Í gær, miðvikudaginn 2. júní s.l. var tilkynnt um útnefningu bæjarlistamanna Garðabæjar 2021 en það eru hjónin Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors.
Þau hjónin hafa verið áberandi í íslensku leikhúslífi saman og sitt í hvoru lagi og þar að auki leikið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Nú síðast hafa þau vakið athygli fyrir leikgerð af sjálfsævisögunni Vertu úlfur sem Unnur Ösp skrifaði og leikstýrði en Björn Thors leikur einleik í verkinu sem sýnt hefur verið fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu að undanförnu.
Þau hjónin búa í Garðabæ með börnunum sínum fjórum og var fjölskyldan og nánir vinir og samstarfsfólk samankomið í Sveinatungu til að fagna með bæjarlistamönnunum.