú rétta,” segir Óttar Örn.

Því sjálfsöruggara starfsfólk sem við höfum, því ánægðara er það og þar af leiðandi viðskiptavinir líka

Og hvernig finnst ykkur upplifun viðskiptavina hafa verið frá því þið tókuð upp Fræðslupakka ELKO – finnið þið fyrir aukinni ánægju viðskiptavina með þjónustuna og verslunina sjálfa? ,,Allir liðir innan fræðslupakkans í ELKO hafa verið til staðar í einu formi eða öðru. Þannig fræðslan og starfsþróunin hefur verið til staðar en hlutverk fræðslupakkans var að setja þetta fram á einfaldan máta í einum pakka gagnvart okkar starfsfólki. Síðan hann fór í loftið, fyrir aðeins um hálfu ári, þá hafa augu starfsfólks opnast yfir því hvað er í boði. Við eigum nú eftir að sjá mælingar í þjónustukönnunum hve vel þetta hefur heppnast en með grófu stjórnendalegu mati þá finnum við aukna ánægju hjá viðskiptavinum. Því sjálfsöruggara starfsfólk sem við höfum, því ánægðara er það og þar af leiðandi viðskiptavinir líka.”

Óttar segir að því sjálfsöruggara sem starfsfólkið er því ánægðara er það og þar af leiðandi viðskiptavinir líka

Leggja áherslu á heilbrigða nálgun fjölskylda á tölvuleikjaspilun

Þið hafið einnig, sem er í sjálfu sér nokkuð óvenjulegt, stutt við viðskiptavini og ykkar ytra umhverfi þegar kemur að menntun og fræðslu með t.d. foreldrafræðslu um rafíþróttir og leikjaspilun barna – með hvaða hætti hafið þið gert það og hver er tilgangurinn? ,, Í dag höfum við lagt áherslu á heilbrigða nálgun fjölskylda á tölvuleikjaspilun og haldið mót í samstarfi við Arena þar sem öll fjölskyldan tekur þátt. Einnig höfum við gefið út bækling um tölvuleikjaspilun fyrir foreldra og boðið upp á fræðslu með sérfræðingum í samskiptum fjölskylda tengt tölvuleikjum. Viðbrögðin hafa verið frábær og ætlum við að halda áfram á þessari vegferð. Við höfum rétt byrjað að snerta á fræðslu út á við gagnvart viðskiptavinum og ytra umhverfi og eru við með stór verkefni á teikniborðinu um að ganga ennþá lengra, fyrir fleiri hópa og með fleiri vöruflokka. Það styður beint við tilgang ELKO sem er “með ótrúlegri tækni hjálpum við öllum að gera lífið betra, þægilegra og ánægjulegra.”

Verslun ELKO í Lindum fær nýtt útlit á árinu

Hvernig er svo annars raftækjamarkaðurinn í dag? ,,Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast. Það koma nýjar vörur daglega og er líftími vara á lager hjá okkur alla jafna ekki lengri en 12 mánuði. Nú er gervigreindin t.d. að gjörbylta notkun símtækja þar sem almenningur er kominn með sértækan ráðgjafa í vasann sem hægt er að tala við og fá úrlausnir sinna áskoranna. Ég er viss um að þetta verði næsta stökk snjalltækja til framtíðar sem og gjörbylting á atvinnumarkaði. Við þurfum ávallt að fylgjast vel með og vera á tánum þegar það kemur að vörunýjungum.”

Það er greinilega mikill metnaður hjá stjórnendum og starfsfólki ELKO, hvað er svo framundan og stefnið þið á að bæta ykkur enn frekar? ,,Við erum með fjölmörg verkefni í gangi sem fara í framkvæmd á næstunni og næstu ár. Á þessu ári munum við endurnýja verslun okkar í Lindum í algjörlega nýtt útlit með stafrænum skjálausnum, með nýjum inngangi og betrumbættri þjónustu. Þetta er eitt stærsta verkefni sem við höfum farið í síðustu ár og mun verslunin gjörbreytast og þjónustuþættir batna. Það er því margt í gangi” segir Óttar að lokum.

Forsíðumynd! „Með ótrúlegri tækni hjálpar ELKO öllum að gera lífið betra, þægilegra og ánægjulegra,” segir Óttar Örn.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar