Lífið í bæjarstjórn

Bæjarstjórn Kópavogs samanstendur af ellefu fulltrúum sex stjórnmálaflokka. Fjórir frá Sjálfstæðisflokki, tveir frá Framsókn, tveir frá Vinum Kópavogs og einn frá Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum. Tveir fyrstnefndu flokkarnir mynda meirihluta. Oftast reynum við að ræða þau mál sem til umræðu eru á uppbyggilegan hátt. Við komum með okkar innsýn í málefnin og oft meiri upplýsingar en fyrir liggja. Þar skiptir máli að bæjarbúar hafi samband við okkur og segi okkur frá því sem betur má fara í bænum okkar. Þá getum við komið því í umræðu innan stjórnsýslunnar. Almenna reglan er að fulltrúar minnihlutaflokkanna tala mest. Oftast er það bæjarstjórinn sem verður fyrir svörum en þó skiptir okkur öll miklu máli að fulltrúar Kópavogs í stjórnum Sorpu og Strætó segi frá því sem er að gerast í byggðasamlögunum okkar sem við greiðum okkar skerf til í samræmi við íbúafjölda. Eins og gefur að skilja tilheyra þessir fulltrúar alltaf meirihlutanum.

Fjárhagsáætlunin

Á síðasta bæjarstjórnarfundi var fjárhagsáætlun bæjarins rædd í annað sinn, svo kölluð seinni umræða. Á milli umræðna eru gerðar lagfæringar og breytingar á áætluninni ef einhverjar eru. Í fyrsta sinn í sjö ár var áætlunin ekki samþykkt samhljóma. Allir minnihlutaflokkarnir sátu hjá við afgreiðslu. Þetta var ekki okkar áætlun og ekki þau vinnubrögð sem við áttum von á. Við höfðum hvert og eitt okkar ástæðu til hjásetu en vorum öll sammála um að sú vegferð sem stefnt hafði verið að með stefnumiðaða fjárhagsáætlun þar sem ákvarðanir síðasta árs eru endurmetnar áður en fjárhagsáætlun næsta árs er unnin hafi ekki verið viðhöfð í þetta sinn.

Mögulegur taprekstur

Ég hef töluverðar áhyggjur af því að skila á rekstraráætlun næsta árs með mjög naumum afgangi eða sem nemur um 0,17% af tekjum. Ef ekki kemur til töluverð lóðasala á næsta ári mun rekstrarniðurstaða næsta árs enda í mínus, því það bætast alltaf við ófyrirséðir kostnaðarliðir innan ársins sem bregðast verður við. Þrátt fyrir að þessi niðurstaða lægi ljós fyrir var meirihlutanum mikið í mun að lækka skatta sem var m.a. gert með því að lækka fasteignaskattsprósentuna úr 0,20% í 0,17% sem er með því lægsta sem þekkist á Íslandi. Kópavogur er eitt af 13 sveitarfélögum (af 69) sem fullnýtir ekki útsvarsprósentu sína. Hún er 14,48% en má vera 14,52%. Viðbótin er um 2.000 kr. á íbúa en 85 milljónir fyrir bæinn. Það munar um allt þegar fjárhagurinn er svona naumur og ábyrgðarhluti að skila fjárhagsáætlun sem skal vera sjálfbær með svo litlum afgangi. Þess vegna sat ég hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.

Bergljót Kristinsdóttir
Oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar