Úlfhildur Arna fór á kostum á RIG-leikunum

Garðbæingurinn og kraftlyftingakonan Úlfhildur Arna Unnarsdóttir náði frábærum árangri í ólympískum lyftingum á RIG-leikunum, sem er alþjóðlegt mót haldið ár hvert í Reykjavík og standa nú yfir.

Úllfhildur, sem er aðeins 17 ára var yngst 10 þátttakanda í kvennaflokki, en hún var ekki mikið að velta því fyrir sér og sigraði með 237,173 Sinclair-stig en næst á eftir henni varð hin norska Julia Jordanger með 233,223 stig og þriðja Maibrit Reynheim Petersen frá Færeyjum með 223,063. Kraftlyftingarkonurnar tíu sem tóku þátt á mótinu kepptu fyrir hönd fimm Norðurlandaþjóða á mótinu, en þetta var blönduð keppni þar sem tveir karlar kepptu líka fyrir Íslands hönd.

Og þar sem um liðakeppni var að ræða þá fékk Úlfhildur og aðrir þátttakendur ekki verðlaun fyrir einstaklingsárangur heldur lenti lið Íslands í öðru sæti á mótinu á eftir liði Noregs sem fór með sigur af hólmi.
Um tvær greinar var að ræða í liðakeppninni hjá Úlfhildi en hún lyfti 82 kg í snörun og 103 kg í jafnhendingu.

,,Ég er alveg ótrúlega ánægðu með árangurinn á mótinu,“ segir Úlfhildur Arna í stuttu spjalli við Garðapóstinn. ,,Mér leið ótrúlega vel í upphituninni og var að finna mig, en þar sem um liðakeppni var að ræða, en ekki einstaklingskeppni, gat ég ekki tekið alveg jafn mikla áhættu hvað þyngdir varðar,“ segir hún.

Úlfhildur fór létt með 82 kg í snörun. Myndirnar tók Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Átti ekki að vera með á mótinu

Úlfhildur kom nokkuð óvænt inn í lið Íslands á mótinu. „Já, ég átti ekki að vera að keppa á þessu móti,“ segir hún brosandi og heldur áfram: ,,Eygló Fanney Sturludóttir átti upphaflega að keppa fyrir hönd Íslands, en hún er meidd og þurfti að draga sig úr keppni og ég fékk að vita viku fyrir mótið að ég ætti að keppa,“ segir Úlfhildur.

Garðapóstinum lék forvitna á að vita hvernig það hafi komið til að Úlfhildur, sem er aðeins 17 ára, eins og áður hefur komið fram hafi byrjaði í kraftlyftingum? ,,Það má eiginlega segja að ég hafi uppgötvað lyftingarnar í gegnum crossfit, sem ég byrjaði að æfa árið 2017,“ segir hún að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar