75 umsóknir bárust í 20 hesthúsalóðir

Meira en 300% umframeftirspurn eftir heshústalóðum á Kjóavöllum

Það var gríðarlegur mikill áhugi á 20 hesthúsalóðum sem Garðabær auglýsti lausar til úthlutunar á Kjóavöllum, en umsóknarfrestur til að sækja um lóð rann út 11. maí sl. Alls bárust 75 umsóknir í þessar 20 lóðir og bak við þær voru rúmlega 50 aðilar. Því má segja að umframeftirspurnin hafi verið nærri 300%.

Sigurður Guðmundsson, formaður skipulagsnefndar Garðabæjar

85 ný hesthús og 1600 hross

Garðabær og Kópavogsbær hafa sameiginlega staðið að gerð deiliskipulags fyrir hesthúsahverfi og íþróttaleikvang að Kjóavöllum sem var samþykkt og staðfest árið 2008. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að innan bæjarmarka Garðabæjar muni rísa 85 ný hesthús með að hámarki 1600 hross sem byggjast upp á næstu árum. Fyrir eru 23 hesthús í Andvarahverfi.

Meiri en við þorðum að vona

Garðapósturinn spurði Sigurð Guðmundsson, formann skipulagsnefndar Garðabæjar hvort þessi mikla eftirspurn hafi komið honum á óvart? ,,Það er mjög jákvætt hve margir hafa óskað eftir lóð þarna undir hesthús og þetta er meira en við þorðum að vona. Það þarf ekki endilega að koma á óvart hve margir eru áhugasamir þar sem um afbragðssvæði er að ræða, við eitt glæsilegasta hestahúsahverfi landsins, með fallegu útsýni yfir skeifu reiðvallarins og upp í Heiðmörk með mörgum góðum reiðleiðum og öflugt bakland í Hestamannafélaginu Spretti,” segir Sigurður.

Áform um að fjölga lóðum

Það bárust 75 umsóknir í þessar 20 lóðir. Hvaða reglur gilda varðandi úthlutun á þessum 20 lóðum sérstaklega miðað við þessa miklu eftirspurn? ,,Við höfum áform um að fjölga lóðum til úthlutunar þannig að vonandi næst að mæta þeirri eftirspurn sem til staðar er. Skipulagið er tilbúið og við þurfum bara að ráðast í frekari gatnagerð en upphaflega var ætlað.“

Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir 85 nýjum hesthúsalóðum í heildina á Kjóavöllum. Kemur til greina að flýta ferlinu og úthluta fleiri lóðum í þessum áfanga vegna mikils áhuga á lóðunum þessa stundina? ,,Já, það er það sem við erum að skoða núna og ég á von á því að hægt verði að bjóða öllum þeim sem sótt hafa um lóð á besta stað í Rjúpnahlíðarhverfi sem er á milli Andvarahverfisins og Heimsendahverfis í Kópavogi.“

Leysum þetta í góðri samvinnu við umsækjendur

Verða þá lóðirnar auglýstar að nýju eða verður þeim aðilum boðið að velja sér lóð sem sóttu um eða verður þeim boðin ákveðin lóð í hverfinu? ,,Við erum að skoða það með hvaða hætti við getum brugðist við þessari miklu eftirspurn. Vonandi geta umsóknirnar bara staðið og við munum leysa þetta í góðri samvinnu við umsækjendur.“

Gætu verið síðustu hesthúsalóðirnar

Eru þetta síðustu hesthúsalóðirnar sem verða boðnar út á Kjóavöllum eða er gert ráð fyrir frekari hesthúsabyggð á svæðinu? ,,Ekki liggja fyrir frekari skipulagsáform um fjölgun hesthúsa í hverfinu og því er þetta að lokaáfangi á uppbyggingu hesthúsabyggðarinnar á Kjóavöllum. Samkvæmt deiliskipulagi eru síðan um 14 lóðir lausar í gamla Andvarahverfinu,“ segir Sigurður

Tilkynnt um úthlutun fyrir lok júlí

Sigurður segir að stefnt sé á að tilkynna um úthlutun fyrir lok júní og gert er ráð fyrir að lóðirnar verði afhentar og byggingarhæfar í upphafi árs 2022.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar