Verkefnið Við langeldinn / Við eldhúsborðið hlýtur styrk úr Barnamenningarsjóði

Þann 28. maí tók menningarfulltrúi Garðabæjar, Ólöf Breiðfjörð, við styrk úr Barnamenningarsjóði en verkefnið Við langeldinn / Við eldhúsborðið hlaut fjórar milljónir króna úr sjóðnum. Það voru þær Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sem tilkynntu um úthlutunina í Hörpu en alls fengu 37 verkefni styrk en alls bárust 113 umsóknir. Sjóðurinn var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands og er ætlað að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virkja þátttöku barna í menningarlífi.

Hópurinn sem tók við styrk úr Barnamenningarsjóði í Hörpu

Hlakka til að sjá Garðabæ blómstra með börnum og fjölskyldum

Verkefnið Við langeldinn / Við eldhúsborðið hverfist um smiðjur fyrir börn og fjölskyldur þeirra þar sem útgangspunkturinn er hvað er líkt og hvað er ólíkt með lífi barna í samtímanum og á landnámsöld. Smiðjur munu fara fram tvisvar sinnum í mánuði á tímabilinu september 2021 – desember 2022 á Hönnunarsafni Íslands og á Bókasafni Garðabæjar. Ólöf Breiðfjörð var tekin tali og spurð út í verkefnið og hvaða þýðingu styrkveitingin hefur.
„Ég er mjög þakklát stjórn Barnamenningarsjóðs sem veitti okkur 4 milljónir til að framkvæma smiðjur sem gera okkur kleift að víkka sjóndeildarhring barna og auka skilning á ólíkum aðstæðum óháð tíma og rúmi. Sérstaða Garðabæjar hvað varðar menningu er annarsvegar Hönnunarsafn Íslands og hinsvegar Minjagarðurinn að Hofsstöðum en það er einmitt það sem mér fannst spennandi þegar ég sótti um starf menningarfulltrúa en nú er einmitt ár síðan ég hóf störf hjá Garðabæ. Ég er himinlifandi að geta nú fengið til liðs við okkur fagfólk sem gerir það að verkum að börn fá tækifæri til að velta fyrir sér lífinu á landnámsöld út frá fornleifafræði, arkitektúr, bókmenntum, myndlist og handverki,“ segir Ólöf Breiðfjörð sem fagnar ekki aðeins styrkveitingunni heldur einnig, eins og áður segir að nú er ár frá því hún hóf störf sem menningarfulltrúi Garðabæjar.
„Ég er ótrúlega spennt fyrir þessu frábæra verkefni og hlakka til að sjá Garðabæ blómstra með börnum og fjölskyldum,“ segir Ólöf.

Á forsíðumynd er: Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi, Þóra Sigurbjörnsdóttir sérfræðingur á Hönnunarsafni Íslands og Margrét Sigurgeirsdóttir forstöðumaður Bóksafns Garðabæjar ásamt Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar