Smá hnökrar hér og þar

Stjarnan bikarmeistari í hópfimleikum kvenna og karla. Íslandsmótið um helgina

Íslandsmótið í hópfimleikum fer fram í fimleikahúsinu á Akranesi dagana 4.-6. júní nk. og Stjarnan sendir fjögur lið til þátttöku í meistaraflokki, tvö kvennalið og tvö karlalið. Það verður fróðlegt að fylgjast með liðunum og hvort þau fylgi eftir frábærum árangri um sl. helgi þegar þau Stjarnan 1 í karla- og kvennaflokki tryggðu sér bikarmeistaratitilinn í hópfimleikum.
 
Andrea Sif Pétursdóttir er fyrirliði Stjörnuliðsins og hún var spurð að því hvort hún hafi ekki verið ánægðimeð bikarmeistaratitilinn sem liðið vann um sl. helgi? ,,Jú, að sjálfsögðu, alltaf gaman að vinna,“ segir hún brosandi.

Vorum að taka smá sénsa

Gekk allt upp þessa helgi eða getið þið bætt ykkur í einhverjum greinum – eigið meira inni? ,,Nei, það voru reyndar smá hnökrar hér og þar sem má alltaf búast við, en við teljum að hnökrarnir núna hafi verið meiri en kannski venjulega hjá okkur. En við vorum líka að taka smá sénsa.“

Bikarmeistara kvenna í hópfimleikum. Stúlkurnar stefna á Íslandsmeistaratitilinn í hópfimleikum um helgina, en þá fer fram Íslandsmótið á Akranesi

Stefna á Íslandsmeistaratitilinn

Vegna Covid var ekki keppt á Íslandsmótinu í hópfimleikum í fyrra, en Stjarnan vann árið 2019 og því Íslandsmeistaratitilinn verið þeirra undanfarin tvö ár. En hvernig líst Andreu á mótið um næstu helgi. Markmiðið náttúrulega sett á Íslandsmeistaratitilinn og eigið þið góða möguleika á sigri? ,,Já, stefnan er sett á Íslandsmeistaratitilinn og er það raunhæft, en það má samt ekki fagna of snemma,“ segir hún í léttum tóni.

Þurfum að halda haus

Hvað þarf til svo þið komið aftur með Íslandsmeistaratitiinn heim í Garðabæ? ,, Við þurfum að halda haus en koma grimmari inn. Við vorum frekar rólegar í skapinu á Bikarmóti og þurfum að peppa okkur meira núna. „

,,Play it safe“

Nú er mjög stutt á milli bikarmótsins og Íslandsmótsins – það verður væntanlega ekki hægt að breyta miklu – sömu æfingar á milli móta eða bætið þið einhverju við fyrir Íslandsmótið? ,,Já, við ætlum bara að halda okkar striki, mögulega hækka eða lækka eitt og eitt stökk en engin gífurleg breyting. Meira að ,,play it safe“ það skilar yfirleitt bestum árangri, sérstaklega á svona mikilvægu móti.“

Alltaf smá efi sem grípur mann

Og þið ætlið að halda bikarnum í Garðabæ? ,, Já eins og ég segi það er raunhæft að við vinnum þar sem við höfum unnið bæði mótin á árinu með frekar miklum mun. En það er alltaf smá efi sem grípur mann þangað til úrslit eru tilkynnt.“

Karlalið Stjörnunnar tryggði sér einnig bikarmeistaratitilinn í hópfimleikum eins og stúlkurnar og þeir stefna að sjálfsögðu á Íslandsmeistaratitilinn um helgina. Á myndinni eru eru karlalið Stjörnunnar númer 1 og 2.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar