Staðsetti Tinna í íslenskt umhverfi

Garðbæingurinn Óskar Guðmundsson, rithöfundur og listamaður er margt til lista lagt. Hann var að vinna að sinni fimmtu skáldsögu, sem hann átti að skila af sér núna í nóvember þegar Tinnamyndirnar tóku óvænt yfir tímaplanið hjá honum fyrir jólin.

Óskar hefur gefið út 4 glæpaskáldsögur, en fyrsta bók hans HILMA kom út árið 2015 og hlaut Blóðdropann sem bestu glæpasöguna sem kom út það árið og um leið tilnefnd til Glerlykilsins sem besta glæpasaga Norðurlandanna. Þriðja skáldsagan Boðorðin var gefin út í Bretlandi og er um þessar mundir tilnefnd til glæpasagnaverðlaunanna Petrona sem besta Skandinavíska glæpasaga.

Óskar sendi svo frá sér skáldsöguna Dansarinn fyrir síðustu jól sem kom út undir merkjum Storytel og var því bæði gefin út sem bók og hljóðbók en hún sló þar rækilega í gegn og vann til verðlauna sem besta skáldsagan það árið.

Tinni á gott spjall við Halldór Laxness á Gljúfrasteini

Tinna á gott spjall við Halldór Laxness

Í júní síðastliðinn hélt Óskar myndlistarsýningu í Epal Laugavegi þar sem hann kom með Tinna og félaga heim til Íslands og staðsetti þá í Íslenskt umhverfi og má þar nefna við Hallgrímskirkju, Kerlingarfjöll, við rætur Heklu og við Gljúfrastein þar sem Tinni á gott spjall við nóbelsskáldið Halldór Laxness. Þessa dagana vinnur Óskar hörðum höndum að næstu skáldsögu sem mun koma út á næsta ári.

Kúnstin að hafa tímarammann raunhæfann

Garðapósturinn velti því fyrir sér hvernig hann skipulagði daginn enda ansi margt í gangi hjá honum um þessar mundir? ,,Það getur nú stundum verið kúnstugt að koma öllu heim og saman þar sem ég er nú ekki þekktastur fyrir að vera mjög skipulagður. En ég hef þó lært með tímanum að gefa mér tímaramma en kúnstin er kannski að hafa hann raunhæfan og heita sjálfum sér því að standa við hann. Þetta hefur yfirleitt tekist þó var ég á góðu róli með skáldsöguna sem ég er að vinna að í dag þegar Tinnamyndirnar tóku óvænt yfir tímaplanið. Það var ætlunin að gefa söguna út í byrjun nóvember en það tókst nú ekki þannig að hún kemur út á næsta ári,” segir Óskar.

40 ára gamall draumur að rætast með Tinna

Óskar segist hafa málað og teiknað frá því hann man eftir sér. Hann lagði stund á myndlist í Handíða- og myndlistaskóla Reykjavíkur og hefur í gegnum tíðina haldið nokkrar sýningar. Aðspurður hverskonar myndir hann hafi helst fengist við segir hann að þær hafi verið af ýmsum toga. „Ég hef verið óhræddur við að fara ótroðnar slóðir og prófað ýmsar aðferðir við listsköpunina. En nú þegar ég ákvað að takast á við Tinnaverkin þá var það í rauninni um 40 ára gamall draumur sem ég ákvað að láta rætast. Frá því á fermingaraldri hafði mig alltaf langað til að koma með þá Tinna og félaga almennilega heim til Íslands en í bókinni Dularfulla Stjarnan komuð þeir við á Akureyri áður en þeir héldu áfram för sinni til Norðurheimskautsins,“ segir Óskar en myndir hans hafa vakið mikla athygli og hafa verið vinsælar. Hann segir það sérstaka tilfinningu að vita til þess að myndir hans hangi nú á veggjum viðskiptavina um alla Evrópu, Bandaríkjunum, Brasilíu og Indlands svo eitthvað sé nefnt.

Óskar á Vinnustofu sinni í Lyngási 11 Garðabæ

Teiknar viðskiptvina inn á myndirnar með Tinna

„Þá hafa viðskiptavinir lagt inn sérpantanir en ég býð upp á þann möguleika að gera grafískar myndir þar sem ég teikna aðila inn á mynd með Tinna en sumir eru að panta þannig myndir til að gefa maka, fjölskyldumeðlim eða vinum almennt í afmælis- eða jólagjöf. Það eina sem ég þarf er ljósmynd af viðkomandi.“

Aðspurður segir Óskar að verð fyrir slíkar myndir séu mismunandi. ,,Sumar eru frekar einfaldar það er að segja að á myndinni heldur viðkomandi utan um Tinna þar sem Tobbi situr á milli þeirra. Aðrar myndir geta verið mun flóknari sem liggur í því að fleiri karakterar eru á myndinni og jafnvel landslag eða hýbýli viðkomandi,” segir hann en áhugasamir geta haft samband við Óskar til að leggja inn pöntun.

,,Viðskiptavinir geta lagt inn sérpantanir, en ég býð upp á þann möguleika að gera grafískar myndir þar sem ég teikna aðila inn á mynd með Tinna en sumir eru að panta þannig myndir til að gefa maka, fjölskyldumeðlim eða vinum almennt í afmælis- eða jólagjöf. Það eina sem ég þarf er ljósmynd af viðkomandi“ segir Óskar

Gerði þriggja bóka samning við Storytel

Aðspurður með framtíðarplön er kemur að rithöfundinum segist Óskar hafa gert þriggja bóka samning við Storytel árið 2020 og er Dansarinn fyrsta bókin í þríleiknum. Síðan verður mikið að gera í kringum útgáfur erlendis en Óskar seldi réttinn að öllum skáldsögum sínum til Norðurlandanna og nú þegar er Dansarinn kominn út á dönsku. ,,Enska þýðingin af Dansaranum kemur út á næstu dögum og verður aðgengileg í öllum löndum Storytel eða í um 30 löndum. Það verður því í nægu að snúast í kringum þetta og þá kem ég einnig til með að sækja ýmsar glæpasagnahátíðar,” segir Óskar, en hann var einmitt einn af skipuleggjendum að íslensku glæpasagnahátíðinni Iceland Noir ásamt Evu Björgu Ægisdóttur, Ragnari Jónassyni og Yrsu Sigurðardóttur í síðustu viku. Hann segir að sú hátíð hafi farið ört stækkandi og stór nöfn rithöfunda séu farin að sækjast eftir þátttöku. ,,Til að mynda komu núna í nóvember til okkar þeir David Walliams og Richard Osman. Þá hefur Dan Brown staðfest komu sína að ári,” segir hann.

Tinnamyndirnar kveiktu á ótal hliðarhugmyndum

Aðspurður hvort hann leggi þá pensilinn til hliðar segir hann ekki svo vera. Hann er að vinna að og þróa nýjar teiknimyndahetjur sem muni líta dagsins ljós næsta vor. ,,Tinnamyndirnar og þær aðferðir og tækni sem ég kynntist við gerð Tinnamyndanna kveiktu ótal hliðarhugmyndir sem ég er byrjaður að vinna að og það verður spennandi að sjá hvernig þessar nýju persónur muni sóma sér í íslenskri náttúru og á ýmsum stöðum í Reykjavík, Akureyri og víðar. Þessi nýja persóna er í rauninni byggð á aðalpersónu sem fæddist í fyrstu skáldsögu minni Hilmu þannig að ég get lofað miklum hasar í myndunum,” segir Óskar að lokum.

Það verður spennandi að fylgjast með framvindu verkefna hjá Óskari en þeir sem hafa áhuga á að líta á Tinnamyndirnar geta séð verkin á www.tinnamyndir.is og þeir sem hefðu áhuga á að kíkja á vinnustofuna hans í Lyngásnum geta sent honum línu á [email protected]

Óskar sjálfur með Tinna
Vinátta

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar